1184777_10151819978058909_806469732_n

 

Síðunni hefur borist bréf. Og það frá Austurríki. Hjörtur Hjörleifsson; söngvari, bassaleikari og einn lagasmiða íslensk-austurrísku hljómsveitarinnar Chili and the Whalekillers var að ota að mér þriðju plötu sveitarinnar, Turn, sem út kom síðasta haust.

Bróðir hans, Árni, er einnig meðlimur í þessari fimm manna sveit sem leikur áferðarfallegt og grípandi nýbylgjupopp/rokk. Sveitin var stofnuð í Salzburg árið 2009 og hefur verið æði virk í þennan tíma og platan nýja ber það með sér að ákveðin reynsla og tilkeyrsla er kominn í þennan hóp.

Ég ætla ekki að eyða netpúðri í sögu og feril sveitarinnar (forvitnir geta svalað þeim þorsta með hjálp hlekkjanna í botni pistilsins) heldur rýna aðeins í sjálfan gripinn.

Eins og segir, það fyrsta sem slær er hversu fullmótaður hljómur sveitarinnar er. Þetta er samkeppnisfært eins og sagt er, fullkomið í útvarp t.a.m., og engin fyrirstaða, alltént ekki listræn, fyrir velsæld á alþjóðamarkaði myndu vindar blása sveitinni þangað. Hljómurinn er þarna, lagasmíðarnar sömuleiðis og útlitið meira að segja líka. Tvö myndbönd, gerðarleg mjög, hafa þá verið unnin við lög af plötunni (Sjá hérna og hérna). En vindar þurfa að vera sérlega hagstæðir eigi frægð og frami að liggja fyrir eins og alkunna er og ég veit heldur ekkert hvort piltarnir eru yfirhöfuð innstilltir á slíkt.

Annað sem vinnur með plötunni er fjölbreytileiki. Hún er þó ekki út um allt að hætti Beastie Boys eða annarra stílaflakkara heldur er fjölbreytileikinn til kominn vegna skiptinga tónsmíða. Þannig á okkar maður Hjörtur fimm lög, Chili sjálfur (sem er Tomasson) sex lög (eitt í samstarfi við Árna) og Michael Szedenik (gítar, hljómborð o.fl.) eitt lag. Þetta gerir plötuna skemmtilega blæbrigðaríka.

Lögin eru annars vel flest upplífgandi og hressileg, án þess þó að vera einhver froða. Mér verður hugsað til seinni tíma AmPop, jafnvel Of Monsters and Men, ekki að tónlistin sé af sama meiði, heldur er andinn, áferðin lík. Bjart og brokkandi popprokk sem sveipar sig um eyrun og rífur hlustandann með. Spilamennska er þá til fyrirmyndar og lögin eru smekklega skreytt píanóum, hljóðgervlum og blásturshljóðfærum þegar við á. Það er mikið í gangi en lögin eru heldur aldrei kaffærð með stælum eða ofgnótt. Það er gott jafnvægi hvað þetta varðar. Mið-Evrópsk rómantík svífur yfir vötnum textalega séð; bókaormabragur einkennir þá og Beauvoir, franskar stúlkur, Nürnberg, Marx og villur við sjóinn fljóta um á meðal annarra minna úr þessari þéttbýlu, söguríku álfu.

Hljómur plötunnar er mjög góður; opinn og lifandi. Sveitin tekur víst að mestu leyti sjálf upp, rækilega studd af 19 ára hljóðmanninum Felix, bróður Chili, og því rétt að hrósa honum sérstaklega.

Hér eru svo hlekkirnir gott fólk:

http://chiliandthewhalekillers.com/
http://www.gogoyoko.com/artist/chiliandthewhalekillers

 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: