son of albert

Jæja, þá lagðist ég loks til atlögu við þessa plötu. Á hana rakst maður tíðum í plötubúðum á Íslandi í kringum útsölurnar, jafnan merkt 99 kr. límmiða. Ég hef, einhverra hluta vegna, hugsað til hennar reglubundið og ég vildi að ég hefði djúpsálfræðilegar skýringar á því af hverju svo er.

Umslagið var, man ég, þægilegt viðkomu. Matt og hrjúft og já, “artí”. Titillinn er í sama gír og alvarleg myndin tengir inn á þetta menntapopp sem var móðins c.a. ’85 – ’90. Peter Gabriel ára yfir. Ég ímyndaði mér því alltaf að tónlistin væri á þeim nótum. Höfugt, spekingslegt og ambient-legið gáfumannapopp a la sólóplatan hans Robbie Robertson, og Daniel Lanois við takkaborðið. Það er líkast til þessi grunur, að poppblaðra eins og Ridgeley væri í tónlistarlegri djúpsjávarköfun, sem hefur haldið þessum áhuga við öll þessi ár. Gæti það verið að eitthvað væri spunnið í plötuna? Falinn fjársjóður? Eða hláleg meðhöndlun á þessu poppformi sem fengi mann til að kíma rækilega? Allt saman spennandi … en það sem síðan kom úr hátölurunum, maður lifandi…

Tónlistin er gerilsneytt, andvana fætt, hárþungarokk! Eins og David Lee Roth á mjög slæmum degi. Hljómurinn kuldalegur, fráhrindandi og allur úr lagi einhvern veginn. Hrein hörmung. Ég hefði reyndar átt að hafa vit á því að renna í gegnum lagatitlana: “Flame”, “Big Machine”, “The Price of Love”. Ég hlustaði á þrjú lög og hætti svo … ég ætla ekki “inn” aftur. Kvartaldarleyndardómi hefur loks verið upplokið. Hvað gerir maður ekki fyrir fræðin. Sjííííí…

Ridgeley hefur það annars fínt í Cornwall með eiginkonu (fyrrum Banarama), fer á brimbretti og golfar. Og virðist sama um þennan myllustein … en nálægt tónlist hefur hann þó ekki komið síðan.

Tagged with: