Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 6. júlí.

Ljúfar, lokkandi laglínur

Rammar er önnur breiðskífa KUSK en fyrsta plata hennar kom út fyrir tveimur árum. Kolbrún Óskarsdóttir heldur hér áfram að tálga til sitt aðlaðandi rafdrifna indípopp.

Kolbrún hefur haldið sér virkri síðan hún sigraði Músíktilraunir fyrir rúmum tveimur árum. Plata, lag og lag og reglulegir tónleikar. Hún er hluti af jaðarpoppsenu landsins, ung að árum og allir litir tónspjaldsins innan þægilegrar seilingar.

Tónlist KUSK er melódískt rafpopp, svefnherbergispopp eins og Grapevine lýsti tónlistinni og nær það hugtak að „ramma“ plötuna ágætlega inn. Rammar er til muna rólegri en fyrri platan, Skvaldur, og það er sumarlegur svefnhöfgi yfir. Þægilegur rólegheitabragur, þessi tilfinning þegar þú liggur úti í íslenskri sumarsól í síðdeginu og dottar lítið eitt. Kolbrún semur lögin sjálf og stýrir upptökum en fær vísa aðstoð út í gegn, einkum frá ektavini sínum Hrannari Mána Ólafssyni (Óvita). Bjarni Daníel ræddi við Kolbrúnu í Lestinni, Rás 1, á dögunum og það var mjög hressandi að heyra Kolbrúnu leggja áherslu á gildi mistaka og nauðsyn þess að liggja ekki yfir hlutunum. Koma þessu út með öðrum orðum! Framleiða, vera virkur, skapandi en umfram allt mannlegur. Rammar er fyrsta plata Kolbrúnar sem er skrifuð sem slík, frá upphafi til enda. Skvaldur var meira samsafn að sögn listakonunnar. Lögin býr hún til í eigin hljóðveri, byrjar gjarnan á að búa til takt og svo mæta vinir hennar og spila einhvern hljómagang sem hún hummar fyrir þá. „Þetta er mjög mikið samstarf og skemmtilegt ferli, að búa til lög,“ segir hún í viðtalinu við Bjarna. Þar kemur einnig fram að Kolbrún er farin að prufa sig meira áfram með hljóðfæri og á plötunni er meira að segja lag þar sem hún leikur á öll hljóðfærin sjálf, „Síðan síðast“. Auk þess stýrir hún hljóðfæraleik vina sinna eins og fram kemur og verkferlið því farið að taka á sig aðra mynd, við erum farin af rúmstokknum og út á gólfið mætti segja.

Rammar er meira „inn í sig“ en fyrri platan. Það er meiri ró yfir og flæðið er í senn þægilegt og áreynslulaust. Þetta er heilsteypt plata og ber þess einmitt merki að vera tekin upp í einni lotu, samanstendur ekki af þriggja ára lagasarpi eða hvað það er. Tónlist KUSK sprettur ekki upp úr tómarúmi, þetta nett sækadelíska rafpopp er í gangi erlendis og ég hendi t.d. nafni Clairo inn svo fólk fái hugmynd um hvað í gangi er. Þannig er plötunni rennt af stað með „Heim“, einslags inngangslagi þar sem þekkilegir glitrandi hljómborðstónar eru einkennandi. Stutt smíð og eiginlega stemma. „1000“ er hins vegar lag, þykkur bassi opnar það og einfaldar trommur eru þarna líka. Rödd Kolbrúnar svífur yfir, dreymandi og innileg. „Síðan síðast“ inniheldur indígítarströmm og drífandi naumhyggjulegan takt á meðan að „Loka augunum“, hvar Óviti kemur við sögu, er hoppandi hresst – í samhenginu a.m.k. – og býr yfir þessum KUSK-stíl sem er farinn að mótast. „Sommar“ er rólyndislag, sungið á sænsku, en Kolbrún ólst upp í Svíþjóð. Ástarbréf til sænska sumarsins eins og höfundurinn lýsti í spjalli við Grapevine og manni langar til að heyra smá Cardigansáhrif. Mögulega eru þau þarna en kannski er það bara sænskan. Platan tikkar afar rólyndislega upp úr þessu, í raun gárar hún í bakgrunninum meira og minna, lög sem eru þægileg án þess að vera ódýr, lög sem gæla ljúflega við eyrun en hvessa sig aldrei á þig.

Eins og segir, framþróun frá síðasta verki og Kolbrún er að slípa sinn stíl til hægt og bítandi. Það verður spennandi að sjá hvað kemur í næstu umferð.

 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: