Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 3. maí.

Blásið, slegið, pikkað og leikið

Ný plata ADHD kallast 9 og hún er, eins og titillinn gefur til kynna, níunda hljóðversplata kvartettsins. Hér verður rýnt í einstaka smíðar og verkið sett í samhengi við gifturíkan ferilinn.

Sjö lögum var rúllað inn á band og er útkoman ekki á þá lund sem búast hefði mátt við, sé tillit tekið til hljómsveitarnafns og hreinlega þess mannskapar sem að tónlistinni stendur. Tónlistin er mínimalísk, hægstreym og ljúf … yfir henni fegurð og nokkurs konar helgi. Hún er innileg og maður finnur að þessir aðilar eiga í tónlistarlegu fjarskynjunarsambandi.“ Þetta reit ég 2009, fyrir sextán árum, en þá höfðu ADHD-félagar komið þrammandi inn á skrifstofu Morgunblaðsins í Hádegismóum, nánast á snjóþrúgum, og sest að blaðamanni, gírugir nokk og grínaktugir. Þeir afhentu honum frumburð sveitarinnar, geisladisk í pappírsumslagi sem þeir höfðu límt saman um nóttina. Gríðarleg orka fylgdi félögunum og hún opinberaðist á þessari fyrstu plötu sveitarinnar eins og ég lýsi hér að ofan. Ekki sprell og læti, miklu frekar djúphugult ferðalag, hvar næmleiki og innlifun ræður för.

ADHD varð tiltölulega fljótt föst stærð í íslensku djasslífi – og víðar. Plöturnar hafa komið út reglubundið, sú síðasta, að þessari frátalinni, árið 2022 (8). Sveitin ferðast reglulega yfir Atlantsála til hljómleikahalds og á kjarna aðdáenda víða um Evrópu og heim allan reyndar ef út í það er farið.

Það er nýlunda varðandi 9 að þetta er fyrsta plata sveitarinnar sem er gefin út af erlendu fyrirtæki. Það var síðasta haust sem Enja & Yellowbird Records, sem á varnarþing í München, gaf út gripinn. Stöndugt merki sem hefur verið í rekstri síðan 1971. Platan var tekin upp í Castle Studios, rétt fyrir utan Dresden í Þýskalandi, og sveitina skipa eins og áður þeir Ómar og Óskar Guðjónssynir, Magnús Trygvason Eliassen og Tómas Jónsson. Ívar Ragnarsson, hljóðmaður og hljóðtæknir, sá um upptökumál.

Platan er búin að rúlla vel og lengi hér á heimilinu. Hefur verið undir nál sem og í streymi. Ekki er að spyrja að göldrunum frekar en fyrri daginn. Platan opnar með „Síðasta bragð Geira“. Það er eyðimerkurstemmari yfir, smá Paris, Texas eiginlega (Ry Cooder). Það er erfitt að negla þetta nákvæmlega niður, eins og flestallt með sveitinni. Ég sendi gamla leiðbeinandanum mínum, Simon Frith, plötuna og svar hans var skemmtilegt. „Hljómar eins og það besta sem ég heyri hér (hann býr í Bretlandi) en það eru kenjar út í gegn sem erfitt er að setja fingur á. Norrænt, en hvorki stórborgardjass né sveita. Þetta er losaralegt og það er svifið af stað á ólíklegustu augnablikum. Ég elska þessa plötu!“ Ekki amalegt að heyra þetta frá einum helsta poppfræðingi heims.

Eftir sandblásið upphafið er lagt af stað í „Fimmþrír“. Tilraunakennt gítarýlfur, dansandi trommur, melódískur blástur og næm píanóslög. Samspilið er upphaf og endir alls hjá ADHD, að mynda stemningu, spila hver inn á annan. Einhver grunnur er settur en svo er svifið af stað eins og Frith segir. Í „Fimmþrír“ er það einmitt gert, um miðbikið er líkt og menn staldri við og hleypi málum upp í temmilegan spuna, áður en laginu er „lent“ á nýjan leik. Þannig er þetta út plötuna. Fjarskynjunarsambandið sem ég kem inn á í upphafi rýninnar er nefnilega enn fyrir hendi. Það er ástæða farsældarinnar, ástæða þess að færri komust að en vildu þegar félagarnir léku plötuna á Bird í liðnum febrúar. Megi því hilla undir tíunda skammtinn af þessum göldrum sem allra fyrst.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: