Einstakur Áhrif Árna Grétars Jóhannessonar á íslenskt tónlistarlíf voru mikil. Portrettið af honum var tekið 2019. — Morgunblaðið/Hari.

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 11. janúar.

Án tónlistar …

… væri lífið mistök. Svo sagði heimspekingurinn umdeildi Friedrich Nietzsche. Hjá Árna Grétari heitnum Jóhannessyni var lífið blessunarlega stútfullt af tónlist og gjafir hans á því sviði miklar.

Og er Árni Grétar líka á þeirri plötu?“ segir einn dómnefndarmeðlimurinn glettinn þegar verið var að sortera útgáfu síðasta árs fyrir Kraumsverðlaunin. „Nei, að vísu ekki. Ótrúlegt en satt,“ segir annar og kímir. Samtalið er eðlilegt, enda tók Árni Grétar Jóhannesson, sem kallaði sig oftast nær Futuregrapher þegar hann bjó til tónlist, þátt í óhemju mörgum útgáfum bara á síðasta ári. Árni lést á sviplegan hátt í upphafi þessa árs og óhætt að segja að skarð sé fyrir skildi í tónlistarlífi þessa litla lands. Í raftónlistargeiranum var Árni kjölfesta til áratuga, óhemju virkur í alls kyns tónlistarsköpun (undir nöfnum eins og Futuregrapher, Karl Marx, Árni Grétar, Mega Segas, Dj Dorrit, Siggi Stasi, Bjarni Ben, JP8080 o.fl.), kom að samstarfi við íslenska sem erlenda tónlistarmenn, tók þátt í tónlistarhátíðum og útgáfum, stofnsetti t.a.m. Möller Records ásamt fleirum og ruddi út plötum í hundraðatali í gegnum merkið sitt Móatún 7. Árni var galdrakarl. Aðsópsmikill, vænn og virkur. Og hjálpsamur. Það var hann sem gaf verðlaun fyrir rafheila Músíktilrauna í árafjöld, það var hann sem gerði, græjaði og hélt hlutum á floti. Samfélagsmiðlar, þessi sérkennilegi gluggi út í lífið „þarna úti“, bera þessu vitni en „veggir“ Fjasbókarinnar eru nú fullir af virðingarvottum. Og ekki bara frá raftónlistarsamfélaginu því að Árni fór víðar en það.

En hver var tónlistarmaðurinn Árni Grétar Jóhannesson? Ég varð hans fyrst var í Músíktilraunum árið 1998 með tálknfirsku sveitinni Equal, hvers nafn hefur nú tekið á sig annars konar og dýpri mynd. Þá var hann ekki nema fjórtán ára. Á næstu árum tók Árni að búa sig til sem raftónlistarmann, tók m.a. þátt í hinum mótandi weirdcore-kvöldum sem fóru fram undir endaðan fyrsta áratuginn. Nafnið Futuregrapher kemur svo fyrst fram í fréttamiðlum 2009. Á þessum tíma kynntist hann Sveinbirni Þorgrímssyni, Biogen, sem hann nefndi sem læriföður sinn í fræðunum (Biogen lést árið 2011, 35 ára að aldri, en líkt og Árni var hann mikill driffjöður í íslenskri raftónlist). Segja má að „ambient“-tónlist eða sveim hafi verið nokkurs konar grunnstef hjá Árna en teknóskotið var það oft og ýmis tilbrigði setti hann á það. Hann gerði líka sýruteknó, hús og „trommu og bassa“ og lét merkimiða ekki hafa áhrif á það sem hann þurfti að koma frá sér.

Eins og gefur að skilja er ekki auðvelt að veiða upp eitt verk sem lýsir Árna sem tónlistarmanni. Platan sem hann gerði með Jóni Ólafssyni, Eitt, er mjög falleg „ambient-plata“ og ekki er Geirþjófsfjörður síðri, plata sem undirstingur íslensk minni skemmtilega en Árni gat verið vel léttur á bárunni og gaf út plötur sem heita t.d. Ýsa í raspi og Grænar baunir. Hann bjó þá eitt sinn til litla útgáfu sem heitir Sparisjóður raftónlistarmanna. Yndisleg er þá 03-05_08_18, tveggja laga plata sem hann tileinkar drengjunum sínum tveimur. Naumhyggjuleg og umvefjandi.

Árni var stór og fór víða og átti í alþjóðlegu samstarfi við alls kyns fólk. En hann var líka alltaf strákurinn frá Tálknafirði og sú staðreynd varð honum oft yrkisefni. Hvíli hann í friði, hvíli hann í tónlist, þar sem hann var alltaf heill, frjáls og mikill.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: