Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 17. maí.

Úlfurinn sem læðist

Jóhannes Pálmason hefur verið virkur lengi vel í íslenskri jaðartónlist en hefur aldrei gefið út ­undir eigin nafni. Fyrr en nú. Í formi úlfs er fyrsta plata hans, verk sem er í senn dulrænt og dreymið.

Jóhannes hefur gefið út sem Epic Rain en hefur auk þess starfað með The Ghost Choir og Dalalæðu auk þess sem hann er einn af stofnendum VAX-útgáfunnar. Þessi plata hans undir eigin nafni er sú fyrsta í þríleik. Jóhannes lýsir tónlistinni sjálfur sem blöndu af andans fylltum (e. spiritual) djassi, raftónlist og spuna og kjarnar þetta sæmilega með þeirri lýsingu. Platan sækir innblástur í bókina A Little Girl Dreams of Taking the Veil sem er skrifuð og myndskreytt af Max Ernst. Ásamt Jóhannesi koma þau Magnús Trygvason Eliassen, Skúli Gíslason, Hálfdán Árnason, Hannes Helgason, Jóel Pálsson, Albert Finnbogason, Katie Buckley og Roland Hartwell við sögu á plötunni. Raddir eiga Ronja Máney Jóhannesdóttir, Jóhannes Árnason, Malaika R. Ingvarsdóttir, Þórey Sif Sigurjónsdóttir og Drengjakór Reykjavíkur. Jóhannes samdi, hljóðritaði og -blandaði en Albert Finnbogason hljómjafnaði. Umslagið, sem er einkar gerðarlegt, skartar ljósmyndum eftir Björgvin Sigurðarson og teikningum eftir Þóri Georg sem sá aukinheldur um uppsetningu. Einungis 200 eintök voru pressuð og það á 180 gramma vínyl.

Hlustanda er varpað inn í undraheim frá fyrstu sekúndu. „Umskipti 1“ á greinilega að lýsa yfirfærslu einhvers yfir í úlfslíki og „Í formi úlfs“, annað lagið, ber með sér draugalegt andrúm hvar heyra má ógreinilegt tal í stúlku. Það er gotneskur drungi yfir og greinilega eitthvað „að“, eitthvað í gangi. Smámyndbandið sem flöktir yfir á Spotify undirstingur þetta, minnir á svarthvíta mynd frá þeim tíma sem Ernst skrifaði téða bók, um 1930. Þetta er kvikmyndalegt nokk, minnir t.a.m. á það sem Amiina og Kælan mikla/Barði Jóhannsson hafa verið að gera í slíkum efnum. „Umla“ spinnur þennan þráð áfram, „ambient“-smíð og raddirnar, alltaf í fjarska, undirstrika draugaganginn enn frekar. Þannig tikkar platan áfram, „Snertu þrumu“ sviptir upp austrænum áhrifum, vel útfært lag, og svo er komið að „Umskipti 2“, sem er stutt stef í svipuðum stíl og upphafið. Platan líður síðan áfram í þessu formi, „úlfsformi“ jafnvel – gárandi, tripphopplegnar rafstemmur yfir og allt í kring. Hún er enda fyrir öllu, stemningin, en Jóhannes og félagar ferðast um þessar lendur á útgáfum sínum og ég hvet fólk til að kanna fleiri verk á VAX og annað efni Jóhannesar líka, svo að samhengið verði ljóst.

Ekki er stoppað hér. Í dag kemur út önnur plata, fyrsta platan í hljóð- og myndaseríu sem ber heitið Hljóðheimar. Platan kemur út á vegum VAX og Móatúns 7 og heitir Vatn og raf. Jóhannes og hans fólk, m.a. Árni Grétar Futuregrapher heitinn og Björgvin Sigurðarson ljósmyndari, fengu leyfi Landsvirkjunar til að heimsækja fjórar vatnsaflsvirkjanir og „taka upp sum af öllum þeim kynjahljóðum sem þar ber fyrir eyru“ eins og segir í fréttatilkynningu. Óvanalegum aðferðum var beitt við gerð plötunnar, t.d. var næmum hljóðnema, Geophone, beitt en hann var upphaflega hannaður fyrir jarðskjálftamælingar. Hljóðnemi sem getur fangað mjög daufan titring í ýmsum efnum. Vart greinanleg hljóð af raf- sem vatnstoga fljóta því um þessa forvitnilegu plötu. Ljósmyndasýning um verkefnið verður líka opnuð í dag, í nýju útibúi Gallery Ports á efri hæð Rammagerðarinnar, Laugavegi 31. Þar verður einnig hægt að hlýða á hljóð/tónlistina í sérstökum hlustunarstöðum.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: