dinosaur jr. 2

[Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 2. febrúar, 2013. ATH. Sérstakt „Director’s Cut“ þar sem greinin lenti í óhjákvæmilegri styttingu á skurðarborðum Málgagnsins]

 

Gítarguð í Glasgow

•Hin endurreista Dinosaur Jr. lék í Glasgow á miðvikudaginn
•Þrjár hljóðversplötur hafa litið dagsins ljós eftir mikinn stríðsaxagröft.

Þetta er að verða pínu sorglegt með ykkar mann í Skotlandi. Þeir
tónleikar sem hann „verður“ að fara á eru allir sem einn með hetjum
frá því á unglingsárum. Wedding Present um daginn, Mark Eitzel er
framundan og My Bloody Valentine er að nálgast og það þykir honum
óhemju spennandi. Og Dinosaur Jr. að baki. Allt saman tónlist sem var
að hræra í mér þegar ég var sextán, sautján. Ég hef ekki efni á því
lengur að brosa í kampinn yfir pöbbunum sem fara æstir á 10cc, Paul
Simon, John Fogerty o.s.frv.. Ég er mjög svo greinilega að breytast í
einn slíkan sjálfur.
En, ég ætla ekki að eyða meira pælingapúðri í gildi og galla svona
tónleika eða gera minnstu tilraun til að verja svona háttsemi.
Æsingurinn gagnvart svona hlutum er hins vegar mjög svo raunverulegur,
eitthvað sem allir þeir sem eiga sér átrúnaðargoð ættu að geta tengt
við. Þannig að til Glasgow brunaði ég, í félagi við tvo aðra, og sá
til þess að bráðum kvartaldar langur draumur yrði að veruleika. Að sjá
sjálfan J. Mascis, indí-gítarguðinn, á sviði.
Bogagöng
Tónleikarnir fóru fram í The Arches sem er rétt hjá lestarstöðinni.
Hella-leg stemning; rýmið mikið og allt undir stórum og steingerðum
bogahliðum eins og nafnið gefur til kynna. Þarna vorum við mættir,
ég, nágranni minn sem ég kynntist í gegnum skóla stelpnanna (ég kalla
hann lífsglaða hermanninn vegna þess að hann var nokkuð oft í
hermannabuxum þegar við hófum að heilsast í ágúst síðastliðnum og
vegna þeirrar staðreyndar að hann er síbrosandi) og vinur hans,
tónleikaóður náungi sem fer víst á slíka tvisvar í mánuði eða svo að
sögn „hermannsins“. Sá óði stillti sér æstur fremst, tók drynjandi
hávaðann milliliðalaust í eyrun og nappaði líka „sett“-listanum í lok
tónleika.
Fyrir þá sem ekki vita er Dinosaur Jr. ein mikilvægasta
neðanjarðarrokksveit sem Bandaríkin hafa alið og einn meginarkitektinn
að gruggbylgjunni sem kaffærði útvarpsbylgjur og rokklandslag tíunda
áratugarins. Plöturnar You‘re Living All Over Me (1987), Bug (1988) og
Green Mind (1990) er þrenningin heilaga og þykir sú fyrsta marka
ákveðin tímamót í þróun neðanjarðarrokksins.
Frægt var þegar J Mascis rak vin sinn Lou Barlow úr hljómsveitinni
rétt við enda níunda áratugarins og var mikil úlfuð á milli þeirra
lengi á eftir (Barlow stofnaði Sebadoh sem er sömuleiðis mikil
öndvegissveit). En frægara – og furðulegra – var það þó þegar
deilendur grófu stríðsaxir eins og ekkert væri og sneru aftur til
leiks árið 2005. Og ekki létu þeir sér það nægja að raða út gömlum
smellum heldur lögðu þeir og í nýtt efni og eru hljóðversplöturnar
orðnar þrjár.
Utanaðkomandi
En Arnar. Hvernig voru tónleikarnir maður! Heyrðu, annað lagið var
„The Lung“, eitt uppáhaldslagið mitt með sveitinni! Tilfinningarnar
sem streyma um mann þegar maður upplifir svona nokkuð eru rosalegar.
Það myndaðist þægilegur hiti í maganum, ylur sem streymdi um mann.
Hálsinn herpist saman, ekki óþægilega samt. Gæsahúðin læddist fram.
Tíminn stoppar, maður upplifir hugleiðsluástand og allar áhyggjur og
utanaðkomandi áreiti hverfur í einhverjar sekúndur. Ég segi bara eins
og krakkarnir. Tónlist er snilld! Settið samanstóð annars af slögurum
að mestu. Of mikið af Where You Been fyrir minn smekk, of lítið af Bug
og Green Mind. Endað var með „Sludgefeast“ af You‘re Living… Sveitin
var dálítið stirð verður að viðurkennast, enda fyrstu tónleikarnir í
nýhöfnu Evróputónleikaferðalagi. En hvað um það. Nú hef ég staðið fimm
metra frá J. Mascis. Ekki þú.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: