jeffrey lewis

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 30. ágúst, 2014

Narðarokk frá New York

• Jeffrey Lewis lék fyrir fullu húsi í Edinborg í síðustu viku
• Lewis er allhliða listamaður og alþýðuskáld af hreina og beina skólanum

Ég á góðan nágranna hér í Edinborg, Andy Stuckey, sem ég kynntist einfaldlega úti á götuhorni. Einlægt morgunbros hans gerði að verkum að við tókum að heilsast með virktum en sameiginlegur áhugi á tónlist treysti böndin síðan enn frekar. Við skottumst því reglulega saman á tónleika ásamt öðrum tónelskandi feðrum úr hverfinu og á fimmtudaginn í síðustu viku brunuðum við niður Prinsastræti á hjólunum okkar, alla leið að tónleikastaðnum Electric Circus sem stendur við aðaljárnbrautarstöðina, Waverley. Andy hafði sérstaklega mælt með þessum tónleikum og hefur verið að mæra Jeffrey Lewis í mín eyru nokkuð reglubundið undanfarna mánuði. Ég viðurkenni að ég hafði ekki kynnt mér Lewis neitt sérstaklega en sá svo ekki eftir því að hafa látið undan áróðrinum frá Andy. Tónleikarnir voru stórskemmtilegir og opnuðu manni sýn á ýmislegt nýtt.

Eldrauður anarkisti

Lewis þessi er borinn og barnfæddur í New York og bar það glæsilega með sér; svalur „hangsari“ og það var ekki fræðilegur möguleiki á því að hann gæti verið frá einhverjum öðrum stað en New York. List hans er í anda hrárrar alþýðulistar að hætti Daniels Johnstons eða Moldy Peaches og tengist hann inn í „anti-folk“-hreyfingu borgarinnar (hann hefur m.a. tekið upp plötu með Kimyiu Dawson, sem var annar helmingur Moldy Peaches ásamt Adam Green). Lewis tekur þannig upp hráar, þjóðlagaskotnar neðanjarðarrokksplötur, ýmist einn eða með öðrum. Þær eru margar, oft og iðulega heimabrenndar og í ljósrituðum umslögum með titlum eins og The Only Time I Feel Right Is When I’m Drawing Comic Books og Indie-Rock Fortune Cookie. Textar Lewis eru glúrnir, snilldarlegar dæmisögur úr hversdagsleikanum sem eru settar undir spaugilegt en um leið gagnrýnið ljós. Lewis er einnig ötull myndasöguhöfundur og lúta þær svipaðri fagurfræði og tónlistin. Hann er þá eldrauður í stjórnmálaskoðunum, eiginlega anarkisti, og t.a.m. gaf hann út plötuna 12 Crass Songs þar sem lög þeirrar mætu sveitar eru sett í „Lewis“-búning. Mælt er með þessari plötu, boðskapur Crass hefur aldrei verið skýrari enda textar vel greinilegir þegar þeir eru komnir í afslappaðan varðeldabúning!

Framvinda

Á þessum tilteknu tónleikum var Lewis studdur af sveit sinni The Jrams, Caitlin Gray bassaleikara og hljómborðsleikara og Heather Wagner trymbli. Lewis sjálfur var íklæddur hvítum bol með mynd af Mark E. Smith framan á (sveitin átti eftir að breiða yfir „Cruiser’s Creek“ síðar í settinu), með svarta derhúfu og sultuslakur hóf hann að renna sér í þekktar stemmur sem var fagnandi tekið af þétt skipuðum salnum sem var vel indírokksvænn; alskegg, Converse-skór, bláir Dr. Martens, rauðar sokkabuxur og feimnisleg augnatillit í stórum stíl. Lewis flutti t.a.m. hið kostulega „Williamsburg Will Oldham Horror“ og lag sem fjallaði um veruleika upphitunarbandanna, að vera á „support tour“, bjó yfir öllum þeim listrænu kostum Lewis sem upp hafa verið taldir. Hann braut síðan framvinduna upp tvisvar með því að sýna eigin „stuttmyndir“, sem voru haganlega gerðar trélitateikningar í myndasögustíl, varpað upp á vegg með skjávarpa. Lewis sagði síðan söguna við undirleik sveitar og var ein þeirra um sögu kommúnismans, með áherslu á Víetnamstríðið. Teikningar voru litríkar og nett grallaralegar en frásögn Lewis bæði upplýst og án einhverra meiriháttar fíflaláta.

Skjólshús

Eins og sjá má er Lewis nokkurs konar ný-hippi og andinn á tónleikunum var heilnæmur og styrkjandi. Hann var gjafmildur, vildi helst ekki hætta að spila og hvatti fólk til að vera eftir og hanga með sér áður en hann yfirgæfi svæðið. Eðlilega var hann sjálfur mættur til að selja varning og voru diskarnir grátlega ódýrir, fimm pund. Hann er þá þekktur fyrir að beiðast gistingar með því að spyrja áhorfendur á miðjum tónleikum hvort þeir geti skotið yfir hann skjólshúsi. Í þann mund sem við bjuggum okkur til brottfarar sáum við svo Lewis og stelpurnar þar sem þau voru að bauka við að stafla hljóðfærum og mögnurum í smábíl. Já, þetta er ekki alltaf glys og glaumur. Og stundum – eins og á þessum tónleikum – er maður yfirmáta þakklátur fyrir að vera laus við óþarfa pakkningar og útúrdúra. Því að það var eitthvað satt og rétt við þetta allt saman.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: