Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 27. júlí.

Skrímsl, menn og Færeyjafreyjur

G! tónlistarhátíðin var fyrsta útitónleikahátíðin í Færeyjum og hófst hún árið 2002. Hún er fyrir löngu orðin einn af hornsteinum menningarlífs eyjanna og sótti pistilritari hana heim síðustu helgi.

Þokan var mætt eins og samviskusamur starfsmaður. Rigningin líka. Það var ekki að spyrja að því. Ég var lentur í Færeyjum. Og með mér heimsfræg hljómsveit, Of Monsters and Men, sem átti svo eftir að trylla lýðinn í Götusandi á laugardeginum eða leygardeginum svo ég „tosi“ færeysku. Bónus við að ferðast til eyjanna átján er tungumálagrínið sem Íslendingar og Færeyingar njóta og ég sporðrenndi einni tvíflís þessu til heiðurs (samloka).

Rík tengsl mín við eyjarnar hófust um líkt leyti og fyrsta hátíðin var sett í gang. Þá var um að ræða hálfgerða prufukeyrslu en ég tók svo virkan þátt í að aðstoða með hátíðina árið 2003. Skipuleggjendur, á svipuðum aldri og ég, urðu vinir mínir en þær eldsálir mynduðu „Götugengið“ svokallaða, ástríðufullur selskapur fólks frá Austurey sem setti í gang sveitir eins og Clickhaze og Gesti auk þess sem Eivör Pálsdóttir tilheyrir þessum merka byltingarhóp. Gata, Leirvík og Fuglafjörður voru bæirnir sem voru helst undir og virknin hratt af stað tónlistarlegum breytingum í gervöllum eyjunum hvar stöðnuðum viðhorfum til tónlistarsköpunar var komið fyrir kindanef.

G! hátíðin hefur verið öflugur vettvangur fyrir framsækna færeyska tónlist, skilgetið afkvæmi þessara hræringa, um leið og hún hefur verið sem gluggi út í heim en sveitir og listamenn eins og Travis, Meshuggah, Fatboy Slim, Arch Enemy og Kris Kristofferson hafa leikið á henni.

Hátíðin í ár bar þess merki að hún er orðin eins og vel smurð vél. Þarna gengur allt upp. Heimilislegur bragur, innilegheit og gestrisnin rómaða – allt þetta fær vængi á hátíðinni og þú hreinlega andar þessu að þér. Hátíðin er þá altæk. Það er tónlist en síðan miklu miklu meira. Hún fer fram í Syðri-Götu sem inniber algerlega einstakt bæjarstæði, minnir meira á portúgalskt þorp en norrænt byggðarlag. Á hátíðinni er haft ofan af fyrir börnum, matur seldur og klæði, vinir tjalda utan við hátíðarsvæðið o.s.frv. Upplestrar, fyrirlestrar og heitir pottar.

Tónlistardagskráin í ár var að vanda vel samsett og tillit tekið til flestra geira og kynslóða. Stærsta nafnið var áðurnefnd Of Monsters and Men og þau lokuðu hátíðinni með eftirtektarverðum bravúr. Voru í stuði, stutt í bros og hlátur og Sandurinn, aðalsviðið, vel með á nótunum. Heimafólk eins og Eivör, Elínborg, Enekk og Knút áttu mjög góð innslög og svo voru jaðarbundnari atriði eins og Omar Souleyman. Teknóplötusnúðar á nóttunni o.s.frv. Gróa, hin íslenska, jafnbesta tónleikasveit sem við eigum, hristi þá hressilega upp í systrum okkar og bræðrum.

Pallborð voru þá sett upp meðfram hefðbundinni dagskrá. Eitt þeirra tók á mismunun á konum í tónlist, með sérstakan fókus á færeyskar tónlistarkonur, og mér var einnig boðið að ræða um þær breytingar sem hafa orðið á færeyskri popptónlist undanfarin tuttugu ár eða svo. Ræddi ég þar við Jón Tyril, stofnanda hátíðarinnar, og Knút Háberg Eysturstein, einn helsta tónlistarfræðing eyjanna.

Ég bý síðan svo vel að geta farið „aftur fyrir pallinn“ og notið hversdagstöfra samfélagsins. Ég var lítið að fylgja dagskrá en leiddist hins vegar á milli vina og allur sunnudagurinn fór þannig í skerpukjötsát, kaffidrykkju og spjall.

Færeyjasóttin smýgur um merg mér og bein og lækning er ólíkleg, reyndar útilokuð. Er það vel.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: