Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, fimmtudaginn 22. febrúar.

Að breyta mannganginum

Ungt og efnilegt tónlistarfólk af öllum stærðum og gerðum tók sín fyrstu útgáfuskref á síðasta ári. Margt einkar áhugavert og spennandi og ljóst að jarðvegur íslenskrar tónlistargrasrótar er næringarríkur með afbrigðum.

Sumt af því sem ætti annars heima hér hef ég þegar afgreitt á síðum þessum og annars staðar. Mig langar því að tæpa á nokkrum plötum sem rötuðu ekki í þær skrifrásir, stöndug verk sem gefa mikil efnilegheit til kynna.

Fyrst vil ég nefna að Katla Yamagata gaf út stuttskífu, Postulín. Ég hafði aldrei heyrt þessarar konu getið en platan rúllar eins og Katla sé búin að vera heillengi í bransanum. Glúrið, vel upp tekið og útsett popp með skemmtilegum textum. Dúettinn Amor Vincit Omnia (Erla Hlín Guðmundsdóttir og Baldur Skúlason) læddi þá út fimm laga plötunni brb babe nánast óséðri. Góð tónlist spyrst hins vegar út og skemmtilegur snúningur dúettsins á r og b og danstónlist hefur fengið margan til að sperra eyrun. Stuð með listrænu ívafi mætti segja.

MC MYASNOI átti tónleikaplötu í fyrra, slugs are legal now, sem gefur ágæta mynd af þessari hyldjúpu neðanjarðarsveit. Hún hefur vakið verðskuldaða athygli á þeim vettvangi, tónlistin blanda af ertandi rafóhljóðum, súrkálsinnblásnum töktum og hálfgerðri drunulist (e. „drone“). Einn meðlima er Ronja, ein fárra hérlendis sem hafa gert ofsapopp og næturkjarna af einhverju viti (sjá 000000 frá 2022). Svo við förum rakleitt í öfuga átt þá kom platan Lucid Dreaming Moments með Jóhanni Agli mér í opna skjöldu. Aftur, ég hef ekki hugmynd um hver maðurinn er en þessi plata er algert poppgúmmelaði. Frábær hljómur, þykkur og góður, og lögin dásamleg. Rafpopp alla leið og svei mér þá, melódíur Depeche Mode koma helst í hugann (GusGus líka).

Ég nefni líka Ragnarök Trio, sem leitt er af íslenska gítarleikaranum Þorkeli Ragnari. Tríóið gerir út frá Osló en Þorkell er þar við nám. Platan Prepare to Die! (hvílíkur titill) kom út síðasta nóvember og inniheldur kolbrjálaðan djassspuna. Stundum skreiðist tríóið upp á teinana en missir sig óðar út í ólmandi spuna. Blairstown er þá eitt af þessum böndum sem duttu í fang manns. Einu upplýsingarnar sem ég hef eru að það gerir út frá Reykjavík. Tónlistin á stuttskífunni Í kasti er þekkilegt nýbylgjurokk og hljómar eiginlega eins og hin nafntogaða hljómsveit Spacestation hefði ákveðið að róa sig lítið eitt niður.

Ég ætla að svindla pínulítið undir restina. Enginn af eftirfarandi er beinlínis að stíga sín fyrstu skref en plötur þessar hafa allar eitthvað við sig og listafólkið er heldur ekki beint á allra vörum. Það er því karmískt rétt að nefna þetta til sögunnar. Fish don’t like Milk er sveimverkefni („ambient“) Tékkans Tomášar Peřinka sem hefur verið búsettur hér síðan 2008. Nokkrar plötur með ansi áheyrilegu „ambient“ komu út í fyrra og Tomáš á slatta af efni sem lúrir á Bandcamp-setri hans. Platan NO MORE NO LESS með dúettinum Ekki minna (sellóleikarinn Andrew Power og harmónikkuleikarinn Jónas Ásgeir Ásgeirsson) bærði þá hjartastrengi, ansi vel heppnað tilraunaverk hvar téð hljóðfæri minnast skemmtilega.

Ég get þulið endalaust upp en kveð með tveimur verkum. The Synthea Starlight Album með Synthea Starlight inniheldur stórgott, Moroder-skotið hljóðgervlapopp hvar Jara Karlsdóttir syngur á meðan Thoracius Appotite galdrar fram tónlistina (Þórir Bogason úr Just Another Snake Cult). Ég verð líka að nefna Unisong eftir Berg Anderson. Líklega það „venjulegasta“ sem hann hefur gert til þessa, líkt og Nick Cave hefði ákveðið að gera varðeldaplötu. Bergur, sem var áberandi í neðanjarðartónlistarsenu Reykjavíkur um og eftir miðjan fyrsta áratuginn, býr og starfar í Rotterdam eins og er og hefur aðallega sinnt tilraunatónlist undanfarin ár. Unisong er því skemmtileg upphristing á því öllu, bráðgott verk og bústið þótt „venjulegt“ sé.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: