Dirfska Ingibjörg Turchi fetar eigin slóð af mikilli list á plötunni Stropha. — Ljósmynd/Hans Vera.

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 7. október.

Grimmt flæði

Stropha er önnur hljóðversplata bassa­leikarans fjölsnærða Ingibjargar Turchi. Stemningin er öllu grimmari og „erfið­ari“ en á síðasta verki og skal lesa þessa lýsingu mína sem ­hámarkshrós.

Þegar Meliae (2020) kom út vissi ég í raun að hún yrði stórkostleg þar sem ég hafði heyrt aðdragandann, plötuna Wood/Work sem kom út í afar takmörkuðu upplagi árið 2017 (og átti rætur í tónlist sem tekin var upp 2016). Ég hafði þá þekkt Ingibjörgu sem iðinn meðspilara fyrst og fremst en þarna steig hún fram sem tónskáld. Landslið ungra, íslenskra djassara kom að plötunni með henni og innihaldið nútímadjass, spuni, naumhyggja og melódíusprettir. Allt í miklu jafnvægi, tilraunir reglulegar en aldrei á kostnað lagabyggingar né heildarhugsunar.

Stropha kemur núna í kjölfarið og er nokkuð ólík frumburðinum. Ásamt Ingibjörgu, sem leikur á rafbassa, koma fram þau Hróðmar Sigurðsson (raf- og kjöltugítar), Magnús Jóhann Ragnarsson (píanó og mellótron), Magnús Trygvason Eliassen (slagverk), Tumi Árnason (tenórsaxófónn, bassaklarínett, blokkflauta, sekkjapípuflauta), Björg Brjánsdóttir (bassaflauta), Rósa Guðrún Sveinsdóttir (barítónsaxófónn) og Sólveig Morávek (klarínett).

Upptökur fóru fram í Sundlauginni og Halastjörnunni og þeim stýrði Birgir Jón Birgisson.

Platan er alls ólík Meliae eins og ég segi en þó ekki. Höfundareinkenni má auðveldlega greina en hér skilur Ingibjörg þetta höfuga flæði sem einkenndi fyrri plötuna dálítið eftir. Þessi er fjölbreyttari, hvassari. Á meðan Meliae var meira og minna línuleg tekur þessi stökk og dýfur til allra átta og hliða. Þannig lagað.

„Intro“ er stillt, blástur og brass einkennandi. Flautur lágværar og … óstöðugar? Það er dálítið einkennið á þessari plötu, var ég að fatta, að hún er óútreiknanlegri en Meliae, á það til að láta þér bregða og fara með þig í óvæntar áttir. „Tímabundið“ er fyrsta „hefðbundna“ lagið og enn er blástur í burðarrullu (gerið það, ekki setja það á mig að greina hljóðfæri þessi í sundur!). Bassi og píanó læðast svo inn og stemningin hækkar upp í smávegis kakófóníu með smá ógreinanlegum söng meira að segja. „Epta“ kemur svo, hálfgert popp jafnvel, með suðrænni slaggígju. Blástur magnast svo upp og „poppið“ endar í sæmilegustu brjálsemi. Það er verið að undirbúa okkur. „Júlí“ byrjar þannig með drungalegum píanóslætti, nánast gotneskum, og við það fer ókennileg atburðarás af stað. Jú, það eru melódíur þarna en um miðbikið „ræðst“ kvalinn gítar á restina af hljóðfærunum, blásturinn gefst ekki upp og heldur áfram á meðan slagverkið heldur þessu á teinunum. Nokkurn veginn. Afstraktbundin óhjóðasúpa lokar laginu og það rennur kalt vatn á milli skinns og hörunds þess er ritar. Eftir brassmillispil („Nuovo“) fer „Physalia“ af stað og enn er okkur boðið upp á óvæntar fettur og brettur. Auðvitað. Flott gítarglingur opnar það, blásturinn fylgir, nærgætinn nokk, og slagverkið trommast svo upp. Merkilegt hvað maður verður í raun lítið var við bassann, hann styður meira við, það eru engin sóló í gangi eða keppni í Ólympíuleikum. Minnir smá á On the Corner með Miles Davis, hvar meistarinn var m.a. gagnrýndur fyrir að spila ekki nóg (má maður flexa smá djasskunnáttu!). Nærgætni já, en um miðbikið fer að hvessa og lagið nánast lognast út af síðan, eins og það fari að sofa. Þetta eru alger „ferðalög“! „Neos“ er snjallstemma, mikið í gangi og mikil læti og „Solo“ er lagt undir bassann að mestu. Ég var ekki að segja alveg satt hérna áðan. En slagverkið, blásturinn og annað er samfara í tryllingslegum dansi. „Anemos“ lokar plötunni. Hægt skríður það af stað en áður en langt um líður hellist klöngrandi sýran yfir og hálfgildings óhljóðalist tekur yfir.

Tvískipt lag í raun og um leið táknrænt fyrir plötuna alla. Hér eru melódíu- og eðlilegheit í unnvörpum en líka bara alls ekki. Er þetta sem sagt málið? (Kata)-Stropha? Forngríska orðið strophe merkir að snúa, beygja og Arnar er því búinn að ráða gátuna (broskall)! Vel spilað Ingibjörg og þið öll!

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: