Gamli góði Gaukur á stöng eða Gaukurinn. Ljósmynd/Móheiður Hlíf Geirlaugsdóttir.

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, fimmtudaginn 13. febrúar.

Er kjaftur í húsinu?

Reglulega fara í gang umræður um tónleikastaði í borginni og sitt sýnist hverjum. Margir eru á því að ekki sé um auðugan garð að gresja á meðan aðrir skella skollaeyrum við slíkum umkvörtunum.

Ég fór á tónleikastaðinn Bird í miðbænum síðasta laugardag og komst varla inn, svo þétt var hann setinn. Mektarsveitin ADHD var að spila og komust bókstaflega færri að en vildu. Hinum megin við götuna voru dómsdagsrokkararnir í Morpholith að halda útgáfutónleika á Gauknum, þeim fornfræga stað. Svartklæddir og sveittir þungarokkarar voru þar upp um alla veggi.

Það er svo merkilegt að maður hugsar sjaldnast um staðina sem maður sækir. Það sem fer af stað í kollinum, þegar maður er búinn að ákveða að kíkja á tónleika, er tilhlökkun fyrir sjálfri tónlistinni. Og hugsanlegum félagsskap. En það kemur fyrir að ég þarf að rifja upp hvar tónleikarnir eru nákvæmlega. Mér finnst gaman að kíkja inn á Gaukinn en hann spilar, þannig lagað, litla rullu í sjálfri tilhlökkuninni. Hann er bara þarna. Þetta er vissulega ekki alveg svona einfalt en í tilfelli tónleikastaða t.d. þá förum við ekki á afturlappirnar fyrr en búið er að taka þá af okkur.

Ég hef oft tekið fremur kalda afstöðu til rekstrargrundvallar tónleikastaða. „Staðir loka og staðir opna,“ hefur verið mantran mín. Kenning Adams gamla Smith um lögmál ósýnilegu handarinnar. En ég er svei mér þá ekki viss um að ég trúi á þetta lengur. Getum við gert kröfu til samfélagsins um að það sé einhvers konar samábyrgð gagnvart því að menningarlíf rúlli sæmilega og allir séu sáttir?

Hvað lokun tónleikastaða varðar, þá er þetta sífelldur núningur á milli þeirra sem eiga (rekstaraðilar), þeirra sem veita (tónlistarfólkið) og þeirra sem neyta (við, áheyrendur). Þegar KEX lokaði vel nýttu og frægu tónleikarými sínu sagði Óli Dóri, þáverandi viðburðastjóri, eftirfarandi: „Borgin verður ekki mjög lifandi ef það eru bara hótel til að skoða og engin menning.“ Og hann ræddi sérstaklega um skammsýni.

Það er full ástæða til að hafa áhyggjur af því hvernig dólgakapítalisminn skýtur sig einatt í lappirnar, heggur í þann grundvöll sem var að skapa fjármagnið fyrir það fyrsta. Það virðist aldrei tími til vaxtar, aldrei færi á að horfa lengra.

Fyrir stuttu gerðu Ísafjarðarbær og tónlistarhátíðin Aldrei fór ég suður með sér samstarfssamning. Hann er ágætt dæmi um að það er hægt að hugsa um heildarmynd og sjá lengra en excel-skjöl mánaðarins segja til um. Kristján Freyr, rokkstjóri hátíðarinnar, sagði m.a. á persónulega Fjasbókarreikningnum sínum: „Þetta fjármagn sem Ísafjarðarbær leggur til verkefnisins og kemur úr sjóði Ísafjarðarhafna mun nýtast til þess að styrkja stoðkerfi hátíðarinnar og bæta upplifun og öryggi gesta og okkar sem stöndum að henni. Aldrei fór ég suður er ekki hagnaðardrifin hátíð að nokkru leyti, áfram verður frítt inn á hátíðina þó svo að við leitum til gesta okkar að styðja okkur í formi veitinga- og varningskaupa svo við náum okkar markmiðum. Náum endum saman … mér finnst bæjarfélagið sýna hér frumkvæði sem ég vona að fleiri taki upp og styðji menningarviðburði og álíka hátíðir sem byggja upp samfélög og bæta bæjarbraginn í senn.“ Kristján Freyr er m.ö.o. að benda á þær margvíslegu breytur sem koma saman og mynda gildi og vellíðan. Í þessu tilfelli koma þeir sem sitja á sjóðum sterkir inn, skilja að það er hægt að ávaxta til lengri tíma. Tónleikastaðir koma og fara, vissulega, alveg eins og tónlistarhátíðir. En þarf höndin sem þar um sýslar endilega að vera ósýnileg?

 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: