crop_2627705

 

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 11. júlí, 2015

Að endimörkunum

• Swans og Loop spila á ATP í kvöld
• Stórmerkar sveitir, hvor á sinn hátt

Lokadagur All Tomorrow’s Parties-hátíðarinnar er í dag. Dagskráin hefur verið einkar tilkomumikil verður að segjast en í þessum pistli mun ég að einblína á tvær merkissveitir sem troða upp í kvöld. Báðar komu þær fram á níunda áratugnum og áttu eftir að hafa gríðarleg áhrif á þróun neðanjarðarrokks, áhrif sem enn gætir í dag. Merkilegar hvor á sinn hátt, sannarlega, en um leið er ansi margt sammerkt með þeim. Báðum er þeim stýrt af mönnum sem gefa ekki tommu eftir í listrænum umleitunum og báðar leggja þær umtalsvert upp úr eyrnabræðandi hávaða og tónrænni naumhyggju þar sem hámarksnýting á endurtekningu er dagskipunin. Báðar sneru þær þá aftur til starfa eftir talsvert hlé við mikinn fögnuð hinna trúuðu.

Swans

Swans var stofnuð í New York árið 1982 og tengdist óbeint „nei-bylgjunni“ svokölluðu („no wave“) þar sem afbygging og endurtúlkun á möguleikum rokktónlistarinnar var málið. Swans rifu þannig frá allan óþarfa; eftir var gríðarþungur undirtónn, löturhæg en nánast kæfandi framvinda, og leiðtoginn, Michael Gira, var bókstaflega í öðrum heimi þegar hann var á sviði. Ofsalegt, hryllilegt, stórbrotið. Hávaðinn á tónleikum var það mikill að fólk flúði unnvörpum út.
Á tíunda áratugnum fór Gira með Swans í aðrar áttir, orðinn leiður á því að vera hávaðabundinn og fór svo að sveitina þraut örendi árið 1997. Í framhaldinu gaf Gira út tónlist með Angels of Light auk þess að gefa út sólóplötur. Þessi tónlist var einatt órafmögnuð og viðkvæmnislegri, en þó mátti alltaf greina ókennilega spennu undir yfirborðinu. Angels of Light tóku að minna eilítið á Swans með tíð og tíma og svo fór að Gira ákvað að endurvekja þá síðarnefndu, var einfaldlega farið að þyrsta í ógurlegheitin á nýjan leik. Þrjár plötur hafa komið út síðan 2010, og orðið epík nær svona varla utan um það sem þar er að finna.

Loop

Loop var stofnuð í London árið 1986 og lagði upp með sýrulegið nýbylgjurokk og fyrst um sinn var sniðið ekki ólíkt því sem ævintýragjörnustu sveitir hins upprunalega sýru- og blómatímabils voru í. Síðpönksandi lá þó til grundvallar og Loop voru t.a.m. nokkuð á undan sinni samtíð, skóglápsrokkið sem sprakk út upp úr 1990 átti t.d. ýmislegt undir Loop. Það ár kom hins vegar svanasöngur hennar út en sveitin hafði þróast á tilkomumikinn hátt á undraskömmum tíma, lokaverkið (A Gilded Eternity) magnþrungið og mínimalískt meistaraverk.
Eftir Loop sinnti Robert Hampson, leiðtogi hennar, verkefninu Main og líkt og hjá Gira var hávaðinn tónaður niður. Main reyndist vettvangur fyrir hljóðlist og sveim og sveitin (sem er í raun réttu bara Hampson) heimsótti Ísland m.a. árið 2004 og lék í Klink og Bank. Það var svo í hitteðfyrra sem Loop kom saman aftur og lék á nokkrum tónleikum. Fyrst um sinn voru upprunalegir meðlimir með en Hampson er búinn að reka þá alla í dag og kippa… tja… eigum við að segja meðfærilegri liðsmönnum um borð. Fyrst um sinn réð hrein fortíðarþrá málum og því gleðilegt frá því að segja að þrjár stuttskífur með nýju efni munu koma út í ár og kom sú fyrsta, Array 1, út fyrir stuttu. Innihaldið er nákvæmlega ekkert slor, rökrétt framhald af A Gilded Eternity, smekklega kryddað með hljóðheimi Main. Góða skemmtun í kvöld. Megi endurtekningin – í tvíræðum skilningi – vera með ykkur.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: