Friðsæll Ný plata Ólafs Arnalds er höfgi bundin, en samt er það ekki svo einfalt.
Ljósmynd/Anna Maggý

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, fimmtudaginn 24. desember, 2020.

Væri hægt að fá smá frið?

Ólafur Arnalds hefur aldrei slegið slöku við á ansi litríkum ferli en gerir það nú samt í þetta skipti eins og titill nýrrar breiðskífu, some kind of peace, ber með sér.

Ég stóðst eðlilega ekki mátið að vera með smá orðagrín í inngangi eins og enskir gera gjarnan. Því þó að Ólafur slái slöku við hér, tónrænt séð, væri aldrei hægt að lýsa hans ferli eða vinnusiðferði með þeim hætti. Ólafur er einfaldlega alltaf að og verkefnin jafn mörg og þau eru misjöfn. „Ég hef markmið… og mikinn metnað, svo einfalt er það,“ sagði hann mér árið 2008 er ég tók við hann viðtal. Þá var hann í hljóðprufu í Tempodrom-höllinni í Berlín. Hafði þá vakið athygli fyrir listagóðan trommuleik fyrir ýmsar öfgarokkssveitir en var um þær mundir að hefja tónskáldsferilinn og hafði þá þegar gefið út breið- og stuttskífu sem innihéldu naumhyggjulega, angurværa og hægstreyma tónlist.

Vegur hans hefur vaxið jafnt og þétt síðan. Sólóplötur og samstarfsverkefni af ýmsum toga, tónlist fyrir balletta, kvikmyndir og sjónvarpsþætti (m.a. verðlaunatónlist fyrir Broadchurch ) og glæst og glúrin verk eins og t.a.m. Island Songs . Er ég að gleyma einhverju? Já, pottþétt! Ég nefni Kiasmos, rafdúettinn sem hann skipar ásamt hinum færeyska Janus Rasmussen, íburðarmikil tónleikaferðalög um heim allan, samninga við erlendar stórútgáfur og stofnsetningu íslensku útgáfunnar Öldu.

En nú hætti ég þessum upptalningum, þið getið flett restinni upp. Mig langar til að einblína á nýju plötuna, fá smá frið til þess. Hugmyndafræðin að baki henni er skýr, er undirstrikuð með titli og umslagi. Ró, friður, stilla… eitthvað sem allir vilja, allir sækjast eftir en ná aldrei. Eða finnst þeir aldrei ná. Og titillinn er dálítið lúmskur hvað þetta varðar. „Einhvers konar“ frið. Kannski ekki endilega þann sem fæst með því að sitja í tvo tíma á toppi Esjunnar, kannski bara þennan mínútufrið sem þú krækir í á flugvellinum þegar vélin er ögn sein (munið þið?). Í öllu falli opnar Ólafur með „Loom“, hvar breski raftónlistarmaðurinn Bonobo er gestur. Hæg en örlítið knýjandi rafstemma með þægilegu skruði eða „glitch“-i. Pæling um að friðurinn sé aldrei fullkominn? Alltaf „smá“ truflun? Í öllu falli ákveður Ólafur að fara dýpra með friðinn í næsta lagi, „Woven Song“, þar sem hann kastar skruðinu til hliðar. Engu að síður er þarna söngrödd, ég sé japanska konu fyrir mér. Áfram er haldið, „Spiral“ einkennist af strengjum og píanói og er friðsamasta lagið til þessa. Hér er stilla. Og enn meiri í næsta lagi/verki, „Still / Sound“. Eitt leiðir af öðru greinilega en allt eru þetta þó ólík tilbrigði við stef. Alls konar friður.

„Back to the Sky“, hvar JFDR syngur, er nánast slagari samanborið við það sem á undan fór. En „Zero“ grundar okkur, bókstaflega. Fallegur, „ambient“-leginn óður en þó með surgandi uppbroti. Ég held áfram að túlka þetta sem komment á hvað við álítum vera frið þó að tónlistarmaðurinn sé ábyggilega ósammála! „New Grass“ leyfir sér að vera smá epískt, smá „stórt“, en bara smá (broskall). „The Bottom Line“ er sungið af hinni þýsku Josin sem tónar yfir strengjum sem rísa bæði og falla. „We contain multitudes“ er undarlega róandi, hvar heyra má á tal tveggja í upphafi áður en ljúfsárt – og giska snoturt – píanó tekur við. „Undone“ lokar verkinu og í upphafi má og heyra rödd. Ég fæ smá Gavin Bryars-tilfinningu við þetta. Það er bara þannig.

Það er friður hér, bæði í tónlistinni og í eins lags tónrænni hugleiðingu um hvað það nákvæmlega er. Næst er svo að frumsýna stuttmynd sem tengist inn í þetta verk. Ólafur er nefnilega alltaf að. Hann fékk þó smá frið hér…

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: