Barið á bein Heilung fara alla leið með norrænu arfleifðina.

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 27. febrúar, 2021.

Rökkurbundna norðrið heillar

Tónlist frá norðurhveli er einatt tengd við dulúð, myrkur og vetrarstemmur og hefur löngum seitt til sín aðdáendur frá syðri bólum. En er eitthvað til í þessu eða er þetta einskær rómantík?

Þegar ég var í námi í Skotlandi tók ég eftir því að fólk sem var ekki frá Norðurlöndunum sá – og heyrði – tónlistina þaðan í gegnum rósrauð gleraugu. Samnemendur mínir sumir lyftust hreinlega í sætunum þegar þeir spurðu mig í út djasssenuna og fleira. Allt hlaut þetta að vera melankólískt, töfrum slegið, rökkurbundið og ægifagurt. Er það ekki, Arnar? Ekki skemma draumsýnina okkar!

Vinur minn sendi mér grein fyrir stuttu sem birtist í hinu ágæta blaði The Guardian . Útgangspunkturinn er ný plata Wardruna, norsk sveit sem er eins og blautur draumur téðra samnemenda. Fyrstu þrjár plöturnar byggjast þannig á rúnum og aldagamlar norrænar hefðir, trúarbrögð og fleira er undir hennar mælikeri. Gömul hljóðfæri eru nýtt til þess atarna auk geitahorna, kyndla og skinntromma. Tónlistin er þjóðlagakennd að einhverju leyti, drungaleg og með nokkurs konar ættbálkasniði – trommusláttur og hrópandi kór á meðal einkenna. Höfundur Guardian-greinarinnar leggur það til að svona æfingar séu að komast nær meginstraumnum og ég held að hann hafi ýmislegt fyrir sér þar. Velgengni Vikings, en þar sér Einar Selvik, driffjöðrin í Wardruna, m.a. um tónlist, sé m.a. til marks um það. Í greininni eru listamenn eins og Myrkur og Heilung nefndir. Síðarnefnda sveitin er jafnvel ýktari en Wardruna, söngkonan með hreindýrshorn og mannabein og -blóð uppi á sviði. Tónleikarnir líkari þúsund ára gömlum blótum, hvar fólk hummar háværlega í eins lags transi. Spjót og loðfeldir uppi á sviði og maður bíður hreinlega eftir því að loðfíll gangi inn á það. Og fólk elskar þetta – nema hvað!

Blaðamaður The Guardian ýkir þetta allt saman upp, nema hvað, en ég spýtti kaffinu nánast út úr mér þegar Einar tiltekur að hann hafi aldrei lagt sig eftir því að endurskapa tónlist frá fyrri tímum. Hvort hann var farinn úr víkingagallanum eða ekki þegar hann kom með þetta ódauðlega komment veit ég ekki um.

En að gríni slepptu. Kollegi minn kær, Kristinn Schram þjóðfræðingur, tefldi fyrir margt löngu fram hugtakinu „borealism“ („norð urljósahyggja“?), sem tengist hugtaki Edward Said um „orientalism“ („austurlandahyggja“). Hugmyndin tekur yfir þá hneigð þeirra sem standa utan við norrænu löndin til að framleiða þekkingu sem styrkir yfirráð þeirra yfir svæðinu ef svo má segja, í gegnum fræði, menningu og orðræðu. Við erum „hin“, pínu skrítin og skemmtileg.

Þannig myndast ákveðið samband. Gestsaugað er ekki glöggt í þessu tilfelli, það „vill“ sjá og heyra ákveðna hluti. Og í mörgum tilfellum færum við þeim það sem þau vilja. Þetta samband getur verið kauðslegt og skaðandi, t.d. þegar hljómsveitir eru orðnar hálfteiknimyndalegar, stíga inn í ímyndaðan heim fremur en að það sé verið að vinna úr raunheimum (sem eru alltaf aðeins leiðinlegri en þeir skáldlegu). En stundum er þetta náttúrulegra, getum við sagt. Við eigum tónlistarfólk sem hefur unnið tiltölulega beint upp úr arfinum, sjá t.d. Sigur Rós (Hrafnagaldur Óðins) og Þursana þó að Egill og félagar hafi aldrei látið gott leikhús úr höndum sleppa. Svo erum við með tónlistarkonur eins og Sóley og Heklu t.d. sem hafa ímyndarlega unnið með dimm og rökkurskotin minni, leyft melankólíunni norðlægu að taka sér bólfestu á vissan hátt í list sinni. Að ekki sé minnst á Skálmöld, sem býr samt yfir heilnæmum skammti af kímnigáfu gagnvart þessu öllu saman, ólíkt Einari vini okkar.

Ég held að ekkert af þessu eigi eftir að klifra upp Billboard-listann. En þessar vísanir allar eru íbúum á norðurhveli oft furðu tamar. Sjá t.d. aðra plötu Of Monsters And Men, Beneath the Skin , sem ber með sér vel útsettan norrænan rökkurblæ. Hann er þarna. Og engin íslensk plata hefur farið hærra á bandaríska Billboard-listanum. Þannig að kannski er eitthvað í orðum þessa breska kollega míns eftir allt saman.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: