taylor_bestof2013___revised

[Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 28. desember, 2013]

 „Varstu búinn að sjá árslistann hjá…“

• Í desember hrannast árslistar tónlistarmiðlanna upp
• Er eitthvað á þessu að græða?

Desember ber með sér mikla gósentíð fyrir tónlistaráhugamanninn því að þá birta þeir tónlistarmiðlar sem vettlingi geta valdið lista yfir bestu plötur ársins. Þá gefst kjörið tækifæri til að a) átta sig á helstu afrekunum í tónlistarútgáfu ársins og b) fá ábendingar um gæðagripi sem fóru framhjá manni. Þetta er mikið gleðirúss, maður heyrir alls konar hluti sem gleðja mann en um leið er þetta tímabil ákveðinnar tilvistarlegrar angistar þegar maður áttar sig á því að tíminn til að leggjast yfir þetta er ekki til. Að viðbættum þeim hnút þegar maður er sjálfur beðinn um svona lista en venjulega hefur maður ekki hugmynd um hvað skal setja á hann (þetta vandamál hefur aukist með árunum). Með árunum hefur maður að sama skapi lært að taka þetta ekki eins alvarlega og maður gerði, og í ár henti ég saman þeim plötum sem ég mundi þá stundina. Allt skotheldar plötur eðlilega en þær voru margar fínar sem ég heyrði þetta árið sem fóru ekki á þennan lista en hefðu kannski gert það hefði ég verið beðinn um listann daginn eftir. Og það skiptir ekki sköpum, trúið mér, hvort ég hafi sett Majical Cloudz í sjötta sæti eða það fjórða.

Listin að gera lista

En allt um það. Ég leit inn á vefsíður sem safna saman svona árslistum og veita yfirlit yfir hvaða plötur voru tíðustu gestirnir (mæli með að þið kíkið t.d. á Metacritic, Any Decent Music? og albumoftheyear.org til að fá dýpri sýn á þetta). Kanye West nær hvað bestum „árangri“ að þessu leytinu til, athyglisvert þar sem plata hans Yeesuz hefur verið nokkuð umdeild. Árangur Vampire Weekend kemur líka á óvart, en plata hennar full „hefðbundin“ til að verma efstu sæti svona lista, þá sérstaklega lista jaðarbiblíunnar Pitchfork. Aðrir fengsælir eru t.a.m. Daft Punk, Arcade Fire, My Bloody Valentine, The National, HAIM, Disclosure, David Bowie, Nick Cave, Kurt Vile, John Grant og Arctic Monkeys. Áherslur ólíkar á milli miðla eðlilega en það er merkilegt hvað þetta er oft sama súpan. Oft finnst manni eins og maður sé frekar að lesa lista yfir allar helstu plötur ársins, sérstaklega þegar blöð birta lista yfir 80 plötur eða hvað það nú er í engri sérstakri röð (skamm, allmusic.com). Sum blöð, eins og Mojo, velja þá leið að spila út óvæntu trompi, en Bill Callahan var í efsta sæti þar með plötu sína Dream River. The Quietus setti þá Thrill Jockey dúettinn Grumbling Fur í fyrsta sætið.
Fleiri óvæntir vinklar eru á þessu. Síð-svartþungarokkssveitin Deafheaven (svona „Sigur Rós spilar svartþungarokk…“) skoraði t.d. hæst á árinu hjá Metacritic. Og svo eru það verkin sem falla algerlega á milli þilja. Steve Mason (fyrrum leiðtogi Beta Band) gaf út algerlega frábæra plötu á árinu, Monkey Minds In The Devil’s Time. Hún fékk stórgóða gagnrýni en var lítt sjáanleg í ársuppgjörum. Svo er það hin hliðin á þessu, margir kvarta t.d. yfir því að plata These New Puritans, Field of Reeds, hafi verið sett út í horn en sú plata er ofmetin að mínu mati, gott dæmi um umbúðir umfram innihald, og því ágætt að hún hafi ekki verið áberandi í uppgjörunum.

„Bestu“ plöturnar

Þó að maður sé afar svag fyrir þessum listum er nauðsynlegt að taka þeim með fyrirvara. Langflestir miðlarnir eru temmilega meginstraumsmiðaðir, meira að segja þessir jaðarbundnu. Fyrir allnokkru varð til eitthvað sem hægt er að kalla „indí-meginstraum“, virðist þversögn en lýsir vissu menningarástandi sem ég ætla ekki að greina frekar nú. Allt er þetta þá vestrænt, mikið til bundið við Ameríku og Bretland o.s.frv.. „Bestu“ plöturnar rata oft til manns eftir öðrum leiðum; í gegnum einkablogg, umræðutöflur eða eru veiddar úr munni vinar/tónlistaraðdáanda sem maður hittir í raunheimum úti á næsta horni. Ef þær ná því þá. Maður veit – og mikið er það óþægileg tilhugsun – að einhvers staðar þarna úti eru snilldarverk sem maður á aldrei eftir að heyra.

 

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: