Bárujárn Dimma hefur glatt Mörlandann með þungu rokki í áratugi.

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 5. apríl.

Dimmu í dagsljós breytt

Plata Dimmu, Vélráð, hefur nú fengið afmælisútgáfu en hún treysti hana í sessi sem eina farsæl­ustu þungarokkssveit Íslands á sínum tíma. Það er því lag að taka sveitina heildstætt út með grjótharðri greiningu.

Platan, sem út kom 2014, kemur því út í sérstakri tíu ára afmælisútgáfu, á geislaplötu sem og á streymisveitum. Bassaleikari sveitarinnar, Silli Geirdal, hefur tekið hana hljómrænt í gegn frá grunni. Hljóðblöndun er ný sem og hljómjöfnun. Þann 12. apríl næstkomandi verður platan svo leikin í heild sinni í Iðnó ásamt öllum vinsælustu lögum sveitarinnar.

Dimma er, ásamt Sólstöfum og Skálmöld, helsta stærðin í íslensku þungarokki í dag en einnig má draga Misþyrmingu og The Vintage Caravan inn í það mengi. Allar eru þessar sveitir samt ólíkar og mismiklar um sig, t.d. þegar við tölum um alþjóðavettvang. Dimma eru fyrst og síðast heimabæjarhetjur, tónlistin beinskeytt þungarokk án refja sem kallar fram anda Judas Priest, Dio og fleiri klassískra hetja. Leiðin að almúganum er hvað greiðust hjá Dimmu, tónlistin í senn magnþrungin og melódísk, nokkuð sem hefur aflað henni þeirra meginstraumsvinsælda sem hún nýtur.

Það var árið 2011 sem Dimma setti í annan gír, þegar nýr trommuleikari (Birgir Jónsson) og söngvari (Stefán Jakobsson) gengu til liðs við Geirdalsbræðurna sem sveitina leiða. Myrkraverk (2012) var fyrsta útspil þessa kvartetts og gekk allt upp hvað það skapalón sem ég hef verið að lýsa varðar. Ferskleiki og endurræsing, þetta var greinanlegt. Á þessu var svo hnykkt með Vélráðum, sem eru annar hluti þríleiks, ásamt með Eldraunum (2017). Í þríleiknum eru eðli og eigindir mannskepnunnar skoðuð en Vélráð skoðaði sérstaklega brögð þau og brellur sem við notum til að ná völdum yfir öðru fólki, líkt og titillinn ber með sér.

Pistilritari hefur haft tækifæri til að fylgjast með þessari vegferð Dimmu undanfarinn áratug. Vel hefur verið haldið á spöðum, alla tíð, og hantering hennar á sígildu bárujárnsrokki hefur verið einkar sannfærandi enda valinn maður í hverju vélarrúmi. Ég skrifaði t.a.m. dóm um Eldraunir, þá nýkominn til landsins að heita má eftir dvöl í Skotlandi, og í honum reyndi ég að taka heildrænt utan um fyrirbærið Dimmu. Ég lýsti þeirri plötu sem straumlínulagaðasta verki sveitarinnar til þessa, „þungt, einfalt og glúrnar útsetningar sem hitta í mark“. Einnig merkti ég vissan samslátt hjá þeim félögum, tónlistin væri „sígilt þungarokk þar sem bæði er sótt í harðneskju og keyrslu nútímaþungarokks en um leið í gamla skólann, þar sem tekið er ofan fyrir harðrokkshetjum eins og Scorpions, Dio, Priest, Sabbath og fleirum“. Dimma er nefnilega með samtímann undir líka, þetta er ekki eftiröpun á upptöldum hetjum heldur er afgreiðsla öll nútímaleg. Auk þess sem viss skandinavískur myrkrablær leikur um allt enda ekki annað hægt. Svona er að vera Norðurlandabúi!

Bindum nú endahnút á þessa greiningu. Síðasta hljóðversplata, Þögn, kom út 2021. Engan stórkostlegan viðsnúning er þar að finna, eilítil léttun á völdum köflum en fyrst og síðast keyrt á þeirri forskrift sem reynst hefur svo vel.

Dimma, þungarokkssveit alþýðunnar, er því við góða heilsu og notar nú tækifærið og horfir eilítið um öxl. Mig grunar að eitthvað sé svo farið að ólmast í meðlimum hvað nýsköpun varðar enda ráð að hamra járnið að því leytinu til þegar vélin er hvínandi heit.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: