Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 18. febrúar, 2023.

Þrá sem laðar, brennur sem bál


Í þessum pistlingi ætla ég að rýna í þau lög sem verða í fyrri undanúrslitum Söngvakeppninnar. Ég sit hér við, með smásjá og hlustunarpípu, því að ekkert skal sleppa undan næmum eyrum doktorsins.


Jæja, gerum þetta. Söngvakeppnin! Þetta sameinandi afl þar sem þeir sem þykjast fíla Forgarð helvítis eingöngu sitja sem límdir við skjáinn – án þess að verða þess varir – og taka þátt í rökræðum um hækkun í einhverju laginu. Og þræta svo fyrir það tveimur vikum eftir keppni. Hér er tækifæri okkar allra til að sameinast í ástríðu, æsingi, fúlmennsku og hreinni gleði yfir listinni æðstu, tónlistinni sem líknar og læknar og gefur okkur frið, hugarró – og afsökun til að hitta vini og kunningja, borða beikonbugður og henda í Vogaídýfu. Ég meina, hvernig er ekki hægt að elska þetta fyrirbæri!

Lag: Stundum snýst heimurinn gegn þér / Sometimes the World’s Against You

Höfundar: Bragi Bergsson, Joy Deb, Rasmus Palmgren og Aniela Eklund
Texti (ísl.): Bragi Bergsson
Texti (ens.): Bragi Bergsson og Aniela Eklund
Flytjandi: Bragi

Spennandi píanóglitur í bland við raddleiðréttingaróm opnar lagið. Við erum á móðins slóðum. Það er eitthvað mjög norrænt við þetta lag, minnir mig aðeins á „Heroes“ hans Måns Zelmerlöw. Þetta er stálkalt, hart og vel unnið alla leið. Um leið er lagið helst til eintóna í byggingu og textinn kunnuglegt hetjuljóð um manneskju með storminn í fangið, ástmann sem verður alltaf til staðar o.s.frv. Söngurinn er þá fremur hátt uppi sem knýr á um vissa viðkvæmni (vel spilað). Viðlagið undirstingur svo hetjudáðirnar og þegar 30 sekúndur eru eftir eða svo „stoppar“ lagið til áhrifsauka. Kunnuglegar brellur allt saman en útfærslur allar eru bara ansi vel heppnaðar.

Lag: Glötuð ást / Lose this Dream

Höfundur: Móeiður Júníusdóttir
Texti (ísl.): Móeiður Júníusdóttir og Guðrún Guðlaugsdóttir
Texti (ens.): Móeiður Júníusdóttir
Flytjandi: MÓA

Gott að fá Móu aftur. Söngröddin glæst að vanda og hér er líkt og Móa standi á sviði í Weimarnæturklúbbi árið 1929 hvar vindlingareykur stígur upp á meðan dularfullt næturhúmið leggst á allt og alla. Lagið er með klassísku sniði, ekki beint djassað, meira svona dívulegt og Móa skilar þeim anda með reisn. Það er stígandi í laginu, það er nokk epískt og stórt, og Móa nikkar einhvern veginn til allra þessara tígulegu söngkvenna fyrr og síðar (Lana Del Rey t.d.). Strengjum er flogið inn um miðbikið, hvíslandi bakraddir styðja við framvinduna og Móa herðir á undir rest, hleypir röddinni á hlemmiskeið. Sígilt lag á svo marga vegu, mun það duga til?

Lag: Þora / Brave Face

Höfundur: Benedikt Gylfason og Hildur Kristín Stefánsdóttir
Texti (ísl.): Benedikt Gylfason, Hildur Kristín Stefánsdóttir og Una Torfadóttir
Texti (ens.): Benedikt Gylfason og Hildur Kristín Stefánsdóttir
Flytjandi: Benedikt

Ég sá Benedikt í Músíktilraunum og hann var glæsilegur. Stjarna af Guðs náð. Söngröddin svo einlæg eitthvað og blíð – en um leið kraftmikil og umlykjandi. Lagið er hefðbundið rafpopp, hefst með versi hvar Benedikt veltir fyrir sér tækifærum og möguleikum. Í viðlagi brestur á með lausninni, málið er að þora og fara eigin leiðir. Benedikt heldur söngröddinni jafnri út í gegn, er öruggur og fer ekki fram úr sér. Það er karakter í röddinni. Lagið er svo brotið upp undir rest, hægt á því og selló gerir vart við sig (Hildur?). Allt keyrt svo í botn aftur og lagið leitt þannig út. Benedikt gæti haft þetta af, hann er með svona launsjarma sem mögulega fleytir honum áfram.

Lag: Dómsdagsdans / Doomsday Dancing

Höfundur: Celebs
Texti (ísl.): Celebs
Texti (ens.): Celebs
Flytjandi: Celebs

Sprellibundið lag og mjög stuðvænt frá Celebs. Heilmikið af „eitís“-tilvitnunum, eins og bandið hefur verið að vinna með undanfarin ár, og ég fæ svona FM Belfast-víbra þegar hlustað er. Þetta er skemmtilegt lag og Celebs fara í óvæntar sveigjur og beygjur, hent er í talaðan töffarakafla eftir eina mínútu og í kjölfarið fer af stað nett brjálað viðlag með sæmilega hamslausri söngrödd. Katla Vigdís er mjög flott í sínu og lokaafurðin hispurslaus Júróvisjón-gleðióður hvar fólk sem upplifði ekki eitísið togar það og teygir í sannri leikgleði og af ríkulegu innsæi. Hressleiki hefur alltaf virkað ágætlega í þessari keppni og spennandi að sjá hver stemningin verður hjá landanum.

Lag: Lifandi inni í mér / Power

Höfundur: Pálmi Ragnar Ásgeirsson og Diljá Pétursdóttir
Texti (ísl.): Pálmi Ragnar Ásgeirsson og Diljá Pétursdóttir
Texti (ens.): Pálmi Ragnar Ásgeirsson og Diljá Pétursdóttir
Flytjandi: Diljá

Bríetlegur söngur dálítið, enn kraftmeiri. Vísanir líka í erlendar
r og b-stjörnur. Orkurík rödd og Diljá er óhrædd við að brúka hana ærlega og leyfa ástríðunni að flæða. Lagið er hart, keyrslubundið rafpopp með næstum því „industrial“ takti út í gegn. Ég kalla lög stundum „stálköld“ og þannig er áferðin hér og vel af henni. Lagið er næstum því meiri „stemning“ en lagasmíð og ekkert að því. Já, það er einhver neisti þarna sem ég er að fíla. Diljá gefur sig alla í flutninginn og mér leiðist ekki vitund þessi krómaða framvinda. Mögulega er þetta of hart og „avant-garde“ fyrir þjóðina en við spyrjum að leikslokum.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: