Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 24. maí.

Funheitt blúsrokk

Trouble in Mind er önnur breiðskífa blúsrokkdúettsins GG blús. Hér verður rýnt í gripinn, hann skoðaður í krók og kima, og perlur þær sem þar finnast þræddar upp á band.

Frumburður dúettsins, Punch, kom út 2019. Hvað tíminn flýgur! GG blús skipa þeir Guðmundur Jónsson og Guðmundur Gunnlaugsson, hinn fyrrtaldi semur efnið að mestu og syngur og leikur á gítar en hinn síðarnefndi lemur húðir um leið og hann syngur af list. „Black Keys Íslands“, lýsing sem ég og vinur minn Ólafur Páll Gunnarsson vorum að henda á milli okkar í einhverju gangaspjallinu.

Ég skrifaði dóm um fyrstu plötuna og birtist hann á vef RÚV. Á þeirri plötu eru ýmsar hliðar blúsrokkformsins skoðaðar, stundum er keyrt á hálfgildings þungarokki, stundum fá ballöður að njóta sín, stundum hreinni blús. Og allt þar á milli. „Blágrýtt bílskúrsrokk af gamla skólanum,“ sögðu meðlimir sjálfir um gripinn og hittu þar blúsaðan nagla beint á höfuðið.

En hvað er síðan í gangi hér? Opnað er með krafti, tónninn settur í „I Say U Say“. Blæbrigðarík og tilfinningaþrungin rödd Gunnlaugssonar rífur hlustandann inn. Þetta er þung smíð og dýr á fóðrum þegar kemur að riffa-búskap. „Make It Right“ tiplar hins vegar um hljóðrásirnar og melódíugáfur Guðmundar liggja þétt undir framvindunni. Hans einkennandi stíll gerir vart við sig um leið. Í „Driving“ er formið hins vegar þanið lítið eitt. Unnur Birna Björnsdóttir fiðlari kemur sterk inn, lagið vel trukkandi blúsrokkari og fiðlan fellur eins og flís við rass. Skemmtilegt. Og oggulítil bakrödd tosar viðlagið smekklega upp. „Black Betty“ er tökulag, lag eftir Lead Belly sem hljómsveitin Ram Jam gerði að smelli árið 1977. GG blús styðst við þá útgáfu og rúllar því upp með glans. Kröftugur og sprelllifandi flutningur. „Midnight Train“ (þurfum við ekki eitt lag með þeim titli?) er eftir Jónsson hins vegar. Lipurt lag, knúið áreynslulausri melódíu að hætti hússins, og svona meðvituð „léttun“ á framvindunni finnst mér. Hrært er í níðþungan ópus í kjölfarið, sjálft „Whole Lotta Love“ eftir Zeppelin. Kannski ekki brjálæðislega þungt að forminu til en með með bagga sögunnar á bakinu. Hér er brugðið á leik útsetningarlega séð, Zeppelin-forskriftinni ekkert sérstaklega fylgt og hér fær gestur líka að skína, sjálf Brynhildur Oddsdóttir úr Bee­bee and the Bluebirds, og fer hún fimum höndum um rafgígjuna.

Frumsamið lag eftir Jónsson fylgir, því næst ansi glúrin útgáfa af „Roadhouse Blues“ og svo enn og aftur frumsamið eftir okkar besta mann. Lokað er með titillaginu og þar fer engin önnur en Bryndís Ásmundsdóttir og syngur hún lagið ásamt Guðmundi trymbli. Reffilegt kveðjulag, hvar keyrsla og hugvitssamleg kaflauppbrot fara saman. Gunnlaugsson hefur leika, hellir úr hjartanu, áður en Bryndís kemur og massar þetta með risaröddu; sveitt, heit og rokkandi.

Þannig var hanterað um þessa plötu. Alls ekki ósvipuð frumburðinum, mögulega eilítið þéttari og öruggari. Og með þessum góðu gestum líka. Ég veit að þessi félagsskapur snýst m.a. um hljómleikahald, þar hafa þeir kappar verið öflugir, en um leið er „auðveldara“ að keyra tveggja manna batterí, eins og fram kom í ágætu viðtali kollega míns Helga Snæs Sigurðssonar við Guðmund Jónsson á dögunum. Þar talar Guðmundur aukinheldur um að hafa horfið aftur til rótanna, í frumkraft rokksins, blússins og hráleika bílskúranna. Þessu öllu er vandlega skilað í eyrun á okkur á Trouble in Mind.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: