Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 26. janúar, 2019


Svefninn laðar


Thought Spun er ný plata eftir tónlistarkonuna Myrru Rós. Fallegt verk sem ristir djúpt og er hennar persónulegasta til þessa.

Þessi plata er mest „ég“ af þessum þremur sem ég hef gefið út,“ segir Myrra Rós í samtali við blaðamann vegna Thought Spun, sem út kom fyrir stuttu (fáanleg á Bandcamp, Spotify og Youtube eins og er). Myrra Rós hefur vaxið fallega sem tónlistarmaður, allt síðan fyrsta plata hennar, Kveldúlfur (2012) kom út. Á henni var hún að finna fótum sínum forráð, nýlögð út á ísinn og platan bar ýmis merki byrjendaverksins. Risastór skref voru síðan tekin fram á við á næstu plötu, One Amongst Others (2015) og vart hægt að greina að hér væri sama listakona á ferð. Fágæt perla, þar sem allt gengur upp, hvort heldur í lagasmíðadeildinni eða hvað hljóðheim varðar. Fallegt, áreynslulaust og snoturt flæði hvar strengir, píanó og gítarstrokur synda um í fullkomnum samhljóm.

Það er því æði magnað að Myrru tekst að toppa sig á þessari nýjustu plötu, umyrðalaust hennar langbesta plata til þessa, verkið heilsteypt bæði og úhugsað. „Ég ætlaði sko ekkert endilega að gera nýja plötu“, upplýsir hún. „Ég hafði unnið með Bassa Ólafsyni í tónsmiðju KÍTÓN í upphafi síðasta árs og kunni því vel, hljóðverið hans hefur svo góðan anda. Ég sótti svo um styrk hjá Rannís með það í huga að ef ég fengi styrkinn myndi ég vilja gera næstu plötu með Bassa. Og þetta varð að veruleika.“

Platan er ólík fyrri plötunum um ýmislegt, var t.d. tekin upp á einum stað og af einni og sömu manneskjunni sem Myrra lýsir sem góðri upplifun. Innihaldslega er hún samkvæmt Myrru „hreinskilnari og aðeins meira dimm en hinar.“

Það er ekki alltaf sem listamennirnir sjálfir eru góðir í að lýsa eigin verkum en þetta með dimmuna og hreinskilnina er kórrétt. Platan er myrkari og meira straumlínulaga en síðasta verk. Meiri naumhyggja og gotneskur („goth“) blær yfir. Dúnmjúkt rökkur, biksvartar stemmur. Tónninn er settur með „Red Thread“ og við rúllum inn í skuggum bundið svæðið. „Water“ er dularfullt, byrjar með hálfgerðum Joy Division bassa og Myrra tónar grandvör yfir. Svo er skipt glæsilega um gír og dásamleg bakrödd styður við melódískan framganginn (Lára Þöll, dóttir Myrru). Hápunktur plötunnar er svo „Ghost Birds“, stórkostlegt lag, það er ekki hægt að lýsa því öðruvísi. Þar heyrir maður svo vel hversu frábært samstarf Myrru og Bassa hefur verið. Þau eru að lesa hvort annað. Bassi setur kröftugar trommur undir annars stighækkandi framvindu sem brotnar svo upp, hálf óvænt, er langt er liðið á lagið. „Sleeping is for dreamers“ syngur Myrra, viðkvæmnislega og angistin í röddinni er áhrifarík. Önnur lög eru af svipuðum staðli og ljóst að jólin komu mjög snemma í ár, ein af plötum ársins þegar lent og janúar bara hálfnaður. Vel er þá mannað í brúnni eins og segir hvað plötuvinnsluna varðar en auk Bassa koma Lovísa Elísabet Sigrúnardóttir (Lay Low), Sóley og Elín Ey að málum. Ekkert hefur verið ákveðið með tónleikahald til að fylgja plötunni eftir og við verðum því að „spinna“ góðar hugsanir í garð tónlistarkonunnar, og vona að þær hrindi henni út í slíka starfsemi. Karma heimsins myndi hækka, svei mér þá.

 

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published.

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: