Stjarna GDRN

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 7. nóvember, 2020.

Dansað í átt að sólu

Önnur plata GDRN, samnefnd henni, kom út í upphafi þessa árs, rétt áður en allt fór fjandans til. Á henni var markvisst skref tekið fram á við, sköpunarlega, og verður platan tekin til kostanna hér.

Frumburður GDRN, Hvað ef (2018), var svellkaldur og svalur en hér er hins vegar meira um birtu og yl. Hvað ef vakti verðskuldaða athygli á söngkonunni, svalt og nýmóðins r og b, stálkalt flæði og mínimalískt. Heilsteypt verk og skarpar línur dregnar, hvort heldur í tónlist eða almennri framsetningu. Já, GDRN steig í raun fullmótuð fram, öll stílisering á hreinu, í framkomu, útliti, umslagshönnun o.s.frv. GDRN leit út eins og poppstjarna frá fyrsta degi og þá er hálfur björninn unninn.

Á þessari plötu sem GDRN (Guðrún Ýr Eyfjörð) vinnur með Magnúsi Jóhanni Ragnarssyni og Arnari Inga Ingasyni kveður við annan tón þó að grunnstoðin sé sú sama. Notum árstíðirnar til að skilja þetta. Yfir fyrstu plötunni var haustblær, fagrir en fölir litir. Viss fjarlægð og kuldi, sem gerði hana svala. Dálítið nýjabrum líka og hráleiki sem gerði plötuna í raun ómótstæðilega. Styrkur sakleysisins. En nú er komið vor. Hiti og gróðurinn er að lifna við. Mýkt, hlýja og sól. Þetta er undirstrikað með lifandi hljóðfæraleik, sem vísar grimmt í sálar- og fönktónlist áttunda áratugarins (og enn frekar er á þessu hnykkt með umslagi og leturgerð).

Platan byrjar enda með lagi sem heitir „Vor“. Það fellur miðja vegu á milli gömlu plötunnar og þessa nýja sniðs, svona eins og til að róa mannskapinn (okkur) aðeins. Hipphopptaktar en líka vel grúvandi hljóðgervill og píanó. Heitt og kalt. Söngur er lágstemmdur en um leið svalur og seiðandi. „Af og til“ færir okkur nær sálargrúvinu sem er unnið með út plötuna. Gamlar íslenskar sveitir eins og Þú og ég og Ljósin í bænum koma í hugann, jafnvel Jóhann G. Samtímasveitir eins og Boogie Trouble hafa og verið að vinna með þetta. Bresk ný-sálartónlist frá tíunda áratugnum (Brand New Heavies, Galliano) gerir líka vart við sig. Þetta skapalón er fullkomnað á „Upp“, melódísku sálarpoppi og giska langt frá því afstrakt r og b-i sem lék um fyrstu plötuna. Plötunni er lokað með „Áður en dagur rís“ þar sem Birnir gestasyngur. Hörkusmíð, stórgott popplag sem rígheldur. Þarna njóta þessar þreifingar sem lagt er upp með á plötunni sín í botn. Rétt á undan fengum við hins vegar að heyra „Trúðu mér“, sem er meira í ætt við eldri lögin. Ljúft og dularfullt og endar með skemmtilegum tilraunum. Sömuleiðis þrælvel heppnað, þótt af allt öðrum toga sé.

GDRN tekur með þessari plötu hugrökk og í raun bráðnauðsynleg skref fram á við. Endurtekning á síðustu formúlu var greinilega ekki uppi á borðum, sem betur fer. Sem tónlistarkona er GDRN, nú sem áður, hin frambærilegasta. Sjarmerandi og „púllar“ poppstjörnuáruna með glans. Ég skil vel hvert hún er að fara á þessari plötu og uppleggið er skýrt. GDRN er um margt brautryðjandi og fyrirmynd og ég vil að fleiri stúlkur láti skeika að sköpuðu, gefi út, prófi sig áfram og taki pláss. Platan hefur enda lifað góðu lífi á þessu ári, lögin heyrast reglubundið í ýmsum miðlum og fólk er að bíða eftir því að geta séð söngkonuna á sviði, nært smíðarnar og gefið þeim það líf sem þær eiga skilið, eins lífrænar og grúvandi og þær nú eru.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: