Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, föstudaginn 3. janúar.

Plötur ársins

Tónlistarárið einkenndist af einkar fjölskrúðugum útgáfum og það í hundraðatali. Efnið kom út á vínyl, geisladiskum, kassettum, sjö- og tíutommum og á streymisveitum og stílarnir alls kyns auðvitað; þungarokk, popp, þjóðlagatónlist, nútímatónlist, hipphopp, dómsdagsrokk, teknó, hús, indírokk, indípopp og með öllu óskilgreinanleg tilraunatónlist. Svona meðal annars. Arnar Eggert Thoroddsen stakk sér í þennan djúpa brunn og kom upp með nokkrar perlur.

Plata ársins

Mikið sem ég beið spenntur eftir plötu CYBER, SAD :'(, á síðasta ári og væntingar eftir því. Sveitin stóð undir þeim öllum og gott betur. Þessi frábæra rafsveit/dúett hefur verið að pönkast á tónlistarforminu frá upphafi vega en aldrei hefur glúrið háð þeirra og spott hitt jafn vel í mark. Glæsilegt stílaflökt einkennir gripinn og valdið sem þau hafa á skrítipoppi sínu er algert. Við erum mætt á akur úthverfrar tilraunagleði þar sem allt má. Þú veist í raun aldrei hvað mun gerast í hverju og einu lagi og rólegheit snúast upp í garg og geðveiki á sekúndubroti. Fullkomlega dásamleg plata!

Popp ársins

Una Torfa gaf út fyrstu plötu sína í fullri lengd í vor, Sundurlaus samtöl. Einstaklega frambærilegt verk verður að segjast, bókstaflega sindrandi af öryggi. Tilkomumikil. Stór. Einlæg. Blíð – og ofsa kröftug. Hún er eiginlega beljandi á köflum. En stundum hvíslandi. Una er keik og það eru engir afslættir gefnir. Allt sett upp á borð, Blue Joni Mitchell ef hún stæði inni í eldhúsi í Vesturbænum og reifaði þar óttalaust sín hjartans mál.

Hlustið líka á framúrskarandi plötu Emilíönu Torrini, Miss Flower, mögulega hennar besta verk til þessa og frábæran frumburð Kötlu Yamagata, Postulín.

Rokk ársins

Plata Dr. Gunna, Er ekki bara búið að vera gaman?, viðheldur endurreisninni sem fólst í Nei, ókei (2021). Það er stuð á doktornum, endurnýjaður kraftur sem skilar sér í óhemju skemmtilegri, grípandi og kersknislegri tónlist. Kenjum hversdagsins er fundinn staður í grípandi pönkrokki en í þeim fræðum er Dr. Gunni, Gunnar Lárus Hjálmarsson, hreinasti völundur – jafnvel doktor.

Hlustið líka á stórgóða plötu Bigga Maus, Litli dauði/Stóri hvellur og rokkaða tónleikaplötu Helga og hljóðfæraleikaranna, Ást og sigur – Vírinn hrjúfi.

Tilraunapopp ársins

Sigrún hefur lengi vel verið með okkar allra áhugaverðustu listakonum en útgáfuhlé er búið að vera óþarflega langt finnst okkur aðdáendum. Allt er hins vegar fyrirgefið því Monster Milk er hæglega með allra bestu útgáfum þessa árs. Framsækið, markaþenjandi tilraunapopp sem keyrir ýmist á skruði og óhljóðum eða englamelódíum að hætti Juliu Holter. Áfram Sigrún og meira svona!

Hlýðið einnig á glæsismíð Sunnu Margrétar, Finger on Tongue, og nýliðana í Amor Vincit Omnia og plötu þeirra brb babe.

Jaðarpopp ársins

Önnur plata Kaktusar Einarssonar, Lobster Coda, nær því hárfína jafnvægi að vera poppuð og aðgengileg um leið og hún er krefjandi og djúp. Launskrítin. Sannkallað jaðarpopp. Stíll Kaktusar verður æ persónulegri og einstakari með árunum, þetta er tónlist sem læðist undir skinnið á þér með tíð og tíma og yfir er reisn, mig langar til að segja hugarró, runnin undan listamanni sem slípar sitt til af þolinmæði og þrautseigju.

Tékkið líka á vel heppnaðri plötu Lúpínu, Marglytta, og glæsigrip Torfa, Eitt.

Dans-/raftónlist ársins

Hljómsveitin sideproject hefur löngum gert út á óskilgreinda, tilraunakennda raftónlist og hér er hún, á sínum fyrsta vínil, í einhverskonar grime-gír og mun hnitmiðaðri heldur en oft áður. Á sourcepond er taktur og flæði en allt er það skorið upp og skælt að hætti hússins. Merkasta neðanjarðarsveit landsins þegar litið er til síðustu ára en tríóið kom m.a. að taktsmíði á plötu Bjarkar, Fossora (2022).

Hlustið líka á randyrtsport eftir Skorra, frábæra teknóplötu og voldugt verk Jónbjörns, Gárur.

Nútímatónlist ársins

Bára Gísladóttir er jafnbesta tónskáld landsins, það er óefað. Orchestral Works, sem Dacapo Records gaf út á árinu, er unnin með Sinfóníuhljómsveit Íslands og þar er að finna þrjú verk, „Vape“, „Hringla“ og „COR“ en stjórnandi er Eva Ollikainen. Líklega fallegasta – og óbærilegasta – tónlist sem þú munt heyra frá árinu 2024. Og þú átt gott í vændum lesandi kær því það er nóg til frammi.

Kynnið ykkur líka ótrúlega plötu Bjargar Brjánsdóttur og Báru Gísladóttur, GROWL POWER og No More, No Less plötu Ekki minna dúettsins, hvar harmóníka og selló stíga villtan dans.

Sýra ársins

Á hverju ári, sem betur fer, koma út plötur sem fara viljandi fram af hengifluginu í tónlistartryllingi, ógna, hræða og grípa hlustandann heljartökum. Íviðjulykkja Ófreskju var fremst í þessum flokki í ár, ískyggilegt óhljóðaverk sem fékk mann á köflum til að óska þess að það myndi bara hætta, slíkur var óhugnaðurinn. Kristján Fenrir nokkur hefur stundað svipaða list með góðum árangri, sem K. Fenrir og Sjálfshatur, og átti plötu á árinu með fyrra verkefninu. Heyrn er sögu ríkari!

Hlustið og á plötu Glupsk og Sigtryggs Bergs, Beyond Happy og ævintýralegt ferðalag TRPTYCH, Ajna.

Öfgarokk ársins

Múr er vonarstjarna íslenska öfgarokksins í dag. Sá geiri hefur vakið verðskuldaða athygli á alþjóðavettvangi undanfarin ár og meðlimir Múrs eru nýjustu kyndilberarnir. Frumburður sveitarinnar, samnefnd henni, kom út í ár og er ógurlegur. Löng dramafyllt lög í anda Sigur Rósar og ISIS með hágæða melódíum og spilamennsku. Það er allt geirneglt hjá þessum ungu mönnum og það verður spennandi að sjá hvað gerist í framhaldinu.

Kynnið ykkur líka æði brjálæðislegan svartmálm G2E en platan kallast Grindavík. Einnig verkið Tungumál svarthola sem er eignað sólóverkefni Dags í Misþyrmingu, Pthumulhu. Stórfellt brjálæði!

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: