Að gefnu tilefni. Vesgú! Og fyrir alla muni … ræðið!

1. Icy – Gleðibankinn (Ísland, 1986, 16. sæti)

Það er mér enn óskiljanleg ráðgáta af hverju Evrópa kveikti ekki á þessu stórkostlega lagi Magnúsar Eiríkssonar.

2. ABBA – Waterloo (Svíþjóð, 1974, 1. sæti)

Meitluð poppsnilld og alltaf jafnáhrifaríkt þegar maður heyrir það. Aðeins Bítlarnir standa ABBA framar í þessum fræðum.

3. Johnny Logan – Hold Me Now (Írland, 1987, 1. sæti)

Líklega fallegasta lag í heimi. Og ekki var framlag hans árið 1980, „What’s Another Year“, síðra, en þá sigraði Logan einnig!

4. France Gall – Poupee De Cire, Poupee De Son (Lúxemborg, 1965, 1. sæti)

Samið af sjálfum Serge Gainsbourg. Melódískt, töff – frábært og frumlegt popp á franska vísu.

5. Bucks Fizz – Making Your Mind Up (Bretland, 1981, 1. sæti)

Evróvisjón snýst um að hafa „veika“ bletti. Að hafa smekk fyrir hinu ósmekklega og geta ekkert að því gert. Dálítið aulalegt lag en á einhvern undarlegan hátt algerlega frábært.

6. Datner and Kushnir – Shir Habatlanim (Ísrael, 1987, 8. sæti)

Hvernig er hægt að gleyma þessum óborganlegu æringjum sem settu skemmtilegan snúning á keppnina með þessu galgopalega lagi. Allir saman nú: „Hupa Hule Hule Hule…“

7. Wig Wam – In My Dreams (Noregur, 2005, 9. sæti)

„Come’on!!! Come’on!!! Come’on!!!“ Þarf ég að segja meira?

8. Paul Harrington og Charlie McGettigan – Rock’N’Roll Kids (Írland, 1994, 1. sæti)

Sagan segir að Írar hafi reynt að tapa keppninni með þessu lagi, enda landið orðið nær gjaldþrota eftir að hafa unnið keppnina tvö ár í röð. En allt kom fyrir ekki. Ég skil samt ekki af hverju mér finnst þetta gott lag.

9. Botnleðja – EuroVisa (Ísland, 2003, komst ekki í aðalkeppnina)

Ef þetta lag hefði farið áfram hefði blað verið brotið í sögu keppninnar. Djö… hefði það verið kúl.

10. Kari – Paiva Kahden Ihmisen (Finnland, 1986, 15. sæti)

Ég hef aldrei getað náð viðlaginu úr hausnum síðan þetta lag var frumflutt. Það dúkkar upp á u.þ.b. mánaðarfresti.