Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, fimmtudaginn 16. janúar.

Ameríski draumurinn

Lana Del Rey er með helstu tónlistarkonum samtímans. Ímyndarvinna hennar og fagurfræðilegar áherslur hafa alla tíð verið þrælbundnar þeirri sköpun og hér verður sá þáttur skoðaður ofan í kjölinn.

Allt síðan Lana Del Rey (fædd Elizabeth Woolridge Grant) kom fyrst fram fullsköpuð með plötu sína Born To Die (2012) var augljóst að það var búið að reikna alla framstillingu upp í topp. Hér var komin dulúðug díva sem brosti ekki á kynningarljósmyndum eða í myndböndum og fjarrænar leik- og söngkonur eins og Greta Garbo og Marlene Dietrich komu óneitanlega upp í hugann.

Del Rey er „alger“ listakona, þ.e., tónlistin, útlitið, textar, holning, þetta er einn og gegnheill pakki. Líkt og með Madonnu svo ég taki nærtækt dæmi eða þá Lady Gaga, það er ekki hægt að taka eitt úr samhengi við annað, allt spilar þetta saman og tengist. „Mig langaði til að gera líf mitt að listaverki,“ segir Del Rey í viðtali sem fór fram snemma á ferlinum og hún hefur sannarlega myndast við að gera það að raunveruleika.

Tónlist Del Rey er dramatísk og hægstreymin, líkt og Angelo Badalementi hafi ákveðið að endurútsetja lag Chris Isaak, „Wicked Game“. Textarnir oft torræðir, það er hætta í þeim, og söngrödd Del Rey í senn fjarlæg og seyðandi. Það er melankólía þarna og vísanir í gamla, misgleymda tíma, einhvers konar ákall til fortíðar þar sem svart/hvítt glys Hollywood er miðlægt. Angurvær hrörnun eins og yfirgefnar milljónerahallir sem mega muna fífil sinn fegurri (eitt húsanna í Malibu sem hún notaði í myndbandi er reyndar nýbrunnið til grunna).

Það er þessi áhugi hennar á amerískum minnum sem hefur heillað pistilritara að undanförnu. Engin tónlistarkona eða -maður sinnir þessu af jafn mikill elju og hún og síðustu ár hefur hún tekið þetta lengra. Snertifletirnir eru orðnir fleiri, þessar hugsanir inn í alls kyns anga amerískrar menningar eru orðnar dýpri þannig að jaðrar við þráhyggju eiginlega.

Þrátt fyrir lýsinguna að ofan hefur Del Rey fjarska víða skírskotun þó að grunntengingin rofni ekki. Það hefur t.d. verið merkilegt að fylgjast með tilraunum hennar til að tengja við ameríska alþýðu, einhvers konar yfirfærður „Springsteen“-ismi. Hápunktinum var náð er hún tók vakt á Waffle House-keðjunni í Alabama og afgreiddi kaffi ofan í nokkra suðurríkjabúa. Del Rey er algert kameljón að því er virðist því að daginn eftir eða því sem næst er hún mætt á opnanir og verðlaunahátíðir í fokdýrum Chanel- og Louis Vuitton-klæðnaði. Þetta gerir hún eins og að drekka vatn. Hún var bókstaflega lifandi listaverk á MetGala-viðburðinum í New York í vor, í ótrúlegum klæðnaði innblásnum af Alexander McQueen og þess á milli stekkur hún í leðurjakka og situr fyrir hjá vegg þar sem stendur á ensku „Ég elska druslur“. Del Rey og hennar teymi vita – eins og fagfólk í þessum bransa – að allt sem stuðar er á endanum gott.

Nýjustu vendingar hafa svo verið mjög athyglisverðar. Del Rey er hugfangin af suðurríkjunum um þessar mundir, hún hefur t.d. unnið nokkuð með kántrílistakonum (Nikki Lane, Kacey Musgraves) og „suðurríkja-gotabrag“ hefur mátt merkja á kjólum og þvíumlíku. Þá gifti hún sig á dögunum og var sá heppni Jeremy nokkur Dufrene, leiðsögumaður á fenjabát í Louisiana! Fyrir stuttu var svo tilkynnt um næstu plötu, The Right Person Will Stay, en hún kemur út í vor. Á umslaginu er prófílmynd af grannleitri Del Rey í settlegri blúndutreyju og minnir hún helst á húsmóður frá Texas, ca. 1890. Það er hálfgerð „hefðbundna Hanna“ („tradwife“) ára yfir. Hvort þetta er birtingarmynd nýtilkomins friðar sem hún hefur fundið í hjónabandinu eða enn einn ímyndarsnúningurinn verður síðan að koma í ljós.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: