Hilma Nikolaisen Ein af þeim sem fram kom á hátíðinni (ljósmynd/John Patrick).

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 19. október, 2019.

Villtir, trylltir… Norðmenn

Pistilritari sótti tónlistarhátíðina og ráðstefnuna Vill Vill Vest í Bergen heim í lok september og varð margs fróðari.

Í ágúst var ég boðaður með skömmum fyrirvara á téða hátíð og ég spurður hvort ég gæti flutt lykilerindi ráðstefnunnar, en þema hennar var í þetta sinnið núningurinn á milli meginstraums- og neðanjarðartónlistar og áhrif streymisvæðingarinnar á þessi fyrirbæri.

Ég átti sem betur fer færi, og eftir að hafa ráðfært mig við góða vini og samstarfsmenn í íslenska tónlistarbransanum var hlaðið í eitt stykki fyrirlestur. Bergen, hér kem ég! Síðast heimsótti ég þetta höfuðsetur Vestur-Noregs árið 2012, þá í erindum fyrir Morgunblaðið. Vann annars vegar frétt og myndskeið um uppsetningu Þjóðleikhússins á Gerplu í Den National Scene og hins vegar setti ég saman örmyndskeið um sögu svartþungarokksins, en vagga þess er í Bergen.

Nú var ég hins vegar komin til að upplifa Vill Vill Vest, tónlistarhátíð og ráðstefnu sem var fyrst sett á laggirnar fyrir fjórum árum. Forsvarsmennirnir tjáðu mér að ástæðan fyrir því að hún var sett á laggirnar hefði einfaldlega verið skortur á slíku á svæðinu, en íbúafjöldi á þessu svæði fer fram úr þeim íslenska. By:Larm, tónlistarhátíð Oslóar, flakkaði á milli svæða í eina tíð en því var svo hætt, sem skýrir þetta líka. Vill Vill Vest er annars hefðbundin hátíð af þessu taginu. Áhersla er á kynningar eða „showcase“ og voru allar hljómsveitir óþekktar. Komu þær fram á u.þ.b. tíu stöðum á Bergen-svæðinu. Ráðstefnuhlutinn var í tvo daga og komu um fimmtíu fyrirlesarar fram, úr röðum iðnaðarins, fræðaheimsins og tónlistarmannanna sjálfra. Þemað sem ég opnaði á var rætt frá ýmsum hliðum, í vinnusmiðjum, á pallborðum og í fyrirlestrum. Ef eitthvað er var heldur vel í lagt hvað fjölda varðaði og í raun óþarfi að vera með fjóra fyrirlestra í gangi á sama tíma. Dreifing áheyrenda var einfaldlega of mikil. Skipulag var með miklum sóma. Allt á hreinu, og ég hef kynnst tveimur hliðum á slíku hér í Noregi, þótt ótrúlegt sé. En bara einfaldir hlutir eins og öpp, þetta þarf að vera í lagi. Vill Vill Vest-appið var þannig frábærlega hannað og forritað. Ef eitthvað kom upp á í mannheimum voru hlutirnir leystir og ekkert „computer says no“ í gangi.

Við náðum svo að reka inn nefið hér og hvar á tónleika. Stærðarinnar beituskúr við höfnina, Skur 14, var settur upp sem tónleikastaður þar sem við börðum ungsveit augum („erum búin að gefa út eitt lag. Það er á Spotify“). Ekki margir í salnum en sveitin, Daufødt, frábær. Gríðarleg orka og söngkona sem rumdi eins og rostungur. Misstum hins vegar af hljómsveitinni Tacobitch sem fær hér með Arnars Eggerts-verðlaunin fyrir stórkostlegt nafn. Daginn eftir fórum við í Holuna („Hulen“) hvar Avast lék. Holan er tónleikastaður sem er í gömlu neðanjarðarbyrgi og tónlist Avast svartmálmur með atmosferískum síðþungarokksblæ. Fullkomið semsagt. Á síðasta degi var bransaliðið sem mætt var dregið um borð í skip og við tók þriggja tíma sigling um norsku firðina. Aðstandendur hátíðarinnar sáu líka til þess að tengja rétta hluti saman, Bergen bauð boðsgestum frítt inn á söfn, í almenningssamgöngur o.s.frv. þannig að þessari sölu á borgum/svæðum sem álitlegum viðkomustað var fléttað sniðuglega saman við hátíðina.

 

One Response to Skýrsla: VillVillVest 2019

  1. Very good article! We will be linking to this great post on our website.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: