Sótt eftir silfri en í greipum er gull

„Það er búið að fjalla meira um þetta eina lag Tilbury en þessa nýju plötu Sigur Rósar!,“ sagði góður vinur minn við mig um daginn. Það er ýmislegt til í því. Lagið „Tenderloin“ fór eins og sinueldur um internetið fyrir um mánuði eða svo og fólk lá linnulaust á kommentakerfum, dásamandi snilldina. Og ekki að ástæðulausu. Fáránlega grípandi lag, skrítið en samt eitthvað svo rökrétt í uppbyggingu og gerð. Sin Fang og smá Paul Simon í röddinni. Einhver 70’s Abba fílingur líka. Belle & Sebastian áferð hvað framvindu varðar og Grandaddy-keimur í hljómborðum. Jú, allt þetta kom í hausinn þegar á var hlýtt en um leið var eitthvað algerlega einstakt við þetta. Hvaðan kom þetta?

Í ljós kom að um sveit trymbilsins Þormóðs Dagssonar var að ræða og á hún upptök sín í Formanni Dagsbrúnar, verkefni sem var sett utan um tónsmíðar Þormóðs árið 2010. Þormóður, sem er hvað þekktastur fyrir að hafa barið húðir með sveitum eins og Jeff Who, Skakkamanage og Hudson Wayne stígur nú fram fyrir skjöldu og semur lög auk þess að syngja og leika á píanó og gítar.

En hvernig væri nú að hætta að tala um þetta eina lag? Skoða kannski breiðskífuna sem  inniheldur átta lög til viðbótar við umræddan smell og kallast því dularfulla nafni Exorcise?  Sem betur fer stendur verkið undir þeim væntingum sem lagið atarna var búið að byggja upp (annars hefði maður orðið brjálaður!). Lög eins „Drama“ og „Riot“ standa lítt að baki laginu sem ég er að reyna að hætta að tala um. Lögin hljóma á yfirborðinu eins og fremur hefðbundið nýbylgjupopp en það er „eitthvað“ sem skekkir þau eitthvað svo skemmtilega, hvort sem það er meðvitað eða ekki. „Riot“ fer t.a.m. kæruleysislega nákvæmlega þangað sem það vill fara í taktbreytingum og hljómfalli og þegar viðlagið brestur á í „Drama“ á c.a. 0.50 með línunum „I must rely on my  faith/Cause it’s a long walk home“ brestur um leið á með gæsahúð. Frábært lag. Það eru líka athyglisverðar mótsagnir í plötunni sem gefa henni auka vigt. Exorcise, drama, riot … þetta eru ekki orð sem maður setur í samhengi við hinn pollrólega Þormóð sem syngur þessi lög á nánast fjarrænan hátt.

Önnur lög hljóma nánast eins og millispil í samanburði við þessi þrjú. Þau sökkva þó inn með tíð og tíma og samhengi og heildarmynd plötunnar verður sterkari eftir því sem hlustunum fjölgar. „Slow Motion Fighter“ er prýðilegt dæmi um þetta, Air-leg hljómborðin byggja undir sterka áttunda áratugs nostalgíu, ég fór t.d. að hugsa um bernskuárin þegar maður horfði tíðum á frönsku teiknimyndirnar Einu sinni var. Platan rúllar nokkurn veginn í sama fasa, allt fram að tveimur lokalögunum, sem eru bæði tvö nokkuð á skjön við það sem á undan hefur farið. „Eclectic Boogaloo“ er rífandi rokklag með ýlfrandi gítarhljómi og „Filet Mignon“ sker sig enn frekar frá, undurfurðuleg ballaða, allt allt öðruvísi en allt sem plötuna prýðir. Soffía Björg Óðinsdóttir leggur þar til rödd og kemur lagið inn eins og eftirá-hugsun, svona  „hei, svo erum við með þetta lag líka.“

Kristinn Evertsson hljómborðsleikari gerir mikið fyrir plötuna, hljóðmotturnar sem hann breiðir yfir lögin gera mikið fyrir þau. Aðrir hljóðfæraleikarar standa sig einnig með mikilli prýði, þeir Örn Eldjárn (sem á hér lagið „Picture“), Guðmundur Óskar Guðmundsson og Magnús Trygvason Elíasen. Hljómur plötunnar er fyrirtak og umslags- og ímyndarhönnun sömuleiðis en bróðir Þormóðs, Hugleikur, er myndskreytir.

Það verður að segjast eins og er að þetta er tilkomumikill frumburður. Þó að um fyrstu skref sveitar séu að ræða eru þau einkennilega örugg og það er eins og leiðtoginn viti upp á hár hvert hann er að fara. Tíðindi ársins í íslenskri plötuútgáfu hingað til.

Hér má hlýða á plötuna í heild sinni:

http://www.gogoyoko.com/album/Exorcise

Hér má sjá innslag sem ég og Sighvatur gerðum fyrir Tónlistarstund mbl:

http://mbl.is/frettir/sjonvarp/71055/?cat=thaettir

Myndbandið við „Tenderloin“:

 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: