Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 21. október.

Siglt af stað seglum þöndum

Steindór nokkur Snorrason gaf snemmvors út samnefnda sólóplötu sem er þetta líka áhlýðileg. Steindór hefur verið meðreiðar- og baktjaldamaður lengi en stígur nú fram fyrir skjöldu.

Frágangur hefur svo mikið að segja. Hljómplata Steindórs „lítur“ vel út þar sem umslagið nikkar til hönnunar frá sjöunda og áttunda áratugnum hvar listamaðurinn sjálfur prýðir það ásamt lista yfir lögin sem á plötunni eru. Guli liturinn fangar þennan áttunda áratugs anda líka vel og maður fær styrkjandi „hei, þetta er alvöru!“ tilfinningu í kroppinn. Innihaldið endurspeglar þetta svo í raun. Frágangur á hljómi og spilamennsku er í hæstu hæðum en Arnar Guðjónsson tók upp og sá auk þess um hljóðblöndun og hljómjöfnun. Nói Steinn Einarsson trommar öll lög plötunnar nema „Ferðalag/Andvökunótt“ og „Takk og bless“ en um slagverk þar sá Arnar. Nafni leikur einnig á hljóðgervil og fiðlu, takk fyrir. Þorbjörn Sigurðsson leikur svo á Rhodes-píanó og Vox-orgel í völdum lögum. Óskar Guðjónsson (saxófónn) og Vala Höskuldsdóttir (söngur) leggja og lið og Steindór sjálfur spilar á gítara og bassa auk þess að syngja.

Tónlistin er þekkilegt popprokk í breskum anda og mér verður hugsað til aldamótabanda eins og Coral og Leaves, annað væri ekki hægt af augljósum orsökum. Bakgrunnur Steindórs í tónlist gerir hljóðmyndina enn skýrari. Hann og Róbert Hjálmtýsson störfuðu saman í sveitunum Kókóhundur og Ég. Steindór leiddi svo sveitina Monterey sem gaf út plötu 2012. Spilagaldrar, Hljómsveitin Eva, Per Segulsvið eru önnur verkefni sem Steindór hefur sinnt svona m.a.

Steindór lýsir því í stuttu spjalli við pistilritara að fyrsta upptökulotan hafi verið verðlaun til hans sjálfs eftir að hann kláraði eitt stykki háskólagráðu. „Ég á mikið af lögum sem urðu til í kringum aldamót, lögum sem voru tekin upp á fjögurra rása upptökutæki af mér og góðvini mínum Róberti sem kenndur er við Hljómsveitina Ég. Upptökuloturnar urðu svo fleiri og nú er komin plata sem inniheldur nokkurs konar „best of“-lög eftir Steindór.“

Hvernig eru þessi lög svo? Og platan? Ýtt er úr vör með „Prinsessunni“ þar sem hjúfrandi gítarleikur er miðlægur. Þetta er gítarplata og alls kyns lykkjur og hringhendur sem hægt er að knýja úr því ágæta hljóðfæri skreyta plötuna út í gegn. Söngrödd Steindórs er blíð og til baka og rennur vel með ljúfri stemningunni. Hún er nokk „bjólísk“, með vísan í meistara Sigurð Bjólu. Þetta er rólegheitaplata, innileg og natin, nánast eins og söngvaskáldaverk sem er þó búið að stinga í samband að einhverju leyti. „Yfir sundið“ er næst, ljúflingssmíð sem leynir á sér og það örlar á úthugsuðu gáfumannapoppi Tilbury. Þessi tvö lög gera heyrinkunnugt að Steindór er ekki blautur á bak við eyrun, býr að reynslu og kann að setja saman vandað og giska glúrið popp. Önnur lög eru eftir þessu en á köflum er brugðið á leik eins og í sýrukaflanum skemmtilega í „Siglingum um haf“. Einkar stæðilegur frumburður verður að segjast þegar allt er saman tekið. Hljómar meira eins og fjórða plata höfundar.

Og talandi um væntanlegt framhald, að lokum spurði ég Steindór hvort von væri á meira efni og ekki stóð á svari. „Já, ekki spurning!“ svaraði hann glaðhlakkalega. „Það er æðisleg tilfinning að hafa loksins gefið þessum lögum líf en jafnvel enn betri tilfinning að geta loksins farið að snúa sér að nýju efni …“

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: