Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 5. október.

Rokkað og ekki stoppað

Ein merkasta rokksveit Íslands fyrr og síðar, Jet Black Joe, hlóð í endurkomutónleika þessa helgina en platan Fuzz og safnplatan Greatest Hits eru nú fáanlegar á vínyl í fyrsta skipti.

Það er ekki sama hver ákveður að hlaða í endurkomutónleika. Ég er með Oasis ferska í huga mér vegna þessa og nú er ég að drepa niður penna vegna Jet Black Joe en hratt og vel seldist á tónleika sveitarinnar nú um helgina í Háskólabíói, en tónleikarnir urðu alls þrennir. Sveitin hefur komið saman aftur reglubundið eftir að hún lét fyrst af störfum og alltaf er hún aufúsugestur hjá landslýð. Þessu tengt eru líka tvær glæstar vínylplötur út komnar; svanasöngurinn Fuzz sem út kom 1994 og safnplatan Greatest Hits, á tvöföldum vínyl, en upprunalega kom hún út árið 2002. Þá eru allar hljóðversplötur Jet Black Joe frá 10. áratugnum orðnar fáanlegar á vínyl.

Jet Black Joe spratt fullsköpuð úr höfði Seifs sumarið 1992 og fyllti ljósvakabylgjurnar með glæsismíðinni „Rain“. Frumburður hennar, breiðskífa samnefnd sveitinni, kom út þá um haustið (á geisladisk og kassettu eingöngu en þetta var fyrsta árið sem hætt var að pressa vínyl á Íslandi). Restin er í sögubókunum eins og sagt er og sveitin varð fljótt afar vinsæl. Gruggið var allsráðandi á tíunda áratugnum en Jet Black Joe var ekki af slíkum meiði, til þess var tónlistin of þétt bundin við sígilt, melódískt rokk frá sjöunda og áttunda áratugnum og sá kunnugleiki fleytti Jet Black Joe-liðum mögulega svona langt. „Krakkarnir“ dýrkuðu þetta en pabbarnir og mömmurnar, alin upp á Led Zeppelin og ámóta, tengdu líka. Náðargáfa Gunna Bjarna gítarleikara á lagasmíðasviðinu og ótrúlegur rokksöngur Páls Rósinkranz sá svo um rest. Ekki sakaði að meðlimir féllu eins og flís við rokklífernisrassinn og litu allir út eins og mislifaðar rokkstjörnur, hver og einn einasti. Þetta var skrifað í skýin.

Það er mögulegt að gera smá sönnunarpróf á Fésbókinni upp á hvað lifir og hvað ekki og hversu djúpt tónlistin er í fólki. Ég skrifaði smá hugvekju man ég þegar Sálin hans Jóns míns hætti störfum og veggurinn minn sprakk. Sveitin atarna hafði greinilega mikið gildi fyrir marga. Svipað gerðist í fyrra þegar ég mærði lagið „Falling“ með Jet Black Joe á sama vettvangi, viðbrögðin voru afar mikil og ástin hreinlega lak niður vegginn. Allir og amma þeirra höfðu eitthvað um lagið að segja og ég sá að vinsældir Jet Black Joe eru vel rótfastar þótt árin færist yfir, nokkuð sem þessir endurkomutónleikar eru greinilegt merki um.

Í upphafi var keyrslan mikil og þrjár plötur komu út á þremur árum. Samnefnda skífan árið 1992, You Ain’t Here árið 1993 og svo Fuzz 1994. Hljómsveitin hafði lítinn áhuga á að festast í sama fari, plöturnar urðu tilraunakenndari og Fuzz er besta dæmið um þá ævintýragirni. Ég tók dáindisviðtal við jafnaldra minn Pál Rósinkranz árið 2000, þegar ég hafði nýhafið störf fyrir Morgunblaðið, og fórum við um velli víða í ljúfu kaffispjalli. Hann hafði þetta að segja um Fuzz og endalok Jet Black Joe: „„Það sem svo gerðist var að við fórum að selja minna og minna af plötum,“ segir Páll og brosir við, „og eftir því sem við fórum að gera meira af sýru, steypu og rugli urðu gagnrýnendur, eins og t.d. Dr. Gunni, alltaf ánægðari og ánægðari með okkur. Þegar síðasta platan, Fuzz, kom út, en hún var tilraunakenndasta platan okkar, mesta steypan í gangi, urðu gagnrýnendur mjög hrifnir. Tímamótaverk,“ segir Páll og hlær að öllu saman.““

Lög af þessu merka verki hafa ábyggilega fengið að glymja í Háskólabíói um helgina – og munu ábyggilega gera lengi enn.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: