Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 17. ágúst.

„Ég er mjög góð í þessu“

  • Goðsögnin Rickie Lee Jones heldur tónleika í Hörpu 1. september
  • Margverðlaunuð og plötusala í milljónum eintaka
  • Á nýjustu plötu sinni túlkar hún sígild lög úr amerísku söngbókinni

Þessi magnaða og mjög svo áhrifaríka tónlistarkona sló í gegn í Bandaríkjunum með samnefndri plötu sinni árið 1979 (og hætti sama ár með kærastanum, Tom Waits). Upphafslagið, „Chuck E’s in Love“ varð einkar vinsælt og bara umslagið á breiðskífunni andar krafti valdefldrar helsvalrar konu sem er með munninn rækilega fyrir neðan nefið. Á næstu plötu, Pirates (1981), sýndi Jones enda fram á að ekki yrði tjaldað til einnar nætur og fólk fengi heldur aldrei það sem það vildi. Ferill hennar hefur verið ansi litríkur allar götur síðan hvar aldrei er staldrað við í einum stíl. Jones blandar fumlaust saman alþýðutónlist, djassi og poppi en hefur auk þess lagt sig eftir sálmatónlist, tripp-hoppi og hverju því sem hreyfir við hjarta hennar á hverjum tíma. Hún er þá margverðlaunuð listakona, hefur verið tilnefnd til átta Grammy-verðlauna, unnið þau tvisvar og plötur hennar hafa selst í milljónum eintaka um heim allan. Um þessar mundir er hún svo að túra nýjasta verk sitt, Pieces of Treasure, þar sem hún flytur lög úr amerísku söngbókinni. Þá plötu vann hún með Russ Titelman sem hljóðritaði fyrstu tvær plötur hennar (og titillinn er lúmsk vísun í sjóræningjaplötuna).

Saga Jones verður kvikmynd
Í árdaga tók ég endalaus símaviðtöl en nú fær maður hljóð – og mynd! Nútíminn krakkar, ég skal segja ykkur það. Við Rickie hittumst semsagt á Zoom-forritinu góða, ég í Reykjavík en hún í Los Angeles. Á móti mér tekur glaðbeitt, brosandi kona. Alúðleg. Rauður veggur í bakgrunni, skrautmunir uppi, smá mexíkósk stemning. Hlýja. Ekki beint töffarinn sem er framan á fyrstu breiðskífunni. Og þó. Í spjalli nam ég nefnilega mýkt sem næmni en um leið styrk sem staffírugheit. Við erum sjaldnast eintóna, manneskjurnar. Og viðtalið var vel heppnað. Auðvelt er orðið sem ég myndi nota. Hún spyr mig að nafni, ég segi henni það og biðst um leið afsökunar á álaginu sem fylgir því að rúlla r-unum. Hún hlær við og segir mér frá því að það eina sem hún viti um Ísland í raun sé að við köllum okkur eftir mæðrum okkar og feðrum, upplýsingar sem hún hafi fengið frá ítölskum tónlistarmönnum í Feneyjum árið 1975 en þeir hafi þá verið nýkomnir frá Íslandi eftir tónleika hér. „Einmitt,“ segi ég. „Rickie Lee Jonesdóttir.“ Hún kímir. Og ég, með skeggið mitt og háskólagráðuna, get ekki annað en hlaðið í mínútu örfyrirlestur um að þessi regla hafi í eina tíð náð yfir öll Norðurlöndin. Hún kinkar kurteislega kolli enda bunaði ég þessu út úr mér í stressi fyrst og fremst. En ég hef rænu á því að óska henni til hamingju með nýju plötuna. Hún dvelur ekki við hana hins vegar – í bili – en segir mér hins vegar frá bókinni sinni, Last Chance Texaco: Chronicles of an American Troubadour (2021) sem fékk lofsamlega dóma og situr Jones nú við handritsskrif en sögunni er stefnt á hvíta tjaldið. „Ég er þegar tónlistarkona,“ segir hún útskýrandi og gefur karlmanninum örfyrirlestur. „Fólk las bókina sem endurminningar tónlistarkonu en hún er það í raun ekki. Þetta er bara ótrúleg, amerísk saga.“ Þessu lýsir hún yfir án þess að blikna. Ég fíla það. „Það er gefandi að vera tónlistarkona, ljóðskáld, rithöfundur,“ heldur hún áfram. „En það er líka fullt af öðru í gangi meðfram því öllu saman.“

Innilegar, andegar plötur
Jones brosir þegar ég segi henni frá því að hún virðist ekki mikið fyrir það að verða við óskum fjöldans um hvað prýða skuli plöturnar hennar. „Já,“ segir hún, nánast feimnislega. „En það er ekki beint viljandi gert. Ég hef einfaldlega ekki áhuga á því að endurtaka mig.“ Ég spyr hana þá að því hvort það sé ekki freistandi að gera það samt, sérstaklega ef síðasta verk var vel lukkað? „Sumir listamenn ástunda þetta og ég er viss um að aðdáendur þeirra heyri skýran mun á öllum þeirra verkum. Hér skiptir mestu hvað það er sem gerir þig, sem listamann, hamingjusaman. Hverju viltu miðla? Hvað viltu gera?“ Jones hefur alltaf unnið með stóra tónlistarpallettu, er læs á ótal stíla og afbrigði þeirra. Og núna síðast opnaði hún amerísku söngbókina, eitthvað sem margir listamenn hafa gert í gegnum tíðina, veri það Rod Stewart eður Bob Dylan. En hver er nálgun Jones? „Ég byrjaði mjög snemma að túlka þessi lög,“ segir hún. „Áður en fyrsta platan kom út hafði ég verið að syngja djass á klúbbum og ég átti auðvelt með að renna mér í þennan arf (talar mikið með höndunum núna). En það var ekkert sérstaklega vel séð á þessum tíma, þannig lagað, að vera að dufla við tökulög. En sem söngkona, þá langar mig til að syngja allt. Hvort sem það er Hank Williams eða Cypress Hill. Gott lag er gott lag.“ Nú hrósa ég henni sérstaklega fyrir plöturnar The Sermon on Exposition Boulevard (2007) og Balm in Gilead (2009), plötur sem eru hvor á sinn hátt, innilegar og andlegar. Sálmabók Rickie eiginlega. Jones kippist örlítið við þegar þessu lofi er ausið og kann greinilega að meta það. Enda plötur sem eru „hálftýndar.“ Ég held áfram að lýsa kostum þeirra og Jones brosir út að eyrum. „Ég brosi svona mikið af því að ég var að hlusta á Balm in Gilead bara í gær,“ segir hún og er sýnilega komin á góðan stað. „Ég var að hlusta á „His Jeweled Floor“ sem er nákvæmlega eins og þú lýsir. Róandi, himneskt einhvern veginn. Ég var blásnauð þegar ég bjó til þessa plötu og var í vanlíðan. Það var erfitt í L.A. á þessum tíma og kannski einmitt þess vegna er hún svona. Róleg, upplyftandi, leið út kannski? En vanlíðanin olli því að ég hlustaði ekkert á plötuna eftir að hún var klár. Það er rétt undanfarið sem ég hef verið að fara inn í hana og þetta er rétt. Hún er falleg. Og fyndið að þú skulir einmitt minnast á hana [ljúflingsbros].“

Hvað er svo fram undan?
„Það er aldrei hægt að giska á hvað þú gerir næst Rickie,“ segi ég léttur og hún samþykkir. „Nei, einmitt. Það væri nú skrambi leiðinlegt ef svo væri.“ Ég nefni það við hana að maður snúi sér að AC/DC upp á slíkt öryggi og hún hlær. En það er virðing í hlátrinum. „Og guð blessi þá!“ segir hún kersknislega og hækkar róminn. Ég er orðinn lítill strákur, aðdáandi, og nýti mér færið. „Ég elska líka hvernig þú syngur „O Holy Night“ með Chieftains á Bells of Dublin (1991) plötunni!,“ hrekkur upp úr mér og Jones er hissa … og þakklát. „Í alvöru!“ segir hún. „Ó, en fallega sagt. Ég var svo hrædd þegar ég var að syngja það. Ég hafði ekki sungið lengi og ég söng lagið dálítið til baka. Viðkvæmnislega. Ég var enn að byggja upp sjálfstraust [Jones var meira og minna frá störfum á árabilinu 1984 – 1989].“ Jones er á tónleikaferðalagi um heiminn núna og eitthvað af nýju plötunni verður spilað auk ýmissa laga frá löngum og gifturíkum ferli. Mörg járn eru þá í eldinum. „Ég er að skrifa handritið af kappi og það ferli hefur sýnt mér mikið því að ég er mjög góð í þessu. Nú er ég að nálgast sjötugt og þá hugsar maður um röddina og slíkt og mér finnst gott að finna að ég á frekar auðvelt með að skrifa. Vonandi get ég gert meira af því – í viðbót við að drösla ferðatöskunni heimshorna á milli og finna ódýr mótel [hlær púkalega].“

Miða á tónleikana má nálgast á tix.is

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: