Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 19. maí, 2018


Dauðarokkið lifir


Íslendingar, eins og aðrar Norðurlandaþjóðir, eru hallir undir öfgarokk. Hér verður rýnt í dauðarokkssenu dagsins í dag auk þess sem nýjasta verk Beneath er sett undir smásjána.

Öfgarokkið sprettur nefnilega svo ljómandi vel hér á landi elds og ísa. Þurrkatíð kemur endrum og eins, eðlilega, en angar þessa eins og dauðarokkið, svartmálmurinn og harðkjarninn þrífast venjulega vel. Senur koma og fara, kynslóðaskipti eiga sér stað, en þorsti Íslendinga í eitthvað hratt, hátt og grimmt er mikill, eins og reyndar víðast hvar annars staðar á Norðurlöndum.

Svartmálmurinn er t.d. við einstaklega góða heilsu nú um stundir en mig langar til að fjalla sérstaklega um dauðarokkið í þessum pistli, sem er við sæmilegustu heilsu sömuleiðis. Við höfum séð nokkrar bylgjur koma og fara, fyrsta bylgjan skall á upp úr 1990 (Sororicide o.fl.) og sú næsta reis á að giska fimmtán árum síðar (Severed Crotch o.fl.). Í dag fara með himinskautum m.a. Cult of Lilith, Grave Superior, Narthraal, Nexion, Úlfúð, Gruesome Glory og Devine Defilement, svo eitthvað sé nefnt. Og mektarsveitin Beneath, sem verður nú gerð að sérstöku umfjöllunarefni.

Sveitin var stofnuð veturinn 2007-2008 og hefur haft á að skipa fjölda manns í gegnum tíðina, m.a. nokkrum af hetjum fyrstu bylgjunnar. Stuttskífan Hollow Empty Void kom svo út 2010 á vegum Mordbrann Musikk en fyrsta breiðskífan, Enslaved by Fear, kom út árið 2012 á Unique Leader Records. The Barren Throne fylgdi henni eftir árið 2014 og sú nýjasta, Ephemeris, kom út í fyrra.

Beneath leggja sig eftir byljandi, en þó tæknilegu, dauðarokki og hafa haldið þeirri línu nokkuð vel í gegnum nefndar plötur. Ephemeris er ofsaleg. Gríðarkeyrsla og þyngsli, stórkostlegir tæknisprettir en aldrei á kostnað lagasmíða og áferðar, sem er vel glæst. Menn leyfa sér að stíga út fyrir formúluna (þessi geiri á það til að vera viðkvæmur fyrir slíku) og oft fær platan að anda, hægir og stemningsríkir kaflar gera vart við sig og „ódauðarokkslegir“ gítarar skreyta hljóðmyndina smekklega á köflum.

Þá ber að geta þess að Reykjavík Deathfest lýkur í kvöld en það hefur staðið yfir síðan á fimmtudaginn á Gauknum. Margar af þeim sveitum sem ég nefndi hér í upphafi hafa verið að leika þar. Beneath spila þá í júní á Húrra, fyrstu tónleikar sveitarinnar í um tvö ár en hana skipa nú þeir Benedikt Natanael Bjarnason (söngur), Jóhann Ingi Sigurðsson (gítar), Unnar Sigurðsson (gítar) og Magnús Halldór Pálsson (bassi). Jóhann tjáði blaðamanni að trymbli yrði flogið inn frá San Francisco og er það enginn annar en Gabe Seeber sem hefur m.a. leikið með Decripit Birth, Faceless, The Kennedy Veil og sjálfum Abbath. Heill sé honum og Beneath-liðum öllum!

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: