arctic monkeys

[Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 7. september, 2013]

Martraðir í morgunskímunni

• Sheffield-sveitin Arctic Monkeys gefur út fimmtu plötu sína, AM
• Gríðarmikill upptaktur og spenna fyrir gripnum hér í Bretlandi

Alex Turner, jafn inn í sig og hann oft virðist vera, er talsmaður heillar kynslóðar hér í Bretlandi. Þessi leiðtogi rokksveitarinnar Arctic Monkeys er nokkurs konar Paul Weller síns fólks, kynslóðarinnar sem er fædd á bilinu ’85-’90 (stundum er talað er um Y-kynslóðina í þessu samhengi). Fyrstu tvær plötur sveitarinnar, Whatever People Say I Am, That’s What I’m Not (2006) og Favourite Worst Nightmare (2007) skullu líkt og höggbylgjur á bresku tónlistarlífi á sínum tíma og ungæðisleg orka sveitarinnar og frábærlega melódískar lagasmíðar Turners rifu giska staðnað gítarrokk í gang á nýjan leik en tilfinnanlegt tómarúm hafði myndast eftir að The Libertines lognuðust út af í takt við hnignun annars lykilmannsins þar, Pete Doherty. Tvær plötur komu svo í kjölfar þeirra sem nefndar hafa verið (Humbug, 2009 og Suck it and See, 2011) þar sem í báðum tilfellum var reynt að setja smá snúning á apaformúluna sem þróuð var á fyrstu tveimur plötunum. Bretinn hefur kokgleypt þetta allt saman og þar í landi eru Turner og félagar miklar hetjur. Skemmst frá að segja hafa menn og konur því beðið eftir nýjasta skammtinum í ofvæni og viðtöl, auglýsingar og opnudómar prýða flest blöðin hérna. Og flestir eru dómarnir einkar jákvæðir…

Úr borg stálsins í borg englanna

…og rætt er um að Turner hafi enn og aftur tekist að snara út sannfærandi, heilsteyptu verki. Platan sé nokkuð myrk, í raun nokkurs konar hugleiðing um það brothætta ástand sem mannskepnan er í þegar hún er örþreytt og útspýtt, vakandi að næturlagi og fram á morgun. „Svöl og sexí, eftir miðnætti plata,“ sagði Josh Homme um plötuna á tónleikum með Queens of the Stone Age í Tékklandi í sumar en Homme stýrði upptökum á Humbug og í framhaldinu tókst vinskapur mikill með honum og Turner. Arctic Monkeys-leiðtoginn söng t.d. inn á síðustu QOTSA-plötu og sama gerir Homme á AM. Þá er Turner fluttur til Los Angeles, býr þar með bandarísku leikkonunni Arielle Vandenberg og hann og Homme fara stundum á þeysireið saman á vélhjólunum sínum. Við erum komin ansi langt frá Sheffield, það er næsta víst.

Innviðir amerískir

AM var annars tekin upp í Ameríkunni, í L.A. og í hljóðverinu Rancho de la Luna sem er rétt utan við þorpið Joshua Tree í Mojave-eyðimörkinni. Það var James Ford, samstarfsmaður Turners og sveitarinnar um árabil, sem hafði yfirumsjón með upptökunum. Ameríka hefur á síðustu árum sokkið hægt og bítandi inn í tónmál sveitarinnar og Turner talar sjálfur um Dr. Dre og Outkast í tengslum við plötuna (en einnig um Ike Turner og Aaliyuh). Áhrif frá hipp-hoppi, gömlu r og b og sálartónlist flækjast enda um plötuna, smjúga um tónrásirnar og leggja plötunni til óræðan, gamaldags sjarma jafnvel. Yfir henni er þó skuggi eins og áður segir en eiginlega meira svona mjúkur, þægilegur „búinn að vera vakandi alltof lengi“ blær. Skildi einhver þessa setningu?
Forvitnir geta alltént smellt sér á eintak strax eftir helgi auk þess sem sveitin er á umfangsmiklu tónleikaferðalagi í þessum skrifuðu orðum.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: