Rokkarar Gadus morhua hafa nef fyrir skapandi framsetningu á sínu efni.

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 10. apríl, 2021.

Djöflast í forminu

Peysur & parruk er plata eftir Gadus Morhua Ensemble, hvar íslensk þjóðlagatónlist er toguð eilítið og teygð. Hér er rýnt í plötuna sem slíka auk þess sem staða íslenskrar þjóðlagatónlistar er gerð að umtalsefni.

Ég hef oft lýst eftir meiri íslenskri þjóðlagatónlist í pistlum mínum. Mér hefur oft fundist skorta á þá ástundun, sérstaklega eftir að hafa búið í Skotlandi hvar þarlend þjóðlagatónlist er þrædd nokkuð kirfilega inn í þjóðarsálina. Hún er sjálfsagður hluti af daglegu lífi, hvort heldur í hefðbundnu formi eða framsæknu. Hliðstætt dæmi væru Færeyjar. Mér finnst minna um þetta hérlendis, eins og sú hugsun liggi dálítið djúpt hjá okkur að slíkar æfingar eigi helst heima á helgarviðburðum í Norræna húsinu eða Þjóðminjasafninu hvar eldra fólk sem talar um altan og skammel er mætt. Íslenskar þjóðlagaplötur koma vissulega út, ég hugsa um Ylju, Kjass og Snorra Helga t.d., þar sem nefndir aðilar leika sér með minni úr íslenskri þjóðlagatónlist, annaðhvort í textum eða sjálfri tónlistinni. Allir þessir aðilar heyra undir „mitt“ svið, eru í tengingum við popp og rokk ef svo mætti segja.

Mig rak því í rogastans er ég fékk hressilegt tölvubréf frá Björk Níelsdóttur þar sem hún sagði mér frá nýrri plötu, Peysur & Parruk , sem hljómsveitin hennar var að gefa út. Ég fæ slatta af svona stöðluðum fréttatilkynningum en svalur tónninn og sérstaklega ljósmyndin af sveitinni, þar sem þau líta út eins og síðrokkshljómsveit frá Portland, kveikti hjá mér áhuga (ó, en ekki hvað!). Björk sagði mér að sveitin væri að leika sér með nýja tónlistarstefnu sem hún kallaði baðstofubarokk og þau væru að vinna með orðin „fágað en örlítið lúðalegt“. Snilld, hugsaði ég. Sveitina skipa, ásamt henni, þau Eyjólfur Eyjólfsson (söngvari, langspil og flauta), Steinunn Arnbjörg Stefánsdóttir (barrokselló, söngur og skáldkona) og Björk syngur og leikur á langspil.

Lykillinn að nálgun hópsins er samsláttur tveggja heima. Nafnið Gadus morhua er latneska fræðiheitið yfir atlantshafsþorsk og því þjóðlegt og alþjóðlegt í senn. Stefnumót sellós og langspils er hugsað sem sambræðsla barokks og baðstofu, mörlandinn hittir fyrir menningarlega evrópska strauma. En gengur þetta upp?

„Yfir kaldan eyðisand“ hefur leika og setur dumbungslegan tón. Hópurinn tónar yfir tónlistinni sem er drónkennd og dularfull. „Vorið langt“ er næst og flautan setur glaðværari áferð á. Lagið íslenskt tvísöngslag. „Stúlkan og fullveldið“ er franskt lag frá 16. öld en textinn eftir Steinunni. Við erum að klifra upp í meiri fegurð og stillu. „Heimildarskrá“ er hins vegar lag eftir Eyjólf við texta eftir sjálfan Eggert Ólafsson, þann mikla meistara. Kersknislegur ljóðabálkur og tónlistin fylgir efninu. Langspilið drynur undir (ásamt öðru strengjaplokki) á meðan flautan sér um melódíuna. Flott og vel heppnuð sambræðsla.

Þessi dæmi lýsa heildinni ágætlega. Frumsamið í bland við ævafornt, íslenskir textar og franskir, dökkleitt langspil úr innstu kynstrum baðstofunnar og flauta úr furðuskógi. Óvæntir bólfélagar, allir saman. Eyjólfur semur fleiri þjóðlög og svo á Steinunn lagið „Air Iceland eða Fósturlandsins flug“. Þvílíkur titill! Eyjólfur og Steinunn syngja þetta eins og þau séu uppábúin, norpandi í sveitabæ á Suðurlandi en í textanum segir m.a.: „Flugfreyjan með raunalega augnaráðið/ók vagninum á misfellu í gólfinu.“ Þetta er eiginlega ótrúlegt, hálfgert töfraraunsæi. Vel spilað krakkar!

Þetta síðasta dæmi sem ég tek færir heim sanninn um að tónlistarmennirnir eru mjög svo áfram um að gera plötu sem fer ekki eftir hefðbundnum, „þreyttum“ leiðum. Nei, unnið er með arfinn, líkt og Þursar gerðu í eina tíð. Það er ekki hægt að setja tónlist inn í glerskáp, eitthvað sem Gadus-félagar skynja greinilega mætavel.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: