guðmundur

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 23. janúar, 2015

Fagurt flæði

Sensus er fjórða sólóplata Guðmundar Péturssonar gítarleikara. Leikur hann á gítara og hljóðgervla en einnig leikur Kristinn Agnarsson á trommur, Samúel J. Samúelsson á básúnu og Haukur Gröndal á saxófóna, flautur og klarínett.

Ég hef orðið þess heiðurs aðnjótandi að fá að skrifa um tvær síðustu sólóskífur gítarleikarans slynga Guðmundar Péturssonar. Ologies kom út 2008, Elabórat árið 2011 og eru þessi verk öll hljóm- og áferðarlega tengd (fyrsta sólóplata Guðmundar, Muzac, kom út árið 1997 og stendur utan við þessa greiningu hér).

Tvær síðustu plötur voru framúrskarandi verk og báru með sér sterk höfundareinkenni – einstæðan stíl sem byggist á samslætti nokkurra ólíkra þátta – og heldur Guðmundur áfram að slípa hann til hér. Nú er Guðmundur einn fjölkunnugasti leiguspilari landsins, hæfileikar hans hafa runnið um ótal plötur, og einhverjir myndu þá ætla að þessar plötur væru fyrst og fremst sýnidæmi um virtúósmennsku höfundarins. En það er öðru nær. Öllu heldur eru þessi verk svo gott sem ególaus, tónlistin sjálf ræður og Guðmundur lætur lítið fyrir sér fara, ekki ósvipað og þegar hann stendur uppi á sviði. Vissulega má heyra í gítar hérna, en hann er hvorki einkennandi né með látalæti. Hljómborð, slagverk og slíkt spilar alveg jafn mikilvæga rullu.

Ekkert kemur úr engu og það er gaman að finna þá áhrifavalda sem láta hér á sér kræla, hvort sem Guðmundur er að vinna með þá meðvitað eða ekki. Mér finnst ég alltaf heyra hátt í bandarísku síðrokkssveitinni Tortoise og þá einkum í meistarastykki hennar TNT. Gamlir áttunda áratugar svuntuþeysarar eru hérna (alltént er vélað þannig um að manni finnst það) og andi Brians Enos er og þarna, Another Green World kemur í hugann. Hin franska Air fær líka að kíkja í kokteilboðið og straumar frá þýsku síðsúrkálsrokki leika um.

Segjum þetta gott af nafnatogi (og þótt fyrr hefði verið!). Lögin eru sjö, allt frá rúmlega mínútu til tíu mínútna, og þrátt fyrir góðan heildarhljóm á plötunni eru áherslur ólíkar innan einstakra laga. Stundum rúlla smíðarnar áfram taktvisst og naumhyggjulega, ryþmavefurinn ávallt haganlega ofinn. Á köflum er rokkað; gítarnum leyft að orga á skrumskælda vegu en svo fellur allt í ljúfa löð, eins og í „Three Pigs“ þar sem tónlistin gárar nánast hljóðlaust í draugalegu sveimi.

Þannig er þetta meira og minna. Þetta er áleitin tónlist, úthugsuð og falleg í sínu áreynslulausa flæði. Plöturnar þrjár eru glæsilegt „hat-trick“ og bera náttúrubarni í tónlist fagurt vitni.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: