Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, fimmtudaginn 28. nóvember.

Gamalt vín á nýjum belgjum …

… eða hvað? Er listafólk og hljómsveitir, eins og U2, að skrapa tunnubotn með því að endurvinna eldra efni eða er þetta verðug listsköpun? Skoðum þetta fyrirbæri út frá rannsóknargagninu How to Re-Assemble An Atomic Bomb sem er „nýjasta“ plata U2.

Ferill popparans/rokkarans er iðulega þannig að fyrst um sinn koma meistaraverkin út. Fólk er hresst, ungæðislegt og kann ekki reglurnar (sem betur fer). Gaman. Seinni hluti ferilsins er hins vegar allt annað mál. Það er hægt að keyra höggþéttan feril alla leið (Bítlarnir, Smiths) og jafnvel dæla út snilldarverkum á ævikvöldinu (Johnny Cash) en langflestir mæta hindrunum, veri það sköpunarlegar, vinsældalegar, stemningslegar, þegar fram í sækir. U2 fyllir þann flokk, hæglega, og áður en lengra er haldið; ég er alls ekki að reisa þessari frábæru sveit níðstöng. Og hef ég reyndar tekið trúna á nýjan leik, hlusta á lítið annað um þessar mundir og er orðinn sannfærður – aftur – um að þetta sé ein stórkostlegasta rokksveit sögunnar. En það er efni í annan pistil.

U2 hefur átt við ramman reip að draga undanfarna áratugi. Ekki vinsældalega, en sköpunarlega. Nýrri plötur standast seint samanburð við gullaldarplötur, líkt og hjá svo mörgum. Það þótti síðan nokkuð markvert þegar U2 kastaði inn handklæðinu ef svo mætti segja árið 2017 og hóf að flytja The Joshua Tree í heild sinni, aðferð sem er iðulega beitt af svokölluðum arfleifðarböndum. U2 hafði lengi vel hlaupið undan þeirri skilgreiningu, vildi heldur spila nýtt efni en að þræða það gamla. Kannski breytti þetta tónleikaferðalag hugarfari meðlima gagnvart því hvernig á að halda sér uppfærðum, því að hungur þeirra eftir því að vera með í „leiknum“ virðist óseðjandi og breytir þar engu um hvort andans brunnar séu þurrausnir eður ei. Í hitteðfyrra, árið 2023, kom þannig út platan Songs of Surrender sem inniheldur 40 misgömul U2-lög sem eru endurtúlkuð af sveitinni, aðallega þeim Bono og The Edge, öxulveldi sveitarinnar. Platan kom út vegna ævisögu Bono, Surrender: 40 Songs, One Story (2022).

Ég á erfitt með að ímynda mér réttlætingarnar fyrir svona verknaði, hvernig þeir seldu sér þetta á fundum, en athugið grannt að ég er sjálfur að endurhugsa aðkomu mína að svona aðgerðum – m.a. í gegnum þennan pistil – og er svona að reyna að slökkva á dragúldnum fordómum og koma að hreinu borði. Þetta sem U2 er að gera er nefnilega stundað. Hljómsveitir/listafólk endurhljóðritar eldri plötur af ýmsum ástæðum (Taylor Swift (fjárhagsástæður), Manowar (hljóm- og tækniástæður)) eða fiktar í frumútgáfum og gefur út aftur (Bítlarnir – Let it be … naked, The Replacements – Dead Man‘s Pop). Og svo má telja. Er þetta lélegt? Eða frábært? Ég held að það fari algerlega eftir samhenginu og hvernig svo tekst til.

Færum okkur nú nær rannsóknargagninu. U2 kallar How to Re-Assemble an Atomic Bomb „skuggaplötu“ móðurplötunnar, How to Dismantle an Atomic Bomb, sem út kom 2004. Platan fylgir endurútgáfu þeirrar plötu en mun einnig koma út sér og er útgáfudagurinn á morgun, föstudag. Innihaldið er óheyrð lög að langmestu, lög sem urðu til í upptökuferli móðurplötunnar.

Í afhjúpandi viðtali við Record Collector talar U2 um ósætti meðlima á milli þegar upprunalega platan kom út. Edge og Bono hafi verið sáttir en Larry Mullen Jr. trymbill og Adam Clayton bassaleikari töldu verkið hins vegar ekki klárt. Bono talar um að á nýju plötunni séu lög sem hefðu betur farið á upprunalegu plötuna og skuggaplatan sé leit að hráleika og vissri endurræsingu. Hann lýsir „Luckiest Man in the World“ sem „brjálæðislega melódísku“ ferðalagi um leið og hann og Adam tala mikið um það að þeir séu að hlusta á írska þjóðlagatónlist um þessar mundir! Nú er ég orðinn spenntur fyrir næstu hljóðversskífu! Adam Clayton á hins vegar afar athyglisverða athugasemd sem segir ýmislegt um hvar U2 er stödd í dag og maður skilur þessa plötu betur eftir að hafa lesið. „Við gerum okkur grein fyrir því að við erum á tímamótum,“ segir bassaleikarinn jarðbundni, þó að Larry slái honum reyndar við í þeim fræðum. „Við erum ekki að færast nær hringiðu þess sem er í tísku. Lagasmíðarnar skipta m.ö.o. minna máli í dag. Það sem við eigum hins vegar eru aðdáendurnir, sem eru í raun eins og akur sem þarf að plægja reglulega og sinna.“

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: