Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 23. febrúar, 2019

 

Birtan bíður okkar


Nýútkomin plata Ingu Bjarkar Ingadóttur, Rómur, er fyrsta breiðskífan hérlendis með lýruleik og söng en öll lögin eru eftir Ingu.

Lýruleikur Ingu er að sönnu himneskur, og áferðin á Rómi er í senn blíð og upplyftandi. Lögin bera heiti eins og „Bjarg“, „Undir geisla grænum“ og „Uppstreymi“ og lögin eru þjóðlagakennd, jafnvel vögguvísuleg. Alþýðutónlist Íra og vísnasöngur frá Norðurlöndum kemur í hugann við áhlustun, og maður er rifinn af stað í þægilegt ferðalag. En um leið heyrist vel að lögin eru samin í dag, það er eitthvað íslenskt við þau og samtímalegt. Söngur Ingu er þá fallegur og næsta barnslegur, gefur plötunni einkennandi blæ og hann hæfir strípuðu lagamótinu vel, hvar strengir lýrunnar mynda nokk einstakan hljóm. Inga Björk er músíkmeðferðarfræðingur (þerapisti) og starfar sem slíkur í Hljómu, sem er hennar eigin meðferðarstöð, staðsett í Hafnarfirði. Upptökur á Rómi fóru hins vegar fram í Stúdíó Bambus og voru í höndum hins mikilhæfa Stefáns Arnar Gunnlaugssonar. Hann leikur á gítar í völdum lögum og Matti Kallio lék á harmonikku í völdum lögum einnig. Sigurdór Guðmundsson hljómjafnaði.

Pistilritari setti sig í samband við Ingu og forvitnaðist aðeins um herlegheitin.

„Lýran er í grunnmynd sinni eitt elsta strengjahljóðfærið,“ útskýrir hún. „Á 3. áratug síðustu aldar voru það hljóðfærasmiðir, tónlistarfólk og músíkþerapistar í Þýskalandi sem í sameiningu endurhönnuðu lýruna. Lýran mín er enda smíðuð í Þýskalandi og ég valdi sérstaklega þær tvær viðartegundir sem hana prýða.“ Inga segist einfaldlega hafa heillast af hljóðfærinu. „Ég kynntist henni í námi mínu þar í músíkmeðferð. Ég tengdi samstundis við hana og hún bara varð strax mitt hljóðfæri. Hún er notuð um allan heim til tónlistarsköpunar og meðferðar. Ég hef ekki heyrt af neinum öðrum en mér og nemendum mínum sem spila á hana á Íslandi.“

Inga segist eiga erfitt með að skilja á milli praktíkur og tónsköpunar, músíkmeðferðarfræðingurinn og tónlistarkonan séu ein og sama konan.

„Þetta eru tveir óaðskiljanlegir þættir,“ segir hún. „Sem eru í stanslausu samtali sín á milli, í starfi mínu og tónlistarsköpun. Ég hef alltaf lifað og hrærst í tónlist, að innan sem utan, og er löngu orðin tónskáld. Hef verið að skrifa tónlist og texta frá unga aldri.“

Örðugt er þá að gefa tónlistinni merkimiða, og pistilritari gerir tónlistarmönnum jafnan óleik, er hann gengur á þá með útskýringar. Er þetta popp? Þjóðlagatónlist? Klassík? Grautur af öllu saman? Spyr sá sem (varla) veit.

„Það er erfitt að finna réttan merkimiða eða skúffu fyrir tegund tónlistarinnar,“ segir Inga. „Lýran er jú alveg einstök og á sér eigin hillu bara í tónlistarrekkanum. Með söngröddinni og textunum fær hljómur hennar svo enn annan blæ. þjóðlagakennd, jú kannski. Lífstónlist, hvernig hljómar það (hlær)?“

Inntakið er fallega undirstrikað með umslaginu, sem ber með sér draumkenndan og seiðandi blæ. Hönnun og umbrot var í höndum Hörpu Halldórsdóttur, ljósmynd á Þröstur Ingason og málverk í umslagi er eftir Guðbjörgu Lindu Jónsdóttur. Ég verð líka að benda áhugasömum á fágæta myndupptöku af Ingu, þar sem hún flytur upphafslag plötunnar, „Óður til ljósanna“, á tónleikum sem skipulagðir voru af Sofar Reykjavík. Farið inn á þjónvarpið (youtube) og sláið inn „Inga Björk“.

Plötuna er hægt að nálgast í 12 tónum, Eymundsson og hjá útgefanda í Hljómu Hafnarfirði.

 

 

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: