Fjölkynngi Bryan Adams á nóg af dýrgripum í lagakistunni sinni. — Ljósmynd/Mummi Lú.

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 24. apríl.

Beint frá hjartanu

Kanadíski rokkarinn Bryan Adams lék við hvurn sinn fingur í Eldborg í fyrrakvöld, þegar seinni tónleikar af tvennum fóru fram. Húsfyllir var í bæði skiptin og stemningin eftir því.

Ég ákvað að koma „kaldur“ inn á tónleikana, fletti ekki upp lagaskrá sem svo auðveldlega er hægt að gera í dag og ekki renndi ég plötum undir hatti Bare Bones-konseptsins en tvær plötur, frá 2010 og 2013, innihalda strípaðar útgáfur af lögum Adams. Nei, ég ákvað að taka þetta inn eins og það kæmi af kanadísku kúnni takk fyrir.

Adams gekk sposkur inn á sviðið hægra megin frá með pípuhatt sem undirstingur Bare Bone-merkið. Píanó var á sviðinu, sem varð síðar mannað af Gary nokkrum Breit sem hefur starfað með Adams í rúm tuttugu ár. Annars var það bara rödd, gítar og munnharpa. Strípuð framsetning á lagabálki Adams, farið í kjarnann, beinagrindur nokkurra þekktustu popplaga síðustu áratuga og það bókstaflega. Adams hentist óforvarandis í „Run To You“, fyrstu smáskífu Reckless (1984), platan sem kom Adams á kortið og gerði hann heimsfrægan. Frábært lag og aldrei of oft spilað. Næst var „Let’s Make a Night To Remember“ af 18 Til I Die (1996), lag sem ég þekkti vart (ef þá það) og ekki beint úr efstu hillu. Þannig rúllaði fyrri hluti kvölds, óþekktari lög í bland við þekkt. Menn að tjakka sig upp, á meðan síðari hluti tónleikanna var bústnari, mannskapur á sviði sem og í sal þá farinn að hitna. Og stemningin eftir því. Bryan Adams kann að stýra kvöldi, fagmaður fram í fingurgóma, og kvöldið var ljúft, innilegt og skemmtilegt. Mikið hlegið og fíflast og Adams tók á köflum hálfgildings köst á bak við hljóðnemann, þurfti að beygja frá honum sökum hláturrokna. Ég var ekki alveg að gera mér grein fyrir hversu marga stórslagara Adams á. „It‘s Only Love“, dúett hans með Tinu Turner (af Reckless) var m.a. viðraður í fyrri hlutanum og honum lokað með „(Everything I Do) I Do It for You“. Þessi lög, þessar lummur jafnvel, öðlast annars konar líf í svona meðförum og það má vel segja að svona tiltæki sé áhætta. Lagasmíðar Adams eru ekki flóknar, þetta er þriggja gripa rokk, og þarna heyrði fólk þennan einfaldleika, sá í gegn ef svo mætti segja. Skynjaði galdur popplistarinnar, hvernig hægt er að tróna á toppi allra vinsældalista heims með því að kunna að setja þessa örfáu hljóma hugvitssamlega saman. Og í vissum tilfellum varð manni ljóst að það er ekki hægt að fela miður góð lög með útsetningum og upptökubrellum.

Bryan Adams er rokkari í grunninn. Og rosarómantíker, það er ekki hægt að lýsa því öðruvísi. Textar hans eru einfaldir, flestallir um elskendur, og þegar best tekst til nær hann til okkar allra, einmitt vegna flækjuleysisins. Fyrri hlutinn var dálítið „djúpt skorinn“, lítt þekkt lög eins og „Here I Am“ úr kvikmyndinni Spirit: Stallion of the Cimarron (fínasta stemma), lag sem hann skrifaði fyrir Börbru Streisand, „I Finally Found Someone“ (ekki merkilegt) og „You Belong To Me“ af nýlegri plötu, Get Up (2015. Þokkalegt rokkabillítrukk).

Það var síðan eins og Adams væri að kveðja eftir eina klukkustund en þá var helmingurinn eftir. Og nú var seilst í langefstu hilluna. „Cuts Like A Knife“; „Somebody“, „Have You Ever Really Loved a Woman?“ Adams nánast henti í „Summer of ‘69“ og það er nú gott lag. Ja hérna. Textinn svo angurvær, fortíðarþráin yfirþyrmandi, bestu dagar lífs okkar að eilífu glataðir. Stórkostleg smíð. Og svo var það „Heaven“. Ekki bara besta lag Bryan Adams heldur besta lag allra tíma. Ég hágrét. Hefur ástin einhvern tíma verið orðuð jafn skýrt og fallega?

Ég var farinn að halda að okkar maður ætlaði aldrei að fara. Hann naut sín. Lauk leik með örstuttri, snaggaralegri útgáfu af „All For Love“, með grallarablik í auga, líkt og hann væri fullmeðvitaður um „umdeilda“ stöðu lagsins svo ég orði það fínlega.

Gefandi tvær stundir þar sem rétt tæplega þrjátíu lög voru leikin. Ég gekk léttur út í vísi að miðnætursól. „Sumarið ‘25“ er enda handan við hornið …

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: