Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 12. maí, 2018

Siglt um sönghöfin sjö


Úrslitin í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva fara fram í Lissabon í kvöld. Tugir þjóða munu mætast í poppvænni sjóorrustu svo stuðst sé við líkingamál keppninnar í ár. Hver mun standa að lokum hnarreistur í stafni og hvurjir þurfa að ganga plankann?

Ég lofa þér, lesandi góður, að þessi pistill verður næstum því jafn skemmtilegur og lýsingar kollega míns Gísla Marteins frá Lissabon. Ég ætla líka að reyna (en get ekki lofað) að hafa hann í styttra lagi svo að sem flestar ljósmyndir komist fyrir með honum – sem væri táknrænt því að fyrst og síðast á þessi keppni, sem einatt er kölluð „Júróvisjón“ á götum úti, að snúast um myndríka gleði, stuð, fjör og flipp. Það á ekkert að masa of mikið. Góð og eftirminnileg lög eru sosum þegin með þökkum líka og þegar ég segi að það eigi ekki að masa er ég úti á túni. Því að um fáa tónlistarviðburði er masað jafn mikið. Og allir hafa á honum skoðun!

Orðin hlaðast upp, Guð minn almáttugur, og því ætla ég að eyða restinni af sjóræningjapúðrinu í að lýsa því sem helst hefur vakið athygli mína síðustu tvö undanúrslitakvöld. Ég hef ábyggilega einhvern tíma haldið langa tölu um að lagið skipti máli fyrst og síðast, umbúðirnar engu, en eftir að hafa horft á þessa undankeppni hef ég algerlega skipt um skoðun. Þau atriði sem ég naut mest voru þau sem voru með seinni þáttinn tiltölulega íburðarmikinn – og ef jafnvægi næst á milli lags og sviðsetningar, enn betra. En alls ekki nauðsynlegt.

Búlgaría var að gera gott mót hjá mér. Sia/Lady Gaga syngur í evrópoppsútgáfu af Dead Can Dance. Snilld. Alexander gamli Rybak var þá nettur, sjarmatröll hið mesta. Ég var líka hrifinn af lögum sem voru djörf og nútímaleg, Slóvenía átti hiklaust besta tilleggið þar en Austurríki kom og sterkt inn að því leytinu til. Ég var hins vegar ekkert of hrifinn af hermikrákunum, jújú, hin kýpverska Beyoncé fékk mig til að dilla mér út í annað (sæmilegir Shakiru-taktar) en Svíinn og Michael Jackson-heiðrunin, nei takk. Danir voru þá í fullkominni flatneskju með víkingana sína, í takt við landslagið þar, og það þýðir ekkert að hrópa eftir hærri jörð á bjagaðri íslensku. Gamla herraþjóðin í ruglinu. Tékkar voru í takt við tímann og ég hrópa húrra fyrir ofurleikhúsi Moldóvu og þá sérstaklega Úkraínu, hvar sonur Drakúla átti firnafallegan sprett á brennandi flygli. Ja hérna hér!

Góða skemmtun í kvöld, kæru landar. Gangið hratt um gleðinnar dyr.

 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: