black sabbath

 

[Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 8. júní, 2013]

Og þá urðu þeir þrír

 

• Black Sabbath gefur út nýja hljóðversplötu og kallast hún 13
• Heil 35 ár síðan Ozzy Osbourne var með á slíkri skífu

Saga Black Sabbath – sem er líklega mikilvægasta þungarokkssveit sögunnar – hefur verið vörðuð veseni og vitleysu um langa hríð. Fyrstu fjórar plötur sveitarinnar; Black Sabbath (1970), Paranoid (1970), Master of Reality (1971) og Vol. 4 (1972) lögðu grunn að nýrri rokkstefnu, þungarokkinu, sem hefur reynst ein skrautlegasta, frjóasta og virkasta undirstefna formsins. Þyngri angar þungarokksins ef ég má orða það svo, stefnur eins og svartþungarokk, „grind-core“, dauðarokk o.s.frv. rekja þá sitt DNA þráðbeint til þessara fjögurra verka. Eftir því sem leið á áratuginn fór að hrikta í stoðum sveitarinnar, einkanlega vegna svalls og var Ozzy Osbourne söngvari þar í broddi fylkingar. Fór svo að hann var rekinn úr sveitinni (eftir hina armæðulegu Never Say Die!, 1978) og skömmu síðar gangsetti hann farsælan sólóferil. Black Sabbath hélt hins vegar áfram með hinum og þessum liðsmönnum þó gítarleikarinn Tony Iommi væri ávallt í stafni.

Töfralækningar

Aðdáendur hafa hins vegar látið sig dreyma – allt síðan Osbourne tók brennivínsleginn staf sinn og mal fyrir 35 árum – um að upprunalega liðsskipanin myndi hræra í plötu. Sú vinna hófst reyndar fyrir tólf árum, árið 2001, þegar þeir Iommi, Osbourne, bassaleikarinn og textasmiðurinn Geezer Butler og trymbilinn Bill Ward komu saman í hljóðveri í þeirri ætlun að setja saman plötu.
Upptökustjóri þá var töfralæknirinn Rick Rubin, sá hinn sami og landaði þessari nýju plötu, en þessar frumupptökur runnu hins vegar út í sandinn, m.a. vegna skuldbindinga sem Osbourne hafði stofnað til vegna sólóplötu. Þráðurinn var svo tekinn upp á nýjan leik í hitteðfyrra þegar bandið kom saman til að halda hljómleika. En fátt er svo með öllu gott að ei boði illt, svo ég leyfi mér nettan útúrsnúning! Bill Ward sagði sig snemma frá upptökum og spiliríi vegna ósættis við gerða samninga, eða ógerða samninga öllu heldur, og Iommi var greindur með krabbamein snemma í ferlinu. Trommari Rage Against The Machine, Brad Wilk, var lóðsaður inn í stað Ward og Rubin keyrði mál áfram óhikað.

Drulla

Platan er átta laga og löng, mörg laganna í kringum 7 eða 8 mínútur.
Þegar gullaldarlið kemur saman aftur (sem var svo ekki reyndin því miður vegna Ward) er krafan um að gömlu góðu dagarnir verði endurskapaðir skýlaus. Og af viðtölum að dæma er það og yfirlýstur tilgangur verksins. Rubin, sem er sérfræðingur í að dýrka upp kjarna listamanna og hljómsveita (eins og í tilfelli Johnny Cash og Metallica) lét meðlimi spila saman og „djamma“ og bað þá um að ímynda sér að þeir væru komnir aftur til ársins 1970. Ekki voru þeir á eitt sáttir með þessa tilburði Rubin, Iommi sagði að lengi vel hefði verið gjá á milli bands og upptökustjóra, en Osbourne hrósaði hinum síðskeggjaða í bak og fyrir. „Aldrei verið betri!“ segja einhverjir dómarar, en aðrir eru tortryggnari. Ég ætla ekki að fella neina dóma um verkið í þessari kynningargrein. Lagið „God is Dead?“ flögrar nú um netheima, ný lög má nema í gegnum tónleikaupptökur einnig og platan streymir nú um iTunes-síðuna. En vesenið og vitleysan eru á fullri fart sem fyrr, eitthvað sem skyggir stundum (oftast?) á sjálfa tónlistina hjá þessum blessuðu mönnum. Nú síðast drullaði (það er ekkert annað orð yfir það) Ozzy yfir sinn gamla vin Bill Ward í Mojo og ég á erfitt með að sjá að Ward fyrirgefi svo auðveldlega. Trúðslætin eru semsagt á sínum stað en hvort tónlistin er gildandi, tja, það kemur í ljós um helgina væntanlega…

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: