Einn Kaktus Einarsson spinnur fallegan þráð á nýrri plötu.

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 10. júlí, 2021.

Aldrei einn á ferð

Kaktus Einarsson er hvað þekktastur fyrir að vera forsprakki Fufanu en nú hefur hann gefið út sína fyrstu sólóplötu, Kick the Ladder.

Kaktus tekur æði djörf skref á þessari plötu finnst mér og er greinilega umhugað um að feta ekki þá stigu sem sveit hans Fufanu þræðir. Þegar maður hugsar um það, þessi plata er líkast til búin að gerjast í honum í meira en áratug, áratugi jafnvel, en Kaktus sást fyrst á sviði liðlega tíu ára með Ghostigital.

Kick the Ladder vann Kaktus með svissneska raftónlistarmanninum Kurt Uenala (Null & Void). Platan var samin á Íslandi og þróuð frekar í Kaupmannahöfn í samvinnu við franska píanistann Thibault Gomez. Þeir félagar unnu m.a. að því að koma óhefðbundinni píanótækni og annarri tilraunamennsku í popplagabúning og ber platan þessari vinnu fagurt vitni.

Mýkt er orðið sem er mér efst í huga eftir að hafa rennt plötunni nokkrum sinnum. Og eitthvað sem væri hægt að kalla reisn jafnvel. Platan fer aldrei út í neinn æsing heldur rúllar hvert og eitt lag áfram í höfugum gír. Flæðið er jafnt og öruggt og það er nánast eins og verkið sé viljandi til baka, Kaktus haldi upp að sér spilunum og hleypi okkur ekki of nálægt. Hér er reisuleg ró og stilla yfir. Platan er seintekin, seytlar inn í þig hægt og rólega. Gefðu henni tíma, kæri hlustandi.

Tónlistin er einslags rafskotið popp, lögin eru popplög en maður finnur fyrir þessum pælingum sem ég lýsi fyrr án þess að þær skyggi nokkru sinni á lagið sem slíkt. Tökum dæmi. „One of those“ er t.d. ein af þessum stílíseruðu rafballöðum Kaktusar, melódísk og værðarleg en í einslags goth-skotnum gáfumannagír. Það er líka eitthvað „evrópskt“ við það hvernig Kaktus nálgast þetta, lagið „My driver“ gæti t.d. hafa skotið upp kolli í löngu gleymdri franskri kvikmynd frá 1987. Meira að segja í hressari lögunum („Story of Charms“ t.d.) finnur maður fyrir þessari afskiptu nálgun ef við getum lýst þessu sem svo, nokkurs konar svöl fjarlægð við efnið sem virkar vel, gefur plötunni dulúð. Og sjá t.d. „45 rpm“ sem kom út á smáskífu. Dreymið og dulrænt, fallegt og hugleiðandi en þrætt með þessari samtíma-klassísku nálgun sem Kaktus og Gomez kokkuðu upp í Köben. Maður hugsar um þessa framsæknu poppara eins og David Sylvian hvar ræturnar voru í vinsældapoppi en úrvinnslan bæði tilraunakennd og framsýn.

Merkilegur frumburður um margt. Mér finnst eins og Kaktus sé gömul sál og verkið er óvenju þroskað fyrir mann sem hefur ekki enn náð þrítugu. Yfir því er þroski og rósemd, æðibunugangur æskunnar víðs fjarri. Ég er giska spenntur að heyra hvert hann fer með þetta í framhaldinu. Eins og svo margir þarf hann að bíða af sér eitt stykki heimsfaraldur upp á að tilkeyra efni á tónleikum en hann og John Grant áttu að fara í túr saman sem hefur nú verið frestað fram á árið 2022.

Í viðtali við V13 fyrir stuttu lýsti Kaktus því að sólóefnið gæfi honum kost á því að láta stjórnsemispúkann í sér hlaupa um frjálsum og villtum. Samt, orðið púki eða „freak“ nær einhvern veginn að kjarna þennan hægláta en mjög svo skýra hæfileikamann. Úr drungalegu rafgotapoppi í undurfagurt, klassískt skotið Evrópupopp. Ég skal segja ykkur það!

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: