[Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 25. ágúst]

Heilmáni í Edinborg

• Mike Scott úr Waterboys hefur gefið út endurminningar sínar
• Las upp í Edinborg fimmtudaginn síðastliðinn ásamt Ian Rankin
• Morgunblaðið var á staðnum

Það mætti segja að staðsetning þessa tiltekna upplesturs hafi verið á mörkum þess að vera epísk, líkt og tónlist Scotts sem hann hefur unnið ýmist einn eða í gegnum sveit sína Waterboys í hartnær þrjátíu ár. Hann fór fyrir það fyrsta fram í Edinborg en þar fæddist Scott árið 1958. Sjálft húsið var þá St. Cecilia‘s Hall, elsta tónlistarhús borgarinnar. Byggt árið 1763 og er annað elsta sinnar tegundar á öllum Bretlandseyjum sem enn er í notkun.

Ævintýri

Bók Scotts kallast Adventures of a Waterboy og þar fer hann yfir feril sinn í máli og myndum. Fyrstu þrjár plötur Waterboys sem komu út á árabilinu 1983 – 1985 innihéldu risavaxna, dramatíska og tilfinningaþrungna tónlist og var sveitin farin að sigla upp að U2 hvað vinsældir og viðurkenningu varðaði undir bláendann á því tímabili. Þekktasta lag sveitarinnar frá þessum tíma er „The Whole of the Moon“, skammlaus og ofurrómantískur óður til máttar mannsandans. Heimsfrægðin beið handan við hornið en Scott hafði ekki áhuga, fór þess í stað til Írlands til að sinna kalli listgyðjunnar. Leit að einhverju hreinu, sókn eftir Guði og sannleikanum hefur litað tónlistarsköpun Scotts alla tíð líkt og með hans helstu átrúnaðargoð í tónlistinni, Van Morrison og Dylan. Útkoman úr Írlandsför var platan Fisherman‘s Blues sem þykir af mörgum vera toppurinn á ferli Scott. Ekki náði hann að fylgja henni eftir sem skyldi en virkur hefur hann verið allar götur síðan og nýlega kom út plata þar sem hann tónsetur nokkur ljóð eftir W.B. Yeats.

Eftirsjá

Scott og Rankin sátu uppi á sviði með hljóðnema fyrir framan sig og í góðri nálægð við gesti, salurinn innilegur og hlýr. Rankin skaut út nokkrum spurningum til að hita okkar mann upp og skondið að sjá að Rankin, þessi heimsfrægi spennusagnahöfundur, var eins og lítill hvolpur í nálægð Scotts sem hann var greinilega með á stalli. Spjallið var stirt til að byrja með og uppsetningin kom mér dálítið á óvart. Scott er að túra bókina um þessar mundir og ég átti von á að hann hefði tögl og hagldir í framvindunni, myndi stýra málum og lesa upp með tilþrifum, svona líkt og um uppistand væri að ræða. Það var hins vegar meira eins og Scott væri gestur í þætti sem hann hefði hálfpartinn verið dreginn í. En tíminn vann með okkur og Scott varð rólegri – og einlægari – eftir því sem á leið. Hann komst greinilega inn á ákveðið þægindasvæði þegar hann las upp, eitthvað sem hann gerði af natni og ástríðu. Ýmislegt skemmtilegt kom í ljós, t.a.m. sagði hann okkur frá því að hans eina eftirsjá hefði verið að gefa Fisherman‘s Blues ekki út sem tvöfalda ef ekki þrefalda plötu. Á þeim tíma hefði hann ekki kunnað að meta fegurðina í hinu ófullkomna; að leyfa tökum að standa vegna innblástursins sem í þeim væri og líta framhjá því að bassaleikarinn hefði slegið eina falska nótu.

Regnboginn

Áhorfendum var svo boðið að spyrja í restina. Scott sagði okkur m.a. frá því þegar hann dvaldi í Findhorn í Norðaustur-Skotlandi þar sem hann stillti sig af andlega („ég komst t.d. að því að ég þarf ekki alltaf að vera við stjórnvölinn,“ sagði þessi mikli stjórnunarfíkill). Hann var þá spurður hvort hann væri enn í sambandi við Karl Wallinger (World Party), sem var einn af hans helstu samstarfsmönnum í fyrndinni en alkunna er að þeir talist ekki við. Scott svaraði því til að eðlilegum samskiptum yrði komið á þegar Wallinger væri búinn að biðja hann fyrirgefningar en mærði hann síðan fyrir tónlistargáfurnar.
Kvöldið endaði á því að Scott áritaði bækur fyrir þá sem vildu. Ég labbaði upp að þessu átrúnaðargoði mínu sem ég hef fylgst með af djúpstæðum áhuga í næstum kvartöld, tók í höndina á því og sagði: „Takk fyrir tónlistina Mike. Megi hún halda áfram lengi vel.“ Og í eitt augnablik fannst mér eins og ég héldi á regnboga.

VIÐAUKI!!!

1. Myndbandið við The Whole Of The Moon (þar sem „haldið er á regnboga“) 

2. „December“, hið magnþrungna opnunarlag fyrstu Waterboys plötunnar

3. „When Ye Go Away“ af Fisherman’s Blues, eitt fallegasta lag sem Scott hefur samið. 

Tagged with:
 

6 Responses to Mike Scott: Upplestur í Edinborg

  1. …þarna hefði ég viljað vera og hlýða á þenna mikla meistara – Mike Scott verið í miklum metum hjá mér síðan fyrstu plötur the Watrerboys komu út – mikill snillingur þarna á ferð.

    • Davíð Smári Jónatansson says:

      Vel mælt Gísli, hann er mikill snillingur, þú verður að fara að sjá hann. Ég bíð spenntur eftir nýrri tónleikaferð, hef heyrt innan búða að Anthony Thistletwaite gæti orðið með. Í fyrsta sinn í fjölda ára. Mike er líka frábær upplesari, frábær rödd. Takk fyrir linkinn.

    • Thistlewaite nettur ekki amalegt að draga hann með. – ég þarf nú að fara að drulla mér á gig

  2. Davíð Smári Jónatansson says:

    Takk fyrir þetta, ég var næstum búinn að hoppa til Edinborgar og hlíða á hann. Bókin er frábær, mæli með henni.

  3. Davíð Smári Jónatansson says:

    Takk fyrir greinina. Munaði litlu að ég hafi hoppað um borð í flug og mætt á staðinn. Mike Scott hefur verið uppáhaldslistamaður síðan ég heyrði Red Army Blues fyrir ansi mörgum árum. Þetta hefur örugglega verið frábær stund. Hann er með frábæra rödd, ekki bara söngrödd heldur að hlusta á hann fara með ljóð og hlusta á viðtöl, ekki síður. Ég sá Yeats tónleikana með honum, þeir voru frábær.

  4. Þetta langar mig að lesa. Sagði ég þér nokkurn tíman frá því að ég sá eitthvað minni háttar írskt þjóðlagaband á sviði í UHart í fyrra? Það er skemmst frá því að segja að mér þótti bassaleikarinn afar kunnuglegur og hann bar af á sviðinu. Þegar kynningar fóru fram var kallinn kynntur sem Trevor "The Hutch" Hutchingson!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: