Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 13. janúar, 2018

Bassinn er suður í Borgarfirði

 

Engum nema Stuðmönnum hefði dottið í hug að gefa út svokallaðan Astraltertukubb utan um nýjustu tónsmíðar sínar en venjubundnar slóðir hafa þeir aldrei troðið. Pistilritari veltir kubbnum og þessari eðla sveit fyrir sér.

Stuðmenn eru eins lýsi, rennandi kranavatn, snúður með súkkulaðiglassúr eða hvaðeina íslenskt sem umlykur okkur alla daga og við tökum nánast sem sjálfsögðum hlut – en berum um leið óskerta elsku til. Lög, kvikmyndasenur og frasar eru svo gott sem hluti af DNA-þráðum valinna kynslóða hérlendis. Og Stuðmenn slá ekki slöku við og reglubundið svipta þeir upp tónleikum eða öðrum gjörningum og er þessi alíslenska fyndni þeirra, bæði hnyttin og súrrealísk, jafnan í forgrunni. Það nýjasta er hinn svonefndi Astraltertukubbur sem kom út rétt fyrir jól og er hann í raun réttri ný Stuðmannaplata, heitið vísun í eitt af atriðum hinnar ódauðlegu kvikmyndar sveitarinnar, Með allt á hreinu. Ber hann líka nafn trymbilsins, Ásgeirs Óskarssonar, og er silfraður og ferningslaga, líkt og flasskubbur myndavéla. Inni í kubbnum er að finna aðgangsupplýsingar að vefsíðu hvar hægt er að hala niður ellefu nýjum Stuðmannalögum. Ásamt ýmsu öðru sem aðeins Stuðmenn hefðu getað kokkað upp.

Víst er að liðsmenn hafa skemmt sér konunglega við upptökur laga og leyft sér að sletta ærlega úr klaufunum, tónrænt séð. Farið er víða um völl; stuðlög og ballöður í einum bing. Egill rokkar eins og Sæmi rokk á einum stað, bregður svo á sig sjóhattinum í öðru lagi sem er í djúpum reggígír og Dísa Jakobs, nýjasti Stuðmaðurinn, syngur ægifallega tvö lög, eins og hún á kyn til. Hljóðfæraleikur, hljómur og slíkt er í hæstu hæðum og farið er um velli víða að vanda en það er kannski sammerkt með plötum Stuðmanna að stílaflökt er venjulega mikið, enda sprúðlandi sköpunarkraftur innanborðs sem verður trauðla haminn.

Hugurinn fer á reik þegar hugsað er um þessa mektarsveit, þennan hóp hæfileikamanna. Kubburinn kallar fram „flass“ úr fortíðinni og meistaraverk þeirra frá áttunda áratugnum koma í hugann, tvær plötur sem eru glæsilegur vitnisburður um það er snilldin rennur óheft og óhikað úr fólki. Fyrri platan er auðvitað Sumar á Sýrlandi, af mörgum talin ein besta poppplata Íslandssögunnar en sú síðari er Tivoli, óður sömu sveitar til æskuára og heimahaga. Jú, Stuðmenn geta flippað en ögn alvarlegri undirtónn er þarna líka. Plöturnar tvær eru gjörólíkar; sú fyrri varð nánast til fyrir slysni, var hent saman í hálfgerðu bríaríi úti í Lundúnum og býr yfir einhverjum óræðum töframætti sem enn þann dag í dag kemur manni í opna skjöldu. Tivoli er til muna „fágaðri“ ef svo mætti segja, heilsteyptara verk og temabundið, þar sem meðlimir setja uppvöxt sinn og samfélag undir smásjána, með gamla Tívolíið í Vatnsmýrinni sem sögusvið. Tivoli er það sem kallað er fullkomin poppplata, það er ekki snöggan blett að finna á þeim fjórtán lögum sem hana prýða, eins ólík og þau eru nú innbyrðis.

Eða eins og Tómas Tómasson, Stuðmaður og bassaleikari, sagði með sinni óborganlegu kímni – og vísa ég reyndar í hann í fyrirsögninni einnig –: „Það má vera eitthvað sem er dálítið væld, en samt þannig að snyrtimennskan sé ennþá í fyrirrúmi.“

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: