Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 14. október.

Þannig kemst ljósið inn

Ljós og skuggar er ný hljóðversplata eftir Bubba Morthens og kom hún óforvarandis út í gær. Plötuna vann hann með Hafsteini Þráinssyni og Magnúsi Jóhanni Ragnarssyni. Dimmt er yfir og drungalegt.

„Er þetta Cohen-platan þín, Bubbi?“ sagði vinur hans víst við hann þegar hann fékk að heyra Ljós og skugga á vinnslustigi. Já, ekki fjarri lagi en Cohen-vottar hafa verið að leita inn í tónlist Bubba annað slagið, sérstaklega að undanförnu. Nick Cave kannski frekar? Já, mér finnst það. Joy Division? Klárlega. Nebraska Brúsa frænda? Já já.

Síðustu tvær plötur Bubba hafa verið sprúðlandi; Sjálfsmynd 2021 og Regnbogans stræti 2019, þykkur og lifandi hljómur og band í undirleiknum. Túngumál (2017) er meira í ætt við þessa plötu; hún var strípuð, afgerandi og einföld svona til þess að gera. En á meðan Túngumál var mikil gítarplata, hvar nikkað var til Suður-Ameríku, líður þessi um bæði dökkhjúpuð og þung. Hvert og eitt lag er rökkurbundið og melankólían er beinlínis seiðandi frá fyrsta tóni til hins síðasta.

Þeir Hafsteinn og Magnús, sem upptökustýrðu, útsettu og hljóðrituðu, vinna gott verk og hæfandi mætti segja (Hafsteinn hljóðblandaði auk þess og útsetti strengi en Bergur Þórisson hljómjafnaði). Hljóðmyndir allar eru algerlega í takt við melódíuna og viðfangsefnin. Undir gítarspili og söng má greina rusk, rask og dökkleita hljóðgervla sem styðja við stemninguna. Ólm og ókennilegheit sem setja flottan fókus á söguþræði eða söngþræði kannski öllu heldur. Hafsteinn og Magnús léku á gítara og hljómborð, Bubbi söng, blés í munnhörpu og lék á gítar og aðrir hljóðfæraleikarar eru Magnús Trygvason Eliassen, Ómar Guðjónsson, Jóel Pálsson, Borgar Magnason, Unnur Jónsdóttir, Karl James Petska og Bergur Einar Dagbjartsson.

Teningunum er kastað með krafti í fyrsta lagi. Ef einhver skyldi efast um anda plötunnar þá er honum skjótt eytt því að lagið nefnist „Drepa þunglyndið“! Lagið hefst með áðurnefndum skruðningum áður en söngur Bubba hefst og er hann afar framarlega í hljóðblönduninni. „Þú selur útrunna drauma / Og drekkur bráðið blý“ segir m.a. Píanó gárar undir, draugalegur hljóðgervill einnig og Jóel Pálsson blæs þunglamalega í klarinett. Velkomin í ljós og heldur betur skugga. „Beðurinn“ hefst bókstaflega með ískri áður en „Bubba“-legt gítarplokk tekur við. Við erum komin úr sálarkytrunni og út í heim þar sem „beðurinn brennur og sólin grætur“. Söngurinn er tilfinningaþrunginn og sannfærandi og við skulum ekki gleyma hversu frábær söngvari Bubbi er. „Vökvar ekki blóm með bensíni“ er snotrara en nafnið gefur til kynna, munnharpa fær að njóta sín og rúllið er höfugt þó að einhver óskilgreinanleg ógn lúri undir eins og á plötunni allri. „Leigjendur taka höggið“ skartar flamenco-gítar og strax á eftir er „Æðri máttur“ þar sem Bubbi „finnur alltaf opna gátt“. Undirspilið er losaralegt, ýlfrandi rafgítar og einstök trommulist Magnúsar lita það smekklega. „Ekki í fyrsta sinn“ er hvasst og nakið, tónlistin er beinlínis krómuð að áferð. Svart/hvít með áherslu á svart. Þegar hér er komið sögu er búið að negla það andrúmsloft sem svo greinilega var lagt upp með. „Það er myrkur úti“ er demó en flutningurinn slíkur að það var ákveðið að láta það standa. Sjálf GDRN kíkir í heimsókn í „Íslenskt haust“, fylgir okkar manni eftir í söng og tónlistin er viðeigandi, umlukt skandinavískum blæ. Hér nyrðra er nefnilega kalt og útsynningslegt og á Íslandi endalaust haust á stundum. „Blóðugt búr“ ber með sér þrusk og umhverfishljóð og það er meistaralegt hvernig öll nánd er undirstrikuð með þeim hætti. Söngröddin þannig að það er eins og Bubbi sé að syngja beint inn í eyrað á þér. Tónlistin hér er viðkvæmnisleg og til baka, svona fimm mínútur í „ambient“-verk. Undir rest er þó skrúfað upp í laginu svo um munar, strengirnir stíga upp og við fáum minniháttar flugeldasýningu í fyrsta skipti. „Ástin þín er farin“ er glæsilegt, löng myrkraballaða sem Bubbi og GDRN syngja saman. Ljúfur píanóleikur og dramað er bæði tilfinnanlegt og „satt“. Hér er sorg … og fegurð. Ljós … og skuggar. „Holan“ lokar plötunni, sár endabragur sem fjallar um unga fólkið okkar sem verður fíkniefnadjöflinum að bráð. Bubbi hefur ekki tölu á því, tjáði hann mér, hversu margar jarðarfarir hann hefur sótt undanfarin misseri og þá með gítar í hendi. „Stundum komu tímar sem teygðu sig í vorið / En fljótlega á líflínuna var skorið.“

Ég sat með Bubba og fleirum í forhlustun á miðvikudaginn vegna plötunnar og „Æðri máttur“ var sett á, lag sem miðjar plötuna og er í raun réttri manifestó höfundar. Augu okkar mættust og ég sendi honum samþykkjandi gotu. Skuldlausa. Ljós og skuggar er heilsteypt verk, tónninn einn og sannur og framvindan afgerandi með tilliti til þyngslanna. En það er ekki hægt að höndla um slíkt nema hafa séð andhverfuna. Og hún er þarna. Eða eins og Cohen orti: „Það er rifa í öllu, þannig kemst ljósið inn.“

Tagged with:
 

One Response to Plötudómur: Bubbi – Ljós og skuggar

  1. SO says:

    Ótrúlega gaman að Bubbi sé ennþá að framleiða tónlist á færibandi. Það er langt í frá sjálfgefið.

    Hins vegar finnst mér skrýtið hvernig skautað er framhjá textagerð Bubba síðustu 15 árin eða svo (um það bil frá útgáfu plötunnar Fjórir naglar).

    Textarnir eru hráir, hálfunnir, og falla illa að laglínunum. Þeir eru letilegir og hroðvirknislegir, og innihalda alltof mikið af málfarsvillum.

    Efniviðurinn er til staðar, og laglínurnar frábærar, en ástæða þess að ekkert lag Bubba síðastliðin 15 ár hefur orðið “klassískt” er hversu slakir textarnir eru.

    Það er helst lagið Regnbogans stræti sem staðist hefur tímans tönn, en ég myndi engu að síðuar lýsa þeim texta sem hroðvirknislegum. Regnbogans stræti væri í flokki með lögum á borð við Synetu ef textinn væri í takt við lagið og umfjöllunarefnið.

    Á árum áður fékk Bubbi fólk til að lesa yfir textana. Megas og Silja Aðalsteinsdóttir fengu þakkir í plötuumslögunum. Í dag fær hann Hallgrím Helgason til að lesa yfir ljóðabækurnar sínar.

    Ég skil ekki af hverju textarnir á plötunum fá ekki lengur sömu meðferð, og ég held að hver fimm stjörnu dómurinn á fætur öðrum hjálpi ekki endilega til. Á hinn bóginn veit ég að það er ekki auðvelt fyrir þá sem fjalla um tónlist og menningu að vaða í Bubba Morthens – hann bítur frá sér og fólk veit það.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: