Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 20. maí, 2017

Sem hið ljúfasta fjallahunang…

Ný plata með Ham, Söngvar um helvíti mannanna, lítur dagsins ljós á næstu dögum. Pistilhöfundur komst í prufuþrykk af vínylnum í vikunni og eys hér úr gleðibrunninum.

Það var fyrir 29 árum, haustið 1988, að ég gekk inn í verslun Fálkans á Laugaveginum og sá þar plötuna Hold með Ham á útsölu. 99 krónur. Ég var fjórtán ára, farinn að hlusta á „skrítna“ og óáheyrilega tónlist af miklum krafti og hafði heyrt um þessa hljómsveit. Ég var forvitinn, þetta var spennandi og dularfullt og magnað umslagið (og enn magnaðra veggspjaldið innan í) fékk hjartað til að hamast. Ég setti plötuna á heima við og hafði aldrei heyrt annað eins á ævinni. Ég hafði enga reynslu af svona þungri tónlist og stóð án gríns agndofa við fermingargræjurnar. „Trúboðasleikjari“, með grófum textanum og sínu níðþunga skriði, lak úr hátölurunum. Þetta gat ekki verið. Og þetta gat reyndar ekki verið, þar sem ég var að leika 45 snúninga plötu á 33 1/3 snúninga hraða.

Ham hefur fylgt mér alla tíð síðan og væntumþykjan nær út fyrir gröf og dauða. Oft hendi ég því fram að hér fari besta hljómsveit í heimi og ég meina það – innilega. Kunningsskapur, m.a. vegna starfa míns, hefur tekist með mér og meðlimum í seinni tíð og þó að unglingshjartað fari stundum á brokk er ég stend andspænis Hertoganum eru öll samskipti línulegri, ef við getum sagt sem svo. Það var því ekki leiðinlegt að taka á móti bassaleikara sveitarinnar síðasta miðvikudag, honum S. Birni Blöndal, er hann kom í heimsókn, vopnaður forláta prufuþrykki af vínylútgáfu plötunnar nýju sem ber hæfandi Ham-heiti, Söngvar um helvíti mannanna.

Blöndal sagði mér upp og ofan af plötunni. Arnar Guðjónsson hefði tekið upp og gamall félagi, sjálfur Howie Weinberg, hefði verið fenginn í hljómjöfnunina. Sticky Records, útgáfa Priksins, gefur út og mikill og almennur hressleiki með þetta allt saman. „Ja…sko,“ segir S. Björn kímileitur, þegar hann er spurður út í innihaldið. „Eitt sem við höfum lengi rætt okkar á milli er að okkur langaði til að vera nýbylgjuband.“ Svo hlær hann sínum einkennandi, prakkaralega hlátri. Og sjá, það er rétt. Hlustið t.a.m. á upphaf lagins „Þú lýgur“ sem fór í loftið í vikunni. Klingjandi, hvassir gítarar opna lagið, ekki þessi níðþungi tvígítar sem einkennir mörg laga Ham. Lagið er keyrt áfram, er hratt og hrátt og minnir í því samhengi á lög eins og „Auður Sif“ eða „Svín“ fremur en drungaópusa seinni tíma Ham. Lögin eru alls tíu, og meira en minna í þessu formi. Þessi yfirmáta dramatík sem var rauði (rauðsvarti?) þráðurinn í síðasta verki, Svik, harmur og dauði víkur fyrir um margt einfaldari en ekki síður áhrifamikilli hanteringu. „Snaggaralega gert“ hefði Bjarni Fel sagt. Hinn einstaki stíll Ham er engu að síður yfir og allt í kring og grínaktugheitin alltaf skammt undan (lög heita t.d. „Gamli maðurinn og asninn“, „Ég senn dey“ og „Morðingjar“) og í einu lagi bregða menn fyrir sig sjóaralegu „ræræræ“ eins og ekkert sé eðlilegra. En svona er Ham. Og þeir eru Ham og við erum Ham.

Platan nýja verður fáanleg í takmörkuðu upplagi nú í dag en Ham mun hita upp fyrir Rammstein í Kórnum sem kunnugt er. Hún kemur svo á almennan markað fljótlega eftir helgina og útgáfutónleikar verða eftir miðjan júní.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published.

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: