Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, fimmtudaginn 8. maí.

„Sofðu unga tölvan mín …“

Gervigreind í tengslum við tónlistarsköpun hefur vakið mikið umtal að undanförnu og sitt sýnist hverjum. Frelsandi og nýtilegt mögulega? Eða það versta sem komið hefur fyrir tónlist til þessa?

Ja, er ekki sama hvaðan gott kemur? Hvað ef tölva semur einhverja snilld sem lyftir anda mínum eða afþreyir? Skiptir það máli hvernig þetta er gert? Er það ekki útkoman sem er aðalmálið?“ Einhvern veginn svona hef ég stundum svarað til þegar ég er spurður um hvað mér finnist um gervigreindartónlist. Ég er hálfpartinn að stríða mannskapnum, hálfpartinn ekki og ég viðurkenni að þetta er mál sem ég hef ekkert lokasvar við. Þetta er að gerast nú um stundir og við mannskepnan, fyrirbærin sem höfum verið að skapa tónlist frá örófi alda, erum enn að átta okkur á því hvað við erum búin að koma okkur út í. Því að við búum ekki bara til tónlistina, við bjuggum líka til vítistólin sem eru að ráðast að henni.

Vangaveltur um höfundarrétt, tekjutap og svo framvegis eru vel skiljanlegar þar sem nokkurs konar yfirtaka algrímsins á öllum hugsanlegum og óhugsanlegum sviðum virðist vera að bresta á. Þú ferð að sofa undir dáindislegu lagi, lagi sem vaggar þér í svefn og mögulega kom mannshugur aldrei að samsetningu þess.

„Er tónlist samin með aðstoð gervigreindar alvöru tónlist?“ er titillinn á innslagi sem Bylgjan útvarpaði síðasta haust, hvar yðar einlægur gróf aðeins niður í doktorskistuna sína. Og fyrsta minnisblaðið sem kom upp úr henni snerist um skilgreiningu. Hvað er gervigreind? Er hljómborð gervigreind? Skemmtari? Raddleiðréttingarforrit („átótjún“)? Er þetta kannski allt saman í eðlilegri þróun frekar en að um einhverja sérstaka kollvörpun sé að ræða?

Ímyndum okkur að „London Calling“ með The Clash hafi verið unnið einöngu af gervigreind. Lagið, eins og það hefur alltaf hljómað. Hvernig líður þér, lesandi kær? Var lagið að versna? Það getur náttúrulega meira en verið, því að nýjar upplýsingar um það hvernig hlutir koma til geta sannarlega breytt viðhorfi manns til þeirra. Snilldin er því ekki bara í afurðinni, heldur aðkomunni líka. Er það óþægilegt að vita til þess að þetta mannlega vantar? Möguleikinn á mistökum, hráleika, einhverju „x“ sem verður aldrei hægt að setja upp í töflureikna. Viljum við halda þessu? Eða er gervigreindin kannski bara að hjálpa okkur að verða „betri“?

Í gegnum tíðina höfum við hannað tækni til að auðvelda okkur hluti, aðstoða okkur við að skapa og koma hlutum frá okkur. En það var aldrei á áætlun að það yrði séð um þetta fyrir okkur alfarið. „Ég á að vera að búa til tónlist og tölvan á að sjá um að þrífa klósettið, ekki öfugt,“ sagði einn nemandi minn um daginn og átti þar glúrna kollgátu.

Að gervigreindin sé að ræna fólk lífsviðurværi, þetta eru skiljanlegar áhyggjur. Rétt eins og plötusnúðarnir sem rændu hljómsveitirnar viðurværi á áttunda áratugnum. Fólk í tónlistarbransanum klórar sér núna harkalega í kolli yfir því hvernig streymisveitur stýra okkur í ákveðnar áttir, skammta okkur algrímsvalið efnið og stuðla að hálfgerðri forheimskun. Og allra leiða er leitað til að ota að okkur tölvuunninni tónlist sem kostar eigendur streymisveitanna lítið.

Þegar Kraftwerk og Giorgio Moroder komu fram á sínum tíma með tölvutónlistina sína voru þeir hugfangnir af möguleikunum. Og voru að ímynda sér að það væru raunverulegar tölvur sem væru að búa til tónlistina (sjá Die Mensch-Maschine Kraftwerks, þá einkanlega lagið „Die Roboter“). Retrófútúrísk rómantík sveif yfir sílíkonblönduðum vötnum. Ég ætla síðan að keyra inn grjótharðan marxisma í restina en Karl Marx sá endamarkmið þeirrar ágætu hugmyndafræði þannig fyrir sér að vélarnar sæju bara um þetta fyrir okkur, léttu okkur verkin og við gætum haft það náðugt. Orðið fullkomlega mannleg, með tíma til sjálfsræktar og eðlilegheita. Og háþróuð gervigreindarforrit sjá um undirleikinn fyrir okkur. Er þetta ekki algerlega dásamleg framtíðarsýn?

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: