Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 8. febrúar.

Stappar nærri sturlun

GROWL POWER er plata eftir Björgu Brjánsdóttur og Báru Gísladóttur, hvar Björg flytur en Bára semur. Markaþenjandi verk, mjög svo, og ekki von á öðru svo sem úr þessum ranni.

Platan inniheldur fjögur verk sem voru samin árið 2022 og er hún liðlega fjörutíu mínútur að lengd. Bassaflauta, rafhljóð, altflauta, þverflauta og pikkólóflauta koma við sögu, að ekki sé talað um hina mannlegu rödd, eða mannleg hljóð öllu heldur. Meira um það hér á eftir. Þær Björg og Bára hafa „starfað náið saman á síðustu árum við sköpun og flutning nýrrar tónlistar fyrir þverflautu“, segir í formlegum texta. Þar kemur og fram að hvert þessara fjögurra verka sé tileinkað einu hljóðfæri og eru þau ýmist rafmögnuð eða órafmögnuð.

Titillagið hefst óþyrmilega. Ég ætla ekki að eyða mörgum orðum í almennar hugleiðingar um feril og stílbrögð tónskáldsins, þau liggja hins vegar fyrir á arnareggert.‌is fyrir þau sem hafa áhuga. Og mörg eru þau. En stíll þessa verks öskrar Bára Gísladóttir á þig og það bókstaflega. Ég hef skrifað um það hvernig tónlist hennar er í senn ægifögur og djúpstæð (það er ekki hægt að fara dýpra eiginlega) en líka óþægileg. Yfirþyrmandi. Alger. Þú hlustar, stjarfur. Í glæsilegustu köflunum er ekki hægt að hreyfa sig um leið og ekki er hægt að hætta að hlusta (þó að gestir sem koma inn í stofuna þar sem ég er að spila þetta hvái: „Hvað er í gangi!?“).

Bassaflauta og rafhljóð undirstinga tónlistina hér en það sem grípur er rödd Bjargar. Hún orgar í gegnum flautuna (og utan hennar), hvæsir, öskrar, ygglir sig og hrín. Bára hefur beitt þessum brögðum áður en hér er þetta hreint út sagt ótrúlegt. Þetta verk fer algerlega inn í kviku og kemur líka úr kvikunni. Þetta er kvenlegt og ég fæ endurminningar frá því er kona mín fæddi börnin okkar. Kynlífsstunur koma líka upp í kollinn. Þetta er líkamleg tónlist, með öllu því fagra og því ljóta sem því fylgir. Þarna er reiði, brjálæði, geggjun, líf. Hræðsla, örvænting, heift og hreinasta sturlun. Það kemur kafli (upp úr mínútu sex) þar sem maður verður skelfdur. Þetta krossar úr skáldskap yfir í eitthvað ægiraunverulegt og maður vill bara að þetta hætti. Fattiði? Verk Ernu Ómarsdóttur dansara eru ekki langt frá þessu og ég hugsa um kvikmyndir Gaspars Noé. Afdráttarleysið er algert og engir felustaðir nálægt. Hvílík dirfska, hvílíkt hugrekki, hvílík snilld!

„Ever Out After Dark (or blue lady in boring city)“ er næst og er rólegra. Maður er engu að síður með böggum hildar allan tímann, bíðandi eftir að verkið verði brotið upp með djöfulgangi. Altflautan leiðir okkur áfram í dáleiðandi spássitúr en undir rest er stillan rofin harkalega. Pínu eins og vasaútgáfa af Víddum (glæsiverk Báru sem tilnefnt var til tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs 2022). „GLÓÐ|STELPA“ hefst með léttleikandi þverflautu (í samhenginu a.m.k.) en það hvessir er á líður. „Stars with Shadows (on vast void and whatnot)“ reynir á hljóðhimnurnar svo um munar, pikkólóflautan er keyrð upp í rjáfur og umbreytist í stóran títuprjón sem stingur þig í eyrað. Magnað. „Loksins fékk flautuleikarinn pikkólóverkið sem tónskáldið hafði neitað henni um allt frá því vinátta þeirra hófst fyrir tíu árum,“ segir í formlega textanum.

Frábær tónlist sem þetta er og frábær frammistaða hjá báðum aðilum sömuleiðis. Takið líka eftir kynjapólitískum, valdeflandi undirtóninum ef ekki yfirtóni. „Growl Power“ er orðaleikur og eins er með „GLÓÐ|STELPA“. Konur eiga að vera settlegar, prúðar og góðar, skilaboð sem eru ekki að fara neitt þrátt fyrir að réttlætisbarátta kvenna hafi færst einhverja sentimetra áfram. Hér er stelpan ekki góð, þótt hún þykist vera það í upphafi. Hún er „glóð“. Brennandi, kraftmikil og á heimtingu á plássi, hávaða og vitleysisgangi eins og við öll. Valdeflandi skilaboð frá tveimur tónlistarkonum og til hreinnar fyrirmyndar.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: