Töffarar CYBER.

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 19. október, 2019.

Kvenna- og karlarapp

Konur standa frammi fyrir alls kyns hömlum hvað tónlistarbransann varðar. Það er einfaldlega staðreynd og nú skal ég gefa ykkur dæmi um hvernig þetta getur hagað sér.

Í uppistandi á dögunum var hent grín að íslenskum kvenröppurum, og samfélags- sem fréttamiðlar fóru af stað. Steiney Skúladóttir, meðlimur Reykjavíkurdætra, sagði á Twitter: „Það er verið að bóka okkur á festivöl um allan heim, spila okkur á útvarpsstöðvum eins og BBC og við vorum að vinna verðlaunin besta „up and coming hip hop band“ í Evrópu. Það er pjúra bara Ísland sem vill ekki sjá okkur. Þetta er svo ljótt kynjamisrétti að ég á ekki orð.“

Eitt af verkefnum okkar allra næstu áratugina er að vinda ofan af kerfislægu kynjamisrétti sem er að finna á öllum vettvangi lífsins. Þetta snýst ekki um að mega ekki þykja Reykjavíkurdætur leiðinlegar, eitt af því fjölmarga sem er misskilið í þessari umræðu. Þetta snýst um að rétt sé gefið, sanngirni, pláss og ærlegheit. Eða er það tilviljun að af rúmlega 300 forsíðum tónlistartímaritsins Mojo er að finna fimm konur? Ekki einu sinni Björk hefur komist þangað.

Ég man eftir tilkomumikilli, svarthvítri mynd af Reykjavíkurdætrum, hvar Salka Sól var í forgrunni. Sterk mynd, töff, alger negla. Nánast ógnvekjandi. Valdeflandi, eins og sagt er. Konur stígandi fram, með kassann út og ef þú fílar þetta ekki þá getur þú troðið því. Ég skil ekki umræðuna, sem stundum (OK, nánast alltaf) fer í gang hvað kvennarapp varðar (það er auðvitað ekki til karlarapp, bara rapp). Hér starfa kvenrapparar á borð við Countess Malaise (gotnesk og svöl), Fever Dream (tilraunakennd og svöl), Alvia Islandia (svo súr og svo frábærlega töff), CYBER (frábærlega framsæknar og líkast til mitt uppáhald), Cell 7 (einn reyndasti og besti rappari landsins) og auðvitað Reykjavíkurdætur (drottningarnar). Fullt af góðum hlutum í gangi, mikil virkni, hugmyndavinna, ýtt á mörk og farið yfir mæri. Misgóðar plötur og misgóð lög, vissulega, eins og gengur. „Karlar/strákar kunna ekki að rappa“. Öfugt við konur. Sagði enginn, aldrei. Hvers vegna heyrir maður þetta aldrei? Kannski vegna þrælöflugrar innstimplunar í okkur öll, um að konur geti ekki staðið strákum jafnfætis í neinu? Við heyrum þetta öll, svo oft og höfum gert svo lengi að við erum fyrir löngu orðin ónæm fyrir þessu. Fólk stígur fram og segist ekki gera greinarmun á konum og körlum í tónlist. Það sem sé gott, sé gott. Stærir sig af þessu. En gleymir um leið að 90% af því sem otað er að okkur eru frá karlmönnum komin. Við fáum ekki einu sinni tækifæri til samanburðar!

Ég hef hlustað á tugi rappplatna með strákum/mönnum undanfarin fimm ár eða svo. Sumar eru frábærar. Margar sæmilegar og vel það. Sumar hálfgert drasl. Óunnar og óspennandi. Eins og gerist. Aldrei fer samt af stað umræða um að strákar (athugið, það er alltaf alhæft) geti ekki rappað. Og það virðist aldrei vera sama offorsið og þegar stelpur eiga í hlut. Kynbundið niðurrif o.s.frv.

Hvort heldur sem það er rapp eða ekki, þá burðast tónlistarkonur með tvo eða þrjá pakka aukreitis. Það er ekki nóg að þær séu sæmilegar í því sem þær gera, þær þurfa að vera miklu betri en strákarnir. Framúrskarandi. Og þurfa að svara fyrir það að vera stelpur á meðan strákar fá frípassa á slíkt. Mér fannst hrikalegt að lesa tístfærslu Sölku Sólar í kjölfar þess sem er nefnt að ofan. Um að hún hafi svo gott sem hætt að rappa, eftir ljótt skot frá einhverjum í menningarlegri valdastöðu.

Lái henni hver sem vill. Ég er handviss um að skýringuna á tiltölulega fáum kvenröppurum hérlendis megi finna í þessari stöðugu illmælgi, hunsunum, dissi og axlayppingum. Maður nennir ekki beint að koma sínu á framfæri, hvað þá að byrja, við þannig aðstæður. En ef þú fæddist karlmaður bíður þín beinn og breiður vegur. Hæfileikar geta verið í meðallagi og upp úr. Jafnvel litlir. Breytum þessu!

Ég er nefnilega sannfærður um að flestir þeir sem rjúka upp til handa og fóta þegar svona umræður fara í gang, eru sammála því sem fram kemur í þessum pistli. Ef fólk lítur sér nær sér það væntanlega að þetta er ekkert annað en eðlileg sanngirniskrafa.

Tagged with:
 

One Response to Rýnt í: Kynjahalla í dægurtónlist

  1. RPLA says:

    Keep up the good writing. Please Visit tel u

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: