beatles bbc 6

 

[Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 16. nóvember, 2013]

Bítl í viðtækjunum

• Tvöföld plata með upptökum sem Bítlarnir gerðu fyrir BBC komin út
• Um er að ræða skammt tvö, en sá fyrri kom út fyrir nítján árum síðan

Það var árið 1994 sem Live at the BBC kom út en plata sú inniheldur lög sem Bítlarnir tóku upp fyrir ýmsa útvarpsþætti breska ríkisútvarpsins árin 1963-1965. Forfallnir Bítlaaðdáendur (sem eru skuggalega margir, sá er ritar einn þeirra) tóku þessu fagnandi og skemmtileg viðbót við plötuna voru gáskafull viðtalsbrot þar sem Bítlarnir fóru á kostum eins og alltaf á þessum sokkabandsárum.

Jólasokkar

Platan sem er til umfjöllunar hér, On Air – Live at the BBC Volume 2, er beint framhald af þeirri plötu, 39 lög með 24 viðtalsbrotum. Þó að nú liggi fyrir alls fjórir stútfullir geisladiskar af þessu efni eru hirslur BBC langt í frá tæmdar. Lögin sem er að finna á plötunum eru þessi þekktustu tökulög Bítlanna í bland við frumsamin lög þannig að þeir sem vilja heyra nýjar smíðar eða óþekkjanlegar útgáfur af þekktum lögum grípa í tómt. En slíkt er aðdráttarafl Bítlanna að allt útlit er fyrir að platan rati í ófáa jólasokkana, ef marka ber umfang fjölmiðlaumfjöllunar og stöðu plötunnar nú á sölulistum helstu vefverslana. Stephen Thomas Erlewine, ritstjóri allmusic.com, lýsti því yfir á fésbókarsetri sínu að hann „tæki fegins hendi við öllu því sem að honum væri rétt“ hvað þessu viðkemur og mælir hann þar fyrir munn margra. Téður Erlewine er búinn að rita dóm um gripinn og nefnir að frumsamin lög séu fleiri en síðast, á kostnað tökulaganna. Harmar hann það, segir að skemmtilegra sé að heyra hversu frábærir túlkendur Bítlarnir voru á þessum árum fremur en að upplifa tiltölulega hrein rennsli í gegnum sjálf Bítlalögin. Mig grunar að einhverjir kunni að vera ósammála þessu; þó að snerilhljómurinn í „I Feel Fine“ sé með aðeins öðruvísi blæ en á opinberu útgáfunni gefur það engu að síður tilefni til langra og ítarlegra umræðna fram á rauðanótt – trúið mér, ég tek reglulega þátt í svona rökræðum og fæ aldrei nóg!

Geðheilsa

Á hvorum disk fyrir sig eru svo lengri viðtöl við hvern og einn Bítil, tekin árin ’65 og ’66. Gagnrýnendur hafa bent á hversu mikill munur er á þessum viðtölum og þeim sem voru tekin aðeins tveimur árum fyrr. Galgopahátturinn endalausi hefur vikið fyrir djúpþenkjandi ungum mönnum, þeir voru í raun réttri orðnir hoknir af reynslu á undraskjótum tíma og menn eru enn að melta það hvernig meðlimir sluppu tiltölulega óskaddaðir á geði frá þessu ótrúlega tímabili („tiltölulega“ er lykilorðið hér).
Útgáfurisinn Universal á nú Bítlalögin, sem höfðu áður verið í eigu EMI. Apple hefur þó enn lokaorðið í öllu sem viðkemur Bítli sem útskýrir natnina í allri útgáfunni og líka af hverju það er ekki hreinlega meira af henni. Einhverjir myndu nýta sér þessi gullegg og gefa út alls kyns safnplötur og dótarí þar sem – sorglegt en satt – allt yrði þetta keypt í tonnatali. Apple heldur því venjulega að sér höndum en engu að síður er því spáð að þriðja skammti af viðlíka efni verði snarað út, fyrr eða síðar. Ekki bíða samt í tuttugu ár. Ég er að verða jafngamall – og jafngeðveikur – og þessir gömlu Bítlakallar sem ég hló að þegar ég var ungur og vitlaus(ari).

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: