103484_original

Slint er allstaðar um þessar mundir  út af Spiderland endurútgáfunni miklu sem kom út í síðasta mánuði. Sjá hér. Sellurnar hafa verið í yfirvinnu vegna þessa og ég hef mikið verið að hugsa um þessa merku sveit undanfarna daga. Eftir viku ætla ég að birta almennan pistil um sveitina í Morgunblaðinu en hér er svona hliðarpæling fyrir okkur, þessa djúpt sokknu. Gaman væri að fá viðgjöf við þessu.

Ég hef nefnilega komið auga á ýmis líkindi með Slint og Joy Division og ætla hér með að varpa þeim fram, númeruðum. Ég minnist og á “ólíkindin” um leið:

1. Báðar sveitir gáfu út tvær breiðskífur með stuttu millibili, báðar með svart/hvítum umslögum, dimmtónuðum nokk. Í tilfelli JD eru báðar plötur reyndar meistaraverk en Tweez telst seint ná upp í þann flokk, meira atrenna að meistarastykki, sem svo sýndi sig í Spiderland.

2. Báðar sveitir innihéldu fjóra karlmanns meðlimi sem voru merkjanlega yngri en gengur og gerist þegar hlaðið var í snilldina. Joy Division 22, 23 þegar fyrsta platan kom út, Slint flestir undir tvítugu þegar Spiderland kemur út.

3. Tónlistin er í báðum tilfellum myrk og dulúðug, þó á ólíkan hátt. Joy Division meira í hreinu þunglyndi og myrkri, Slint í meiri taugaveiklun og e-m hrikaleik sem kraumar undir oft sléttu, fallegu og viðkvæmnislegu yfirborðinu.

4. Tónlistin er þannig, í báðum tilfellum, að maður trúir því trauðla að síðunglingar í stuttbuxum (Slint) eða bjórelskandi grallarar frá Manchester (Joy Division) hafi búið hana til. Maður sér fyrir sér djúpt þenkjandi, lifaða menn, með skorin andlit og drjúga spilamennsku á herðunum. Það er eitthvað gap þarna sem erfitt er að skilja, tónlistin tengir ekki nægilega vel við aðilana sem svo gerðu hana. Að vísu voru Slint-limir búnir að spila saman í tíu ár en Joy Division er ennþá ráðgáta að þessu leytinu til, þ.e. hvernig þeir urðu svo “tilbúnir” svo fljótt.

5. Báðar sveitir hrundu af stað heilu tónlistarstefnunum og mörkuðu djúp spor í tónlistarsöguna. Áhrif beggja eru enn mikil. Joy Division fann ekki upp síðpönkið en er gildasta sveitin sem þeirri stefnu tilheyrir. Gotarokkið sem á eftir kom á þá mikið undir henni. Slint hratt þá síðrokkinu, en einnig reiknirokkinu (math-rock), úr vör.

6. Söngvarar beggja stríddu við geðræn vandamál, einn þeirra framdi sjálfsmorð  en hinn fór á geðdeild daginn eftir að Spiderland var kláruð. Í báðum tilfellum voru hljómsveitarfélagarnir engan veginn í stakk búnir að veita aðstoð/huggun, sökum aldurs, vanþroska. Þetta plagar suma meðlimi Joy Division í dag en ég veit minna um Slint (það er aðeins ýjað að því þó í fínu viðtali í Guardian)

Tek það fram að þetta er með öllu óvísindaleg greining, bara hlutir sem komu upp í kollinn. Þigg með þökkum viðbætur, gagnrýni, umræðu…

hail the darkness…

joy division 31

 

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: