chris stapleton

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 18. júlí, 2015

Fram fyrir tjöldin

• Nashville-söngvasmiðurinn Chris Stapleton gefur út plötu
• Framúrskarandi skífa og lengi var von á einum

Ég ræddi um það í pistli fyrir stuttu að Nashville væri að ganga í gegnum ákveðna yfirhalningu hvað tónlistarlegar áherslur varðar. Slíkt er eðlilegt, reglubundið víkja hinir eldri (stundum æmtandi) fyrir hinum ungu, síðan verða þeir gamlir og hringrásin heldur áfram. Í nefndum pistli talaði ég um stúlkurnar og ríkari áherslu hjá þeim á innihaldsríka texta, en strákarnir, nokkrir óknyttapiltar a.m.k., eru líka að brjótast úr spennitreyju Nashville-iðnaðarins.

Ólíkt

Þetta gera þeir með ólíkum hætti og ég nefni hér sérstaklega þrjá sem eru skínandi dæmi um þessa þróun. Og merkilegt nokk, þessi nýsköpun hefur mikið með fortíðina að gera, menn horfa til einfaldari, „hreinni“ tíma, líkt og pönkararnir gerðu t.a.m. Sturgill Simpson keyrir þannig á hrátt honkí-tonk að hætti Dwights Yokam og minnir oft og tíðum á Waylon Jennings. Simpson þarf þá engan kúrekahatt; hann treður upp í skógarhöggsmannaskyrtu og Converse-skóm og gæti þess vegna verið meðlimur í einhverri nýbylgjurokksveitinni. Jamey Johnson horfir til sígildra sveitasöngvara eins og George Jones og Merle Haggard og útlagaviðhorfið stýrir allri hans aðkomu. Og svo er það umfjöllunarefni þessarar greinar, Chris Stapleton. Líkt og Johnson hefur hann starfað um árabil á bakvið tjöldin sem lagasmiður en steig svo loksins fram sem sólólistamaður í ár, 37 ára gamall, með plötuna Traveller.
Ég er búinn að hlusta þessa plötu á gat undanfarnar vikur og hún er hæglega það besta sem ég hef heyrt úr kántríkreðsunni í árafjöld. Trúið mér, það er ekki snöggur blettur á plötunni, fyrst og síðast vegna þess að Stapleton er ótrúlegur lagasmiður. Maður finnur að hann hefur verið að geyma bestu molanna fyrir sjálfan sig, og sá hefur slípað steininn í lagasmíðadeildinni en hann er höfundur yfir 150 laga sem hafa m.a. birst á plötum Adele, Tim McGraw, LeAnn Rimes, Alison Krauss, Sheryl Crow, George Strait og Joss Stone svo eitthvað sé nefnt. Er það reyndar svo að allir helstu meginstraumslistamennirnir í Nashville hafa nýtt sér hæfileika Stapleton að einhverju marki á síðustu árum.

Hreint

Allt hjálpast reyndar að á þessum grip, upptökustjórnandinn Dave Cobb hefur einnig unnið með áðurnefndum Simpson og Johnson og gefur plötunni hlýjan, jarðlitaðan hljóm. Það sem er þá einkar aðlaðandi við plötuna er margbreytileikinn; hér eru rokkarar, ballöður, hreint kántrí, sálartónlist, blágresi og surgandi tilraunagítarar meira að segja. Kántrí er alltaf útgangspunkturinn en sálartónlistarhula og suðurríkjarokkskeimur eru og á sveimi. Allt er þó bundið kirfilega saman með innblásinni túlkun Stapleton sem gat greinilega ekki beðið lengur eftir því að fá að spreyta sig.
Merkilegt líka, að þrátt fyrir þessa miklu vinnu fyrir vinsældakántríið standsetur hann sig ekki þannig ímyndarlega; alveg eins og félagarnir tveir sem ég hef verið að tala um. Stapleton er síðskeggur og með útlagaáruna á fullu stími. Þannig klárar hann eiginlega dæmið, við rokkarar eigum erfitt með að standast svona gotneska töffara. Heill þér, ferðalangur!

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: