Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 9. september, 2017

Segir ekki margt…

 

Alvia Islandia átti eina af eftirminnilegri plötum síðasta árs, Bubblegum Bitch. Hún fylgir henni fljótt eftir, en Elegant Hoe, átta laga skífa, kom út í júlí síðastliðnum.

Nýja platan viðheldur meira og minna þeim hljóðheimi sem skapaður var á síðustu plötu. Draugalegt, dulmagnað flæði; letilegir taktar og nett sýrðar hljóðmottur undir. Ef eitthvað er, þá er búið að rúnna þetta aðeins til og hefla, verkið heilsteyptara en frumburðurinn.

Fleyinu stýrir svo Alvia Islandia; hún rappar yfir á kynþokkafullan, hvíslandi hátt, er ertandi og stríðandi en um leið gamansöm og flippuð. Hún þræðir þetta einstigi glæsilega og viðheldur – sem fyrr – mjög svo forvitnilegum karakter. „Landi í kókó“ segir ýmislegt um þessa plötu. Lagið rúllar áfram á endurtekningarsaman hátt og Alvia endurtekur í sífellu línur um landa í kókómjólk og að hún sé að „lickin‘ sun lolly“. Röddin er á sama tíma, barnaleg og lokkandi. Það er eitthvað súrrealískt við þetta allt saman, ég kallaði hana „vondu systur Steinunnar Eldflaugar“ á dögunum, viðlíking sem er hin ágætasta. Það var líka gaman að sjá hana nefna Björk og Niki Minaj sem áhrifavalda á dögunum, það setur það sem hún er að gera í skiljanlegra ljós.

Textar eru ýmist á ensku og íslensku, oft í einu og sama laginu. Dásamlegt skeyti í raun um stöðu tungumálsins á þessu landi í dag, þar sem þessi mál blandast æ meir í daglegri notkun. Alvia talar efalaust á þann hátt, eins og við flest, en hún er glúrnari en svo og notar þessa staðreynd í sköpunina („Ég er flæktari en cassette“ sagði hún svo eftirminnilega á Bubblegum Bitch).

Alvia Islandia hefur eitthvað alveg sérstakt við sig og er algerlega í eigin heimi. Hún er líka svo megasvöl að það hálfa væri nóg. Með ímyndina vinnur hún á næman og natinn hátt, alveg eins og fyrirmyndirnar sem hún nefnir. Alvia Islandia er karakter (listamaðurinn heitir Andrea Rán Jóhannsdóttir) og hann er spilaður upp í topp, með öll þau húbbabúbba og sleikjóa sem því fylgja. En um leið eru mörkin á milli Alviu og Andreu óljós.

Nú liggja fyrir tvær plötur með þessum undursamlega hljóðheimi Alviu og ég velti því fyrir mér hvort tími sé til að taka þetta á næsta stig. Gera bústnari plötu, leggjast í alvöru dreifingu, stíma á yfirborðið – og jafnvel til útlanda. Eða hvað? Dettur sjarminn niður þegar kíkt er út fyrir svefnherbergið? Kannski. Kannski ekki. Ég vona svo innilega að litlar Alviur séu að hlusta, fylgjast með og safna í sig kjarki og innblæstri. Þetta er allt saman til hreinnar fyrirmyndar og í bransa sem er 90% skipaður piltum þurfum við fleiri kvenraddir. Það eykur fjölbreytnina, gleðina og víkkar þetta allt saman út.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: